Hæ, hó ( Ísar, stofnandi Undirtóna )
Varðandi árlegt blað Undirtóna þar sem við tökum okkur til og brjótum upp allar reglur blaðsins og gerum það sem okkur sýnist. Við vorum nú síðast með viðtal og myndaþátt með Chloé og Árna. Í blaðinu er þemað beint að stelpum og blaðið mjög litríkt og “happy”. Forsíðan í bleikum og skærum litum og allt voðalega sætt og fallegt. Við höfðum gaman að því að gera þetta blað og okkur finnst gaman að brjóta upp hefðina.
Fyrir nákvæmlega ári vorum við með David Beckham á forsíðunni. Mann sem undir venjulegum kringumstæðum fengi aldrei umfjöllun í Undirtónum. Árið þar áður vorum við með Chloé og Helgu Kristjáns á forsíðunni í sleik, árið þar á undan vorum við með DJ Sóley á nærunum, inni í eldhúsi og vorum með skemmtilegt viðtal við hana í blaðinu. Við höfum gert það að venju að flippa svolítið með sumarblaðið okkar.
Og fyrir þá sem eru ekki með gullfiskaminni, þá vorum við með Quarashi/Móra, Botnleðju og Mínus á forsíðum blaðsins fyrir það blað. Síðustu blöð hjá okkur hafa nánast eingöngu fjallað um tónlist.
Það er langt síðan Undirtónar hætti að vera eingöngu tónlistarblað. Blaðið vinnur eftir mottóinu. - Menning, fólk, tónlist, tækni. Það er alveg orðið nokkuð á hreinu að einhæft tónlistarblað gengur ekki á íslandi. Fyrir því eru tvær megin ástæður.
1) Takmarkaður áhugi fólks á góðri tónlist
2) Takmarkaður áhugi auglýsenda á að auglýsa tónlist
1) Það er vitað að þeir hópar sem aðhyllast jaðartónlist, (eins og ég geri) eru ekki stórir. Þetta eru ca. 500-800 manns sem fíla og mæta á hiphop viðburði, ca. 500-800 manns sem fíla og mæta á hardcore viðburði. ca. 250-600 manns sem fíla og mæta á raftónlistarviðburði. Undirtónar héldu lengi úti tónleikaröðinni Stefnumót, raftónleikum með Vélvirkjanum og djammi undir Atómi, sem var sérstaklega til þess að sinna jaðartónlist, plötusnúðum og nýjum hljómsveitum. Það kom síðar seinna á daginn að fólk hafði engann áhuga á að mæta á tónleika nema þegar frægari og þekktari hlómsveitir spiluðu. Þegar búið var svo að fara hringinn 4-5 sinnum með öllum vinsælustu hljómsveitunum ( sem ekki voru sveitaballspopp) þá var það einfaldlega áhugi fólksins sem drap niður kvöldin. Fólk var líklega bara heima hjá sér að horfa Law&Order eða Innlit/Útlit á Skjá Einum. Undirtónar er gefið út í 20.000 eintökum. Við verðum vel varir við það hvort dreifingin á blaðinu gangi vel í fólk eða illa. Ef við erum með óáhugaverða forsíðu, þá hreifist blaðið hægt. Ef forsíðan er grípandi og aðeins ögrandi þá hverfur blaðið úr hillunum á met tíma.
Þótt svo að Plastikman (sem er minn uppáhaldstónlistarmaður í heimi), Aphex Twin (sem ég dýrka) og Biogen ( sem er afi raftónlistar á Íslandi) séu frábærir tónlistarmenn sem ég veit mikið um, þá eru það bara í mestalagi svona 500 aðrir sem hafa minnsta áhuga á þessum mönnum. Undirtónar endurspegla þá senu sem er í gangi, við búum ekki til senur, við getum stutt það sem er í gangi. Við höfum þó alltaf gefið okkur leyfi til þess að gera nákvæmlega það sem okkur sýnist í blaðinu og við reynum oftast að ögra fólki aðeins.
2) Áhugi og/eða geta auglýsenda í tónlistargeiranum er nánast hverfandi. Hér á landi eru örfáir ( Hljómalind r.i.p., gamla Japis r.i.p ) aðilar sem reka plötubúðir eða flytja inn tónlist og ef við teljum auglýsingar í síðasta blaði Undirtóna þar sem verið er að auglýsa tónlist, þá er það nákvæmlega hálf síða samtals (bara frá Skífunni). Hálf síða er allur stuðningurinn sem tónlistarbransinn er að setja inn í blaðið. Hversu mikið er hægt að byggja á svoleiðis áhuga/getu tónlistarbransans til þess að auglýsa í blaði eins og Undirtónum, nú eða Sánd.
Annað er: Til er annað blað á Íslenskum blaðamarkaði sem leggur tiltölulega mikla áherslu á tónlist. Það er blaðið Sánd. Mér hefur stundum blöskrað það að íslenski tónlistarbransinn geti ekki haldið uppi einu skitnu blaði eins og Sánd. Þeir leggja mikla áherslu á tónlist og vilja allt fyrir bransann gera. Þeir eru ekki (ennþá) farnir að sjá það að tónlistarbransinn er þeim engin stoð og stytta í útgáfunni. Með tímanum þurfa þeir að leita til tískufyrirtækja og annarra til þess að halda lífi í útgáfunni. Þessi fyrirtæki vilja hafa fjölbreyttara efni í blaðinu en bara tónlist og smám saman eykst pressan á þá að vera með tísku eða eitthvað þvílíkt í blaðinu. Ég er ekki frá því að einhver svoleiðis þróun sé nú þegar að eiga sér stað hjá blaðinu, því með tónlistarauglýsingum einum saman verður ekkert Sánd til. Sama á við um Undirtóna.
Sem betur fer er ekki hægt að kvarta undan lognmollu í íslensku tónlistarlífi og til vitnis um það var skemmtileg veisla sem við héldum í upphafi ársins til þess að heiðra þá frábæru tónlistarmenn sem landið hefur upp á að bjóða. Miklar líkur eru á því að Stefnumótakvöld Undirtóna fari í gang aftur í haust og vonum við að áhugi fólks sé farinn að glæðast meira og forvitnin fyrir því hvernig ný íslensk bönd hljóma. Það er sameiginlegt átak hjá þeim sem standa í blaðaútgáfu of menningarstarfsemi og þeirra sem njóta vinnunnar að sem flestir séu áhugasamir um senuna og tónlistina.
Við sýnum það í verki með því að standa í útgáfu Undirtóna að við höfum áhuga á tónlist. Við sýnum það líka að við gerum það sem gera þarf til þess að útgáfan deyi ekki, þrátt fyrir áhugaleysi hjá tónlistarunnendum og tónlistarbransanum.
Það er líka fínt að einhverjum hérna er annt um blaðið og vill að fjallað sé meira um tónlist. En mikið er fólk alltaf neikvætt hérna á Hugi.is. Væri ekki sniðugra að einhverjir af þessum “reiðu” hugurum myndu eyða kröftum sínum í að hafa samband við blaðið og bjóða fram þjónustu sína frekar en að vera að blása um þetta hér inni. Það eru margir góðir pennar hérna inni og ég er viss um að margir eru með góðar hugmyndir, en það eru framkvæmdir sem skipta máli ekki orð og ég hvet alla hérna inni til þess að gera eitthvað til þess að auka veg og virðingu blaða eins og Undirtóna og Sánd. Bjóða fram aðstoð sína og vera alvöru partur af senunni, mæta á tónleika og hætt að stela tónlist af netinu. Það er óþarfi að setja sig endalaust í stellingar sem neytandi, það er ekkert mál að rífa sig upp á rassgatinu og verða að geranda í íslenskri tónlistarmenningu.
Frekari spurningar varðandi það hvað Undirtónar er og hvað við stöndum fyrir má senda á isar@undirtonar.is
kveðja, Ísa