James Apollo er tónlistarmaður og flækingur. Hann hefur gefið út nokkur verk á Aquarium Records og er væntanlegur til Íslands þann 19. nóvember til að spila á Grand Rokk.
Tónlistinni væri best lýst sem skemmtilegri blöndu af Elvis Costello & The Attractions, Tom Waits, Buddy Holly og Billy Bragg. Hann hefur mestan áhuga á að færa okkur tóna frá miðríkjum Bandaríkjanna, roots rock, sem hann blandar saman við bossanova. Sætt popp og einmannalegar þjóðbrautir er það sem má búast við af James Apollo og tónlistina ættu flestir með eilítið marða sál að geta tengt við. Nýjasta afurð hans, Sweet Unknown, segir okkur af ævintýrum úr skítugum börum, fragtlestum þar sem flækingar stela sér fari og varðeldum úti í eyðimörkinni. Gamaldags rokk með kúbönskum rythmum og stjörnubliki stolið beint frá Suður-Mississippi. Platan var tekin upp í á milli 40 og 11.000 fetum yfir sjávarmáli á ferðalögum Apollos og tríós hans og lokaspretturinn var svo tekinn uppi á fjallstoppi fyrir utan Denver.
James Apollo fæddist í Libertyville, Arkansans, sem þá var krummaskuð sem gat einungis státað af pósthúsi og krá og þar sem kráin er það eina sem stendur eftir í dag. Hann var þó ekki lengi að fara með músíkina lengra og um leið og honum hlotnaðist leyfi til að aka bíl lagði hann af stað í hljómleikaferðalag sem virðist enga endi ætla að taka. Hefur hann flækst víða með hljómsveit sinni og kemur nú í fyrsta skipti til Íslands.
Hann mun spila á Grand Rokk, miðvikudaginn 19. nóvember og það er Mike Pollock, fyrrum Utangarðsmaður og lífskúnster sem hitar upp, en hann er nýkominn heim úr vel heppnaðri tónleikaför um Bandaríkin.
athugið: www.jamesapollo.com