Þessi stórskemmtilega mynd hefur fengið góða dóma gagnrýnenda og sérlega góðar umsagnir almennra áhorfenda, ekki síst þeirra sem muna eftir hljómsveitinni Kiss og vinsældum hennar! Í aðalhlutverkum eru nokkrir fantagóðir leikarar af yngri kynslóðinni sem fara á kostum með Edward Furlong, Sam Huntington og Giuseppe Andrews í fararbroddi.
Hér segir af fjórum ungum strákum sem eru eitilharðir aðdáendur hljómsveitarinnar Kiss og hafa lengi látið sig dreyma um að komast á tónleika með þeim. Þegar þeir frétta af fyrirhuguðum tónleikum sveitarinnar í Detroit ákveða þeir að láta ekkert stöðva sig í að komast á þá. Til að svo megi verða neyðast þeir til að skrópa í skólanum, brjóta allar útivistarreglur og síðast en ekki síst, að útvega sér sjáldséða aura til að eiga fyrir miðanum. Og til að bæta gráu ofan á svart þá er löngu uppselt á tónleikana! En sumir draumar verða bara að rætast!
Til fróðleiks!
Þungamiðja Detroit Rock City eru tónleikar sem hljómsveitin Kiss hélt í borginni sumarið 1978. Til að gera umgjörðina sem besta og trúverðugasta fékk leikstjórinn alla meðlimi hljómsveitarinnar til að endurskapa þessa tónleika fyrir myndina frammi fyrir 8.000 æstum aðdáendum. Það sést ekki að undir allri málningunni að þeir Gene Simmons og félagar hans í Kiss eru orðnir 49 ára!
geðveik mynd sjáið hana