Stórtónleikar: Týr og Freak Kitchen 20. - 23. nóv. Restingmind tónleikar í samstarfi við Rás 2 kynna:

*** Færeyska hljómsveitin Týr og sænska hljómsveitin Freak Kitchen með tónleika á Íslandi 20. - 23. nóvember ***

Þeir sem voru lifandi á síðasta ári, tóku eflaust eftir því að færeyska hljómsveitin Týr kom, sá og sigraði á Íslandi. Lagið sem þeir fluttu, Ormurin Langi, varð að vinsælasta lagi á Rás 2 og fyrsta plata þeirra, How Far To Asgaard, seldist í bílförmum og náði m.a. 1. sæti íslenska sölulistans. Platan var einnig plata vikunnar á Rás 2 um það leyti. Í kjölfarið fylgdi svo heimsókn til Íslands og þeir spiluðu um allt land í fylgd með Stuðmönnum. Þeir spiluðu í Reiðhöllinni í Hveragerði og þar var uppselt. Þeir spiluðu í Sjallanum á Akureyri og þar var uppselt. Þeir spiluðu í Stapanum í Keflavík og þar var uppselt. Þeir spiluðu á Broadway og þar var salurinn pakkaður. Auk þess komu þeir fram í Smáralindinni og spiluðu prívat konsert fyrir Ásatrúarfélagið í salarkynnum þeirra.

Nú er röðin komin að því að endurtaka leikinn! Týr hafa gefið út nýja plötu, Eric The Red og líkt og með fyrirrennarann, var platan valin plata vikunnar á Rás 2 núna í ágústmánuði. Til að fylgja plötunni eftir mun sveitin halda þrenna tónleika hérna á Íslandi í nóvember.

Með í för verður sænska hljómsveitin Freak Kitchen, en sú hljómsveit er ekki síður merkileg og hefur m.a. spilað á Hróarskelduhátíðinni. Sveitin er t.d. nýkomin úr 15 daga tónleikaferðalagi um Spán og er mun þekktari og vinsælli en Týr utan Íslands og Færeyja. Aðalmaðurinn í þessari sveit er gítarsnillingurinn Mattias IA Eklundh sem er einn af virtari gítarleikurum Svíþjóðar. Hann rekur sinn eigin gítarskóla, Freak Guitar Camp, og hefur gefið út sólóplötu á útgáfufyrirtæki Steve Vai. Mattias er ásamt Freak Kitchen mjög vinsæll og virtur í Japan og er sjálfur nýkominn þaðan þar sem hann var sérstakur gestur á Tokyo Musical Instruments Fair. Þar var hann með sýnikennslu á gítar í boði Laney gítarmagnarafyrirtækisins og japanska fyrirtækisins Caparison Guitars, sem sérhanna alla gítara hans.

Tónleikar þeirra verða sem hér segir:

21. nóvember (föstudagur) - Grand Rokk í Reykjavík
Aldurstakmark: 20 ár
Upphitun: Dark Harvest
Húsið opnar 22:30, Dark Harvest stíga á svið 23:00 - stundvíslega!
Miðaverð: 1.700 kr.

22. nóvember (laugardagur) - Hvíta Húsið á Selfossi
Aldurstakmark: 18 ár
Upphitun: Nilfisk
Húsið opnar 23:00, Nilfisk stíga á svið 23:30 - stundvíslega!
Miðaverð: 2.000 kr.

23. nóvember (sunnudagur) - Tjarnarbíó í Reykjavík
Ekkert aldurstakmark - Vímuefnalaus skemmtun!
Upphitun: Brothers Majere
Húsið opnar 18:40, Brothers Majere stíga á svið 19:00 - stundvíslega!
Miðaverð: 1.700 kr.


Mattias með guitar clinic
Fyrir utan venjulegt tónleikahald mun Mattias vera með sýnikennslu á gítar (guitar clinic) í húsnæði FÍH við Rauðagerði fimmtudagskvöldið 20. nóvember. Sýningin byrjar klukkan 20:00 og færri komast að en vilja, þannig að mætið snemma!

Frekari upplýsingar
Frekari upplýsingar um báðar hljómsveitirnar má finna í meðfylgjandi kynningum á þeim og á heimasíðu Restingmind tónleika á http://www.restingmind.com
Heimasíða Týr: http://www.tyr.net
Heimasíða Freak Kitchen: http://www.freakkitchen.com
Resting Mind concerts