Í júlí árið 1979 gáfu AC/DC út sína sjöundu breiðskífu sem nefndist Highway to hell. Platan var tekin upp í Roundhouse stúdíóinu í London undir stjórn upptökumannsins Mark Dearnley og um hljóðblöndun sá Tony Platt. Prodúserinn var hinsvegar Robert John “Mutt” Lange. Á þessum tíma voru meðlimir hljómsveitarinnar þessir:
Bon Scott – söngur
Angus Young – gítar
Malcolm Young – gítar
Cliff Williams - bassi
Phil Rudd – trommur
Að mínu mati er þetta ein besta plata hljómsveitarinnar og Bon Scott mikið betri en Brian Johnson (ég veit að margir eru ósammála, en tek það skýrt fram enn og aftur að þetta er bara mitt álit). Því miður var þetta síðasta platan hans, því ári seinna drakk hann sig til dauða á miklu fylleríi.
Öll lögin á plötunni eru eignuð Young-bræðrunum og Bon Scott, af því þeir sömdu lögin í sameiningu. Bon Scott er nefnilega maðurinn á bakvið textana, Angus Young sér að mestu leyti um gítarriffin frægu og sólóin, en Malcolm er sá sem sér um melódíurnar og heldur lögunum saman
Plata þessi byrjar á virkilega hressilegu gítarriffi frá Angus Young. Svo tekur við skrækur og rokkaður söngstíll Bon Scotts, en hámarki í kraftinum er þó náð í viðlaginu, þar sem bakraddirnar taka undir með honum. Hér er ég að tala um titillagið, Highway To Hell. Þetta lag er frábært að öllu leyti, með flottum sólóum sem blandast saman við sönginn. Ekki vantar heldur kraftinn. Textinn fjallar um frelsið og er jákvæð lýsing á því að vera á hálfgerðri hraðbraut til helvítis, semsagt drykkju og fíkniefni. Mitt uppáhalds AC/DC lag og án efa frægasta lagið á plötunni. Þetta er líka með þekktustu lögum hljómsveitarinnar.
Þar tekur við annað ágætis lag að nafni Girls Got Rhythm. Lagið er þannig séð ekkert merkilegt þótt maður fái viðlagið auðveldlega á heilann. Í textanum er maður að lýsa ástkonu sinni sem er hálfgerður skörungur. Hann elskar hana samt og segist ekki getað lifað án hennar. Ágætis stuðlag sem naut tiltörulega mikilla vinsælda á sínum tíma.
Þriðja lagið er svo Walk All Over You. Að mínu mati frekar slappara heldur en hin lögin og ég sé lítinn tilgang heldur í textanum. Samt inniheldur það hröð og flott gítarsóló.
Þessu lagi fyrirgefur maður þó þegar maður heyrir næsta lag. Touch To Much er að mínu mati næst besta lagið á disknum. Þetta er magnað lag, virkilega kraftmikið og með hörðum gítarriffum og miklum og fjölbreytilegum ryttmagítar. Bon Scott syngur líka eins og gull (hvort sem það er rétta orðið). Textinn fjallar um kynlíf, eins og mörg lög hljómsveitarinnar.
Þar tekur við ágætis lag: Beating Around The Bush. Virkilega hröð og kraftmikil gítarriff sem blandast frábærlega saman við rokkaðar textalínur sungnar með magnaðri rödd Bon Scotts. Ekki er það heldur verra að inn á milli fær líka Angus Young að njóta sín með sín hröðu og flottu gítarsóló. Í textanum er verið að tala um kvendjöful sem laug stanslaust að kærasta sínum. Hann ákveður samt að gefa henni eitt tækifæri í viðbót.
Sjötta lagið ber nafnið Shot Down In Flames. Þetta er frábært lag með skemmtilegum gítarriffum og virkilega kröftugu og hressilegu viðlagi. Textinn fjallar um fólk á bar, samskipti þeirra, og þegar mennirnir eru að rífast um kvenmennina. Ef maður hlustar vel á þegar viðlagið er tekið í annað sinn, má heyra Bon Scott öskra með sinni skræku rödd: “Hey you, Angus, shoot me, shoot!”
Get It Hot heitir næsta lag. Að mínu mati er þetta með verri lögum á plötunni þrátt fyrir að vera ágætis stuðlag. Mikið notað sömu ágætu riffin en sólóin bregðast þó ekki. Textinn fjallar um mann og konu sem ætla út úr bænum, hlusta á gamalt og gott rokk og ról og njóta þess að vera saman.
If You Want Blood (You’ve Got It) er með frægari lögum á plötunni. Virkilega fjörugt og skemmtilegt lag með grípandi viðlagi og skræk rödd Bon Scotts á sínum stað. Ágætis riff og hröð gítarsóló sem blandast skemmtilega inn í sönginn. Textinn er flottari heldur en í hinum lögunum, í honum er verið að líkja heiminum við stóran dýragarð.
Síðustu tvö lögin eru að mínu mati leiðinlegust. Love Hungry Man er rólegasta lagið á plötunni og að sumu leiti of rólegt fyrir stíl hljómsveitarinnar. Það inniheldur engin sérstaklega flott riff þrátt fyrir að ég hafi haft gaman af sumum bassalínunum. Viðlagið er mikið endurtekið, sem maður fær fljótlega leið á. Þetta er heldur alls ekki jafn skemmtilega sungið og ýmis önnur lög á plötunni. Hinsvegar eru í laginu ágætis sóló frá Angus, frekar í rólegri kantinum. Textinn fjallar um mikinn kvennamann sem er óður í ástina.
Nú er komið að síðasta laginu, Night Prowler. Eins og áður kom fram er þetta frekar leiðinlegt lag. Vantar flott gítarriff, og eins og í fyrra laginu syngur Bon Scott hálf leiðinlega. Ef maður lítur á björtu hliðarnar taka hinir hljómsveitarmeðlimirnir líka stóran þátt í að syngja með honum í viðlaginu sem gerir þetta svolítið sniðugt og Angus á svosem ágætis sóló. Í textanum er verið að lýsa nóttinni og verið að tala um dýrin sem fara þá á stjá.
Að mínu mati er þetta frábær plata sem inniheldur marga AC/DC gullmola. Hinsvegar verður það að segjast að lítil pæling er í textunum þrátt fyrir að þeir séu oft skemmtilega einfaldir.
Ég hugsa að ég fari nú ekkert að hafa þetta lengra og ég ætla að enda greinina á því að hvetja alla til að fá sér þennan disk ef þeir eiga hann ekki nú þegar.
Ég þakka kærlega fyrir mig
Kv. JPJ