Mér finnst þessi tilvitnun tengja vel saman þau áhugamál sem ég er yfir og líklega ætti þessi grein erindi inn á þau bæði.
Þetta gæti jafnvel orðið tilfinningaþrungin (ekki um of þó) grein hjá mér og ég vona að þið afsakið.
Ég var í bíó og sá Almost Famous og hún vakti eitthvað innra með mér sem gerir það að verkum að ég verð að öskra:“ég elska tónlist, ég elska rokk!” Ég öskra ekki að ég sé gullið goð, eins og ein aðalpersóna í myndinni gerir og vitnaði þar með í Robert Plant sem gerði það víst einu sinni, því ég er það ekki, ég hef aldrei nokkurn tímann lært á hljóðfæri og fæ því aldrei að skapa neitt svona. Ég er fastur í sömu sporum sem aðalpersóna myndarinnar og flest ykkar, sem eruð að lesa, eruð í. En hvað með það, við höfum tónlistina og við getum notið hennar og ég held að það sé að vissu leyti mun betra, alla vega nógu gott.
Það rifjaði upp fyrir mér hvernig það er að finna tónlist sem snertir mann, það er í raun stutt síðan að það gerðist síðast hjá mér þegar ég byrjaði í alvörunni að hlusta á Placebo. Það rifjaðist upp fyrir mér þegar ég féll fyrir Queen og eyddi öllum peningum mínum í að kaupa allt sem ég komst yfir með þeim. Það rifjaðist líka upp fyrir mér í bílnum á leiðinni heim þegar Wildboys byrjaði að Duran Duran var líklega fyrsta ástin mín (í tónlistarlegum skilningi), síðan Bítlarnir og síðan hef ég kynnst meiru og meiru.
Tónlist skiptir mig máli og ég er heppinn að hafa hana sem förunaut í gegnum lífið, ég vona að ég muni aldrei gleyma því. Ef maður getur lokað augunum og skynjað tónlistina og fundið hverning hún smýgur inn og vekur tilfinningar innra með manni þá er lífið ekki merkingarlaust. Ef tónlistin hefur þessi áhrif á þig þá ertu heppinn og mér er sama hvort þú sért að hlusta á Beethoven eða Slayer, það skiptir ekki máli.
Ég er örugglega kjánalegur oft þegar ég er að hlusta á tónlist, ég sveifla höndunum, ég þykist spila á gítar eða berja trommur, ég þykist stjórna hljómsveitinni, ég hef ímyndað mér að ég sé að syngja í míkrófón þegar ég var með kúst, ég syng af hjartans list þó rödd mín sé ómerkileg. Tónlist getur komið mér til að gráta eða hlæja og allt þar á milli.
Kannski þurfti ég ekki að skrifa þessa grein nema fyrir það eitt að geta öskrað á þessum stað sem er í raun turninn sem ég nota yfirleitt til að tjá mig: “ég elska tónlist, ég elska rokk og ég er glaður að ég er lifandi til að njóta þess!”
Aldrei gleyma tónlistinni.
<A href="