“Lou Reed is my own hero principally because he stands for all the most fucked up things that I could ever possibly conceive of” Lester Bangs
Hvað gjörir mann að mikilli hetju?
Frá mínum sjónarhól er sá maður hetja sem umbyltir sögunni. Alexander Mikli, Leonardo da Vinci, Shakespear og Hitler voru allir miklar hetjur.
Hvað er málið með Ameríku?
Er Bandaríkin voru stofnuð voru þau frjálsasta land hins svokallaða siðmenntaða heims. Kjarni Bandaríkjanna var einstaklingsfrelsi. Ameríkan hélt þeim standard allt fram á fyrsta áratug tuttugustu aldar er sjálfskipaðir siðapostular lobbýuðu allskyns lagabókstöfum er stórlega skertu allt slíkt frelsi. Margur af hinni fyrstu kynslóð er fæddist inn í hina nýju Ameríku gjörði uppreist. William Burroughs, Jack Kerouac, Marlon Brando, etc. urðu holdgervingar þeirrar uppreistar.
Hví þú, Lou?
Lou breytti rokkinu og með raun og sann bjargaði hann því. Samt sem áður voru lögin hans svo sem ekkert byltingarkennd, tveggja- þriggja hljóma gítarglamur sem hvaða unglingur sem pikkar upp gítar getur gert. Eða gamaldags, fallegar melodíur sem voru flest allar stolnar hvort sem er. Hið byltingarkennda sánd og útsetningar Velvet Underground voru að mestu leyti búnar til af John Cale. Undanskilið er afi allrar gítargeðveiki Sonic Youth, My Bloody Valentine og slíkra banda, lagið “I heard her call my name”, það var Lou’s eigið gítarsánd “…and my mind splits open…”.
Þegar Lou gerðist avant gardne með “Metal Machine Music” þá gerði hann út um senuna. Það er ekki hægt að gera framúrstefnutónlist lengur, það er ekki hægt að vera meira framúrstefnulegur heldur en “Metal Machine Music”, allaveganna ekki næstu tvöhundruð árin eða svo.
Byltingin var í orðunum, söngnum (ó…hann getur ekki sungið…hefur aldrei getað sungið) og stílnum. The Bird hafði blásið þau, Pollock slett þeim á striga og Burroughs fært þau í letur. Heróín, hórur og hösl götunnar ásamt fallegustu ástarsöngvum sem nokkru sinna hafa pressaðir verið á vínyl. Stíllinn maður síllinn, hann var vælandi lítill mörður, dauða dvergurinn, fyrsti gyðingurinn með nazistastæla (númer tvö var Joey Ramone), tvíkynja megarokkstjarna sem var svo uppdópuð að hún gat varla staðið á sviði (þeir leiddu hann að míkrófónstandinum sem hann gat hangið á og að tónleikum loknum leiddu þeir hann til baka), hinn ákaflega viðkunnanlegi gaur, götunagli með ævintýraþrá, ástfanginn kjáni, óskepna lemjandi konuna sína, könnuður mannshugans (aðallega sinn eigin forarpoll), miðaldra vælukjói og nú bitur gamall maður. Samt sem áður, he walked it as he talked it, og ávallt skein hinn sanni Louis Alan í gegn, litli gyðingadrengurinn frá Long Island Bay með hjarta úr gulli.
“This is my Great American Novel”, lét Lou einhverju sinni mælt um sitt ævistarf, “It’s just the story of a man doing the best he can in different situations”. Hin mikla skáldsaga hans er orðin ansi stór og vonandi verður hún enn stærri. Gamli svikahrappurinn er enn að klóra sér í pungnum.
“It’s the beginning of a New Age” og hetjur er ekki lengur á hverju strái, máski þurfum við ekki lengur á þeim að halda eða kannski þurfum við meira á þeim að halda nú en nokkru sinni “…Well I guess that I just don´t know”. Allar mínar hetjur eru annað hvort dauðar eða útbrunnar… nema Lou Reed – He’s the only one left standing.