
Af hverju þá ekki að sniðganga ESSO því þeir bjóða sínum dyggustu viðskiptavinum, Safnkortshöfunum, ýmiss fríðindi sem “almenningur” fær ekki? Eigum við þá ekki að segja upp áskrift að Stöð 2 vegna þess að M-12 áskrifendur (þeir sem eru áskrifendur allt árið um kring) fá tilboð á ýmsum hlutum sem við hin fáum ekki? Eru Hagkaup, 10-11, Útilíf, Debenhams o.fl. þá ekki djöfullinn því þau bjóða E-Korthöfum árlega endurgreiðslu, en ekki VISA-korthöfum? Mér leikur forvitni á að vita hvað það er við þetta tilboð RR ehf. sem er svona rangt? Ekki er það skert framboð á miðum, því Placebo miðar verða ekki fleiri en 5300, meðan miðar á Metallica eru 3falt fleiri. Vill einhver vinsamlegast útskýra fyrir mér hvað RR er að gera sem er svona siðlaust, ég, með margra ára reynslu af verslunarstörfum get ómögulega séð það.
Metallica er án efa ein frægasta, ef ekki bara frægasta hljómsveit sem hefur spilað, og mun spila fyrir Íslendinga í nánust framtíð. Þessir tónleikar verða líklega þeir fjölmennustu sem við höfum séð í áraraðir. Við eigum að vera þakklát RR ehf. fyrir þetta framtak, ekki að fara í fýlu út í þau fyrir að beita því sem mér sýnist vera ósköp venjuleg leið til að glæða sölu og verðlauna trausta viðskiptavini, hlutur sem kemur báðum aðilum til góðs á endanum.
Ég vil einnig fyrirfram biðjast afsökunar á hugsanlegum alhæfingum í greininni, því væntanlega eru mun fleiri ánægðir með RR ehf en óánægðir, þrátt fyrir háværar raddir þeirra síðarnefndu.