Það er oft verið að tala um góða og lélega söngvara. Ég er reyndar með ömurlegt tóneyra þannig að ég er ekki manna dómbærastur en hér ætla ég samt að slengja mínum hugsunum á borðið.
Mín skoðun er nefnilega sú að menn geti haft góða söngrödd og verið góðar söngvarar en það fari ekki nauðsynlega saman (það er tilviljun en ég er að hlusta á Maus einmitt núna…) Ég ætla að leyfa mér að fullyrða einnig að í rokkinu séu oft gaurar að syngja sem hafa ekkert neitt frábæra rödd, en ég myndi samt kalla þá góða söngvara… T.d. í kántrí eru söngvararnir yfirleitt með mjög góða rödd. Þeir eru bara oft algerlega talentlausir svona annars. Og áður en ég verð fleimaður þá á ég helling af kántrídiskum… Ég skammast mín fyrir það því það er kannski 10% þeirra sem eru góðir diskar.
Nóg um það. Í rokkheiminum virðist skipta meira máli attitjúd en söngrödd þegar á að fara að meika það. Ekki að ég kvarti, uppáhaldsbarkarnir mínir eru í Bob Dylan, Billy Corgan, Ozzy Osbourne, Megas og kannski Robert Plant. A.m.k. þrír af þessum mönnum eru ekki með neina snilldar söngrödd en ég myndi samt kalla þá góða söngvara því þeir skila textanum með þeirri tilfinningu sem þarf og það er það sem ég leita eftir en ekki einhverjum látúnsbörkum. Þegar maður heyrir Dylan syngja lag eins John Brown þá rennur manni kalt vatn milli skinns og hörunds. Ef Christina Aguilera myndi reyna við þetta yrði það bara grátbroslegt.
Ef einhver man eftir laginu When Love Comes to Town með U2 og B.B. King þá er það lag sem ég heyrði og fannst strax að Bono væri frekar raddlítill. Enn og aftur samt, hann flytur textana yfirleitt af prýði. Það er því hið besta mál að mínu mati að rödd og útlit virðist ekki vera nauðsynlegt til að meika það í rokki.
Eins og Billy Corgan orðaði það: “For a 6-foot-3 guy with no hair and a whiny voice, I´ve done all right”