Komið þið öll sæl.
Hér er ég að pæla í að tala aðeins um þær hljómsveitir sem ekki ná inn á topp 20 listana en eru í algjöru uppáhaldi hjá ykkur, böndin sem gera frábæra og úthugsaða tónlist en eru ekki nógu mainstream eða hafa bara ekki nógu góðan umboðsmann til að „meika það“. Þið kannist flestöll við þessar hljómsveitir og ég er handviss um að nánast hver og einn þarna úti veit um a.m.k. eina frábæra hljómsveit sem aðeins hann og kannski handfylli af fólki þekkir. Hér vil ég gefa ykkur séns á að koma þessum sveitum á framfæri og leyfa öðrum að njóta.
Ég vil að hvert og eitt ykkar nefni mér eina eða tvær (eða jafnvel fleiri) hljómsveitir sem þið þekkið en ekki margir aðrir kannast við. Ég vil helst að þið takið fram hvernig tónlist hún spilar, nokkurnveginn hvers vegna þið fílið hana svona rosalega og einhvern byrjunardisk með henni, einhvern disk sem þið haldið að meðaljóninn eigi auðveldast með að fíla og þar af leiðandi hvetja hann til að næla sér í meira efni með sveitinni. Einnig væri gott ef þið tækjuð fram ef það tekur sérstaklega margar hlustanir að fíla hljómsveitina sem þið skrifið um.
Ég ætla að byrja þetta með því að nefna tvær hljómsveitir: „Nightwish“ og „Saves the Day“.
Nightwish
Nigtwish er finnsk metalhljómsveit en er alveg langt frá því að vera í „Dimmu Borgir - öskra með rödd beint úr helvíti í míkrafóninn“-hópnum (með fullri virðingu fyrir þeim hóp samt sem áður). Þessi hljómsveit hefur, auk bassa, gítars og trommu, lungann úr sinfóníuhljómsveit á bak við sig og óperusöngkonu með fallegustu rödd sem ég hef heyrt. Útsetningin á lögunum er ljóslega vel útpæld og heyra má glögglega að diskarnir þeirra voru ekki teknir upp á einum degi. Það sem heillar mig mest við tónlistina þeirra eru þessi kröftugu sinfóníuriff auk áðurnefndar raddar, raddar sem er stundum svo falleg að mann langar bara að leggjast niður og gráta. Einnig er ég mikið að fíla það hversu flókin riffin þeirra eru á stundum, eitthvað sem maður heyrir sjaldan í mainstreamtónlist nútímans (með fullri virðingu fyrir henni samt sem áður).
Nightwish einskorða sig þó ekki við metalinn, og eru alveg iðnir við það að slökkva á distortiontakkanum á magnaranum og koma með þessar svaðalega fallegu melódísku ballöður sem framkalla 5. stigs gæsahúð.
Þó mér líki ekki allskostar vel við það að líkja þessari sveit við einhverja aðra þá get ég samt sagt ykkur það að ef það kæmi til mín maður akkúrat núna, héldi byssu upp að gagnauganu á mér og neyddi mig til að líkja Nightwish við einhverja hljómsveit þá myndi ég segja honum að fyrir mér væri Nightwish einskonar Iron Maiden með flottari útsetningum, meiri sinfóníu og ótrúlega fallegri söngrödd. Þó vil ég ekki meina að Nightwish sé “betri” en Iron Maiden, enda er alveg nógu mikil fásinna að líkja svona ólíkum sveitum saman, hvað þá að raða þeim í sæti eftir því hvor er „betri“.
Sem byrjunardisk mæli ég með „Ocean Born“, og fyrir þá óþolinmóðustu sem nenna ekki að ná í / kaupa heilan disk og vilja bara eilítið sample þá bendi ég á lögin „Gehtsemane“, „Moondance“ og „Sleeping Sun“.
PS: Ég vil þakka honum Gumma (Iceberg) ótrúlega mikið fyrir að fá mig til að hlusta á þessa sveit og vera þess valdandi að ég hlustaði ekki á lag með annarri hljómsveit í tvær heilar vikur.
PS 2: Þess má einnig geta að á vissan hátt er þessi hljómsveit lík Botnleðjunni okkar, þ.e. henni blöskraði lélegheit laganna í Eurovision og tók þátt í undankeppninni, en vann ekki.
Saves the Day
Saves the Day er afar kröftug og skemmtileg hljómsveit frá Bandaríkjunum. Mætti helst líkja tónlist hennar við Green Day, en þó ekki alveg. Til dæmis hef ég afar takmarkað gaman af Green Day og hef raunar aldrei „fattað“ lögin þeirra, en á þessa sveit get ég hlýtt dögunum saman. Það er bara eitthvað við þessi stuttu, catchy lög, eitthvað sem fær mann til að finnast þessi lög mun dýpri en virðast við fyrstu sýn (hlustun). Söngvarinn hefur afar sérstaka rödd sem tekur kannski smá tíma að venjast, en gefur lögunum afar sérstakan blæ. Lögin, sem eru frekar stutt eins og fram hefur komið, samanstanda af ótrúlega catchy riffum og bera eitthvað magical pixie-dust með sér sem gerir það að verkum að maður bara fær einfaldlega ekki leið á þeim, sama hversu mikið maður nauðgar þeim. Sem dæmi má nefna að í sumar var brenndur diskur með tveimur plötum þeirra (ég sagði að lögin væru stutt…) í geislaspilara
vinnubílsins míns í þrjár vikur samfleytt, og þó ég ætti helling af fleiri diskum í diskahulstrinu mínu sá ég einfaldlega ekki ástæðu til að skipta.
Ef þig vantar skemmtilegt og catchy rokk, sem inniheldur samt sem áður mikla dýpt, í bílinn, eða bara heimagræjurnar, þá mæli ég eindregið með Saves the Day.
Sem fyrsta disk vil ég benda á „Stay What You Are“ og fyrir þá óþolinmóðu skal ég benda á lögin „Through Being Cool“, „Jukebox Breakdown“ og „Freakish“.
Ég vil taka það fram að allt sem ég hef skrifað hér að ofan er einungis mín skoðun og ber að virða hana sem slíka. Ef ég hef móðgað einhverja manneskju eða tónlistarstefnu/flokk þá biðst ég afsökunar fyrirfram.
Ein af aðalástæðunum fyrir því að ég skrifa þessa grein er að fyrir nokkrum dögum áskotnaðist mér mp3-spilari að nafni iPod þannig að þessa dagana er ég með 20GB af tónlist í vasanum hvert sem ég fer, og langar þessvegna að auka aðeins við safnið mitt og fá inn nýtt blóð. Því vona ég að sem flestir svari þessari grein og gefi mér eitthvað til að hlusta á næstu mánuðina.
Nefnið nú einhverja(r) hljómsveit(ir) sem þið fílið og viljið að aðrir fíli líka…
Zedlic