JAN MAYEN, LOKBRÁ OG TRISTIAN á Grand Rokk, 15. nóv ‘03
Það er hreint með ólíkindum hvað meðlimir hljómsveitarinnar Jan Mayen hafa verið aktívir síðustu daga. Sveitin er nýbúin að senda frá sér frumburð sinn; Jan Mayen EP og hefur fylgt því eftir með myndbandagerð, viðtali í Fréttablaðinu og á X-inu og Rás 2, auk þess að koma fram í Djúpu lauginni á Skjá einum, allt á einni viku. Þetta sannkallaða fjölmiðlafár hefur greinilega virkað, því það náði a.m.k. að fanga athygli mína. Því sá ég mig knúinn til að tölta niðrá Grand Rokk, laugardaginn 15. nóvember þar sem Jan Mayen settu punktinn yfir i-ið með útgáfutónleikum og ekki voru upphitunarhljómsveitirnar heldur af verri endanum, nánar tiltekið Lokbrá og Tristian.
TRISTIAN – Tristian byrjuðu kvöldið. Ég tók fyrst eftir þessu bandi í kringum ’97 þegar þeir áttu tvö lög á safnplötunni Spírur. Þeir heilluðu mig mjög á þeim tíma með sínum dramatísku pælingum en svo heyrðist ekki meira frá þeim í mörg ár. En nú eru þeir aftur komnir á kreik, mér til mikillar ánægju, og fékk ég loks að upplifa tónlist þeirra lifandi í gær. Það mátti þó heyra töluverða þróun á tónlistinni frá því sem áður var (enda væri annað óeðlilegt eftir öll þessi ár) og mátti heyra nettan Buckley fíling í þessu (Jeff, ekki Tim) :). Lagasmíðarnar eru mjög þroskaðar og vandaðar og er greinilegt að hér eru metnaðarfullir tónlistarmenn á ferð. Trommarinn náði verulega góðu flæði og náðu hann og bassaleikarinn upp góðum þéttleika þrátt fyrir að vera báðir með skreytingar og útúrdúra. Það sem skemmdi mest fyrir varðandi þéttleika var of veikur gítar, mátti semsagt hækka töluvert í honum svo skemmtilegar melódíurnar fengju að njóta sín. Annars var þetta mjög gott; fallegt, melódískt og tilfinningaþrungið rokk. Pétur (söngvari) hefur undanfarið komið nokkrum sinnum fram ásamt kærustu sinni og flutt sólóefni. Einnig hefur heyrst að hann og undradrengurinn Mugison séu að vinna saman að plötu og er ég virkilega spenntur fyrir þeirri útkomu, enda mjög hæfileikaríkir einstaklingar þar á ferð.
LOKBRÁ – Þetta var held ég í fjórða skipti sem ég sá Lokbrá á sviði og þeir hafa aldrei verið betri. Það sem einkennir þá helst er mikið sjálfstraust og gífurleg spilagleði, það eitt er nóg til að vinna þig á þeirra band. En þar fyrir utan eru þeir mjög samstillt og skemmtileg rokkhljómsveit. Ef ég ætti að giska á aðal áhrifavalda þeirra myndi ég segja Bítlarnir og Smashing Pumpkins en annars er fjölbreytnin mikil, þannig að flestir ættu að geta fundið eitthvað við sitt hæfi í tónlist þeirra. Það sem mér fannst standa uppúr hjá þeim í gær var nýja lagið þeirra, sem þeir sömdu í “þarnæstu” viku, að eigin sögn, en reyndist svo vera mökkfreðin útgáfa af hinu rammíslenska ‘Á sprengisandi’ (ríðum, ríðum, rekum yfir sandinn…). Aðrir hápunktar á prógraminu eru George Harrison lagið og að sjálfsögðu hinn frábæri ‘set closer’ MEME, en það heppnaðist einstaklega vel í gær. Helstu gallarnir eru sennilega bakraddirnar, sem eru sniðugar og skemmtilegar en vantar aðeins meiri æfingu (eða kannski bara meira í mónitor), og tilhneiging söngvarans til að teygja sérhljóðan E í lok erinda… en þetta er náttúrulega bara smámunasemi í mér og ætti ekki að skemma fyrir neinum. Það á enn eftir að koma í ljós hvernig þessir drengir hljóma á plötu en það er mikil upplifun að sjá þá á sviði, sérstaklega þegar þeir ná þessu flugi sem þeir náðu í gær!
JAN MAYEN – Svo var komið að aðalnúmeri kvöldsins. Skondið að ‘headliner-inn’ var eina bandið sem ég kannaðist lítið sem ekkert við. Það var góð stemning í salnum þegar þeir stigu á svið og nýttu þeir sér það strax í fyrsta laginu, byrjuðu á mikilli keyrslu og allt ætlaði að verða vitlaust. Ágúst gítarleikari æddi um sviðið og endaði loks liggjandi í þvögunni á gólfinu, viðeigandi byrjun á kraftmiklu prógrami. Tónlistin sem Jan Mayen spila er pönkað rokk sem sækir áhrif í bæði austurströnd og vesturströnd Bandaríkjanna, nánar tiltekið New York sveitir eins og ‘The Strokes’ í bland við Kaliforníu gleðipönk sveitir eins og ‘Rancid’ ofl. Inn á milli laga náðu meðlimir Jan Mayen góðri tengingu við salinn og þeir taka sjálfa sig greinilega ekki of hátíðlega, sem er alltaf kostur. Þeir tóku öll lögin á EP plötunni, auk þeirra sem ekki komust á gripinn. Nokkur lögin eru alveg frábær (lagið Shut up/down er pottþéttur smellur) en þó jafnast ekkert á við lokalag plötunnar og jafnramt prógramsins. Þetta er lagið ‘Nonsense’, sem er gífurlega kraftmikið keyrslurokk og ætlaði allt um koll að keyra (eins og einhver gamall karl orðaði það hér um árið) þegar þeir spiluðu það. Að sjálfsögðu fengu þeir ekki að sleppa eftir þetta og voru bókstaflega dregnir aftur upp á svið. Þá var keyrslunni haldið áfram og í lokin voru trommurnar komnar út um allt svið og meðlimir hrasandi um hvorn annan… sannur rokk-andi!!! Ég fór sáttur út, með bros á vör og Jan Mayen skífuna í vasanum, því fátt er betra en gott rokk.
Takk!