Hljómsveitin Ensími var stofnuð til dýrðar vættana árið 1996 af þeim Jóni Erni Arnarsyni og Hrafni Thoroddsen. Hugmyndin að tónlist Ensími er blanda framtíðar, nútíðar og fortíðar. Eftir eðlilegan meðgöngutíma fór tónlistin að þroskast og taka á sig mynd. Tónlist Ensími fangaði snemma eyru útgefenda og frumburðurinn “Kafbátamúsik” leit dagsins ljós um haustið 1998 og hlaut enróma lof gagnrýnenda. Hljómsveitin var valin efnilegasta sveitin og lagið “Atari” var valið besta lagið á Íslensku tónlistaverðlaununum það árið. Haustið 1999 hófust upptökur á annari plötu Ensími. Var hún að stórum hluta unnin af upptökustjóranum Steve Albini, sem þekktastur er fyrir starf sitt með sveitum eins og Nirvana og Pixies. Fyrir vikið hafði “BMX” yfir sér hrárri hljóm að hluta heldur en frumburðurinn. Platan fékk prýðilegar viðtökur og hljómsveitin Ensími sýndi það og sannaði að hún var komin til að vera. Ensími kaus að ljúka samstarfi við útgáfufyrirtækið Dennis, sem gaf út “Kafbátamúsik” og “BMX” og er nú sjálfstætt starfandi.
Fortíð meðlima Ensími liggur víða. Hrafn Thoroddsen og Jón Örn Arnarson störfuðu áður með hinni vinsælu táningahljómsveit Jet Black Joe. Franz Gunnarsson er helst þekktur fyrir starf sitt í Quicksand Jesus, Dr. Spock og In memoriam. Guðni Finnsson hefur starfað með hljómsveitum eins og Magga Stína, Lhooq og Funkstrasse.
Nútíð
Þriðja plata Ensími hefur litið dagsins ljós. Hefur hún hlotið nafnið Ensími og er óhætt að segja að um tímalausa snilld sé að ræða. meðlimir eru sammála um það að hér sé komin besta plata hljómsveitarinnar hingað til. útgefandi er Edda - miðlun og útgáfa. Mikil vinna hefur verið lögð í að kynna hljómsveitina erlendis og hefur hún spilað víða um evrópu og bandaríkin. Sú vinna er að skila sér og erlend útgáfufyrirtæki hafa sýnt hljómsveitinni mikinn áhuga.
Framtíð
Alheimsyfirráð með guðs hjálp og góðra róbóta.
Ensími eru:
Hrafn Thoroddsen - Söngur/gítar
Guðni Finnsson - Bassi
Franz Gunnarsson - Gítar/Söngur
Arnar Gíslason - Trommur
Kristinn Gunnar Blöndal - Hljómborð
Some past just can not be forgotten…