Ég keypti mér Noise disk um daginn. Platan er skothelt rokkverk! Ætla ég aðeins að leggja minn dóm á verkið.
Pretty Ugly byrjar á lagi sem X hlustendur ættu að kannast við - Paranoid Parasite sem ég verð að segja að er fullkomið til að byrja þessa miklu snilld!
Paranoid Parasite : Lagið er rosalegt frá byrjun til enda! Söngur Einars er ótrúlega kraftmikill og hann syngur af mikilli innlifun!
Gítarleikur er líka rosalega góður og má þá helst benda á sólóið sem að er að ég held meira en mínúta að lengd! Trommuleikur Ragnars Zolbergs er vægast sagt frábær! Mjög taktfastur og uppátækjasamur trommari þar á ferð.
Hollow: Lagið byrjar af MIKLUM krafti. Mér dauðbrá meira að segja þegar ég heyrði það fyrst. Söngurinn í fyrsta versinu er frekar lár og síðan kemur viðlagið og þá springur allt saman vegna söng Einars sem er vægast sagt kraftmikill! Þannig helst söngurinn út í gegnum allt lagið og á hann mikið hrós skilið fyrir rödd sína og söng og beitingu! Uppáhalds hluti minn í laginu er sá þegar Stefán tekur hálfgert bassasóló. Virkilega tilfinningamikill kafli og rólegur svo áður en maður veit af þá verður allt brjálað aftur með kyngimögnuðu sólói Einars sem ég fékk gæsahúð af! Lagið endar svo mjög atvinnumannslega á einkum flottu trommusólói Ragnars.
Closing in : Þetta lag hafði ég heyrt áður en það var greinilegt að noise menn höfðu sett það í nýjan búning og gert lagið flóknara og mun flottara fyrir vikið. Sóló þessa lags er einnig mjög gott, enda alveg brilliant gítarleikari hann Einar. Það sem mér finnst samt flottast er það hvað lagið tekur miklar sveiflur þ.e. frekar rólegt í versunum og ótrúlega þungt í chorusunum. Allir þrír standa sig með mikilli prýði, söngur, gítar, bassi og trommur.
Dreaming: Frekar drungalegur gítar einkennir þetta frábæra lag noise manna. Undarlegur og jafnframt frumlegur trommutaktur Ragnars setur skemmtilegan blæ á lagið. Verð ég að segja að það er alveg ótrúlegt hversu vel þeir Ragnar og Stefán ná að spila saman. Virkilega þéttur grunnur hjá þeim. Bassinn er virkilega áberandi og góður í gegnum allt lagið. Líka flottar kaflaskiptingar og pælingar í stoppum í þessu lagi. Söngur Einars innsiglar svo þessa miklu snilld sem Dreaming er.
In vain : Var lengi uppáhaldslagið mitt og því var ég mjög spenntur að heyra hvernig þeir hefðu komið því frá sér. Ég varð sko ekki fyrir vonbrigðum frekar en fyrri daginn. Þeir höfðu greinilega breytt laginu frekar mikið og til hins betra. Miklu meira groovy lagið núna en það var. Mér finnst allt saman mjög flott í því nema það kannski að Stefán hefði mátt gera meira úr bassaleiknum því hann á svo auðvelt með það drengurinn. Bassinn er of óáberandi. Annars er þetta virkilega flott lag. Einnig finnst mér það mikill + fyrir lagið að textinn er alveg frábær og þá eru mér minnisstæð orðin:
It´s for the best I feel like hell - when I do complain about myself
And if one day I´d be on top - I´m certain that the next I´ll drop.
Magnaður texti!
Hangover: Finnst mér alveg frábært og er eitt af uppáhaldslögunum mínum á plötunni. Byrjun lagsins er ótrúlega þung og flott og svo dempast lagið niður inní flott og rólegra verse. Svo stigmagnast lagið eftir að líður á það og nær algjöru hámarki í svokölluðum “build up” kafla þar sem Ragnar Sólberg fer á kostum í trommuleik. Lagið endar svo virkilega þungt rétt eins og það hófst.
Freeloader: Ættu nú flestir ef ekki allir að kannast við. Mikill slagari þar á ferð og greinilegt að nýr söngur Einars við lagið gerir mikið fyrir það. Og lyftir því upp í nýjar hæðir. Bassinn í þessu lagi er frábær og er mjög einkennandi fyrir það. Sóló Einars kórónar þetta svo allt saman. Þetta er með flottari rokksólóum sem ég hef heyrt í mjög langan tíma án þess þó að vera með sýnimennsku. Eina sem ég get eiginlega sett út á lagið er trommuleikur Hálfdáns Helga. Það heyrist mikill munur á honum og Ragnari Sólberg. Trommurnar eru alls ekki slæmar, þvert á móti þá er þar greinilega bráðefnilegur drengur á ferð, en aðeins ef hann kynni sér hóf. Því of mikill hamagangur í trommuleiknum setur slæman blett á annars frábært lag.
Loner: Hef eiginlega sömu sögu að segja um þetta lag. Allt finnst mér ganga mjög vel upp, gítar, söngur og bassi en enn á ný fannst mér trommurnar of villtar og alls ekki nógu stílhreinar. Mikið efni býr þó í Hálfdáni Helga, ef aðeins hann kynni að nýta það betur. Annars mjög gott lag. Virkilega kröftugur og brjálaður söngur Einars einkennir lagið helst.
Dark days: Þetta er held ég uppáhaldslagið mitt með noise, eða allavega eins og er. Lagið í heild sinni er mjög dark, eins og titillinn segir til um. Lagið byrjar á drungalegu og flottu gítar plokki og svo kikkar allt saman inn í einhverjum útúr eipuðum stopp köflum sem eru hreint út sagt frábærir. Versið kemur svo og þar syngur Einar eins og engill og minnir mig svolítið á Chris Cornell, fyrrum söngvara Soundgarden og þá sérstaklega í viðlögunum þar sem allt er gjörsamlega að fara yfir um. Um miðbik lagsins kemur svo ótrúlega skrýtinn en jafnframt frumlegur og flottur kafli sem er rosalega sýrður. Lagið magnast svo aftur upp og allt ætlar um koll að keyra í enda lagsins þegar Einar öskrar gjörsamlega úr sér líftóruna! Ótrúlegt að hann skyldi lifa þetta af! Frábært lag í alla staði!
Born into the grave: Þetta lag kom mér að ég held mest á óvart á plötunni. Lagið byrjar alveg einstaklega rólega og fallega þar sem hvert hljóðfæri fær að njóta sín. En svo skyndilega breytist lagið í svona líka magnþrunginn rokkslagara en þó á hægu nótunum. Einar syngur af mikilli innlifun og er eiginlega kolbrjálaður út allt lagið! Finnst mér þeir allir standa sig ótrúlega vel í þessu lagi og samspilið alveg upp á 10. Lagið endar svo á einhverjum flippuðustu stoppköflum í sögu íslensks rokks, að mínu mati allavega. Brill!
My favorite: Þetta lag finnst mér brjóta plötuna upp á mjög skemmtilegan og hressan hátt. Lagið er án efa hressasta lag plötunnar og einhverjar smá popp pælingar inná milli en nær því þó með hljóðfæraleik þeirra þriggja og söng Einars að halda sér í rokkaðri kantinum! Trommu sóló Ragnars í byrjun er alveg hreint frébært. Bassinn finnst mér einkenna þetta lag svo um munar. Virkilega flott og vel útfærð bassasóló Stefáns fá að njóta sín til fulls í þessu lagi. Geggjað lag!
Hate: Er án efa rólegasta og fallegasta lag plötunnar. Þetta er alveg tilvalið til að enda plötuna alveg eins og Paranoid Parasite til að byrja þetta þétta rokkverk noise manna. Lagið byrjar rosalega rólega og magnast svo aðeins upp og svífur niður aftur í rólegu versunum. Söngur Einars í öðru versinu er ROSALEGUR! og algjörlega á heimsmælikvarða. Sérstaklega fannst mér röddunin flott. Ég þarf varla að lýsa laginu neitt betur. Það er alveg rosalega þétt og spilamennska Einars, Ragnars og Stefáns óaðfinnanleg. Endir lagsins situr enn fast í huga mér því hann var sérstaklega dramtískur í söng og spili en þó ekki á tilgerðarlegan hátt.
Frábær diskur í alla staði og algjört möst fyrir alvöru rokk áhugamenn. Ef þið eigið hann ekki núna, hlaupið þá út í Skífu því hann er að rjúka út. Tryggið ykkur eintak af þessari gargandi SNILLD frá noise drengjum! Ég sem er búinn að vera mikill noise aðdáandi frekar lengi hafði gert vissar kröfur og þær frekar miklar til plötunnar og ég varð sko ekki fyrir vonbrigðum! Biðin var þess virði. Pretty Ugly ROKKAR!
p.s. Innilega til hamingju með plötuna stráka