Þann fyrsta maí rölti ég og vinur minn um bæinn, ískaldir á puttunum og eyrunum og þræddum kosningaskrifstofurnar til að sníkja kakóbolla og Gajol pakka. Að lokum enduðum við hjá kosningaskrifstofunni hjá Frjálslynda flokkinum þar sem ungir herramenn spókuðu sig um í jakkafötum og einn var með hatt. Þetta voru ekki frambjóðendur, heldur meðlimir í hljómsveitinni Ég sem voru að spila fyrir nokkrar hræður sem hímdu þar fyrir utan.

Ég ákvað að bíða aðeins lengur áður en ég færi heim til að hlusta á þessa náunga(enda er ég í hljómsveit sem spila alltaf uppáklæddir með hatta á tónleikum) og viti menn; þeir fóru fram úr mínum björtustu vonum.
Ég veit hvernig það er að spila úti á götu, það er ískalt og napurt og hljóðið og spilamennskan líður fyrir það. Þess vegna kom það mér á hversu pottþéttir þeir voru á öllum lögunum í þessum vægast sagt ískulda, það mátti varla heyra feilnótu. Nú, lögin sem þeir spiluðu voru kraftmikið íslenskt rokk, þeir voru með kreatívar og skemmtilegar lagasmíðar. Það eina sem mér fannst vera að var hljóðneminn sem söngvarinn söng í, hann datt alltaf út um leið og hann byrjaði að syngja, en mér var sama, heldur beið og norpaði áfram úti í kuldanum til að hlusta á meira. Þessi hljómsveit heitir Ég og hefur gefið út disk sem ber heitið Skemmtileg lög(sem að þeirra sögn enginn hefur keypt þó það sé ósatt). Ég keypti þennan disk sem gefinn er út af Íslenskum Járnbrautum í Japis nokkrum dögum seinna eftir að ég heyrði í þeim. Diskurinn var ágætur við fyrstu hlustun, en síðan verður hann betri og betri og betri. Öfugt við marga diska sem ég hef hlustað á eru engir veikir blettir á henni, heldur helst flæðið alveg frá upphafi og enda og maður hlakkar alltaf til næsta lags þegar eitt er búið. Þó eru gæðin á upptökunum á köflum nokkuð snubbótt og mættu vera meiri. Einnig sleppir gítarleikarinn sér allnokkuð fram af sér beislinu í byrjun lagsins “Leyndarmál”. En það er ábyggilega bara partur af einhverjum listrænum gjörningi sem var framinn í undarlegum ham.

Það er einnig greinilegt að “Ég” eru fótboltabullur miklar eins og sést á framhliðinni á plötunni, aftan á henni, nöfnunum á lögunum og textunum.

Svo ég víkji nú að textunum. Hérna kemur brot:

“Ég sem betri lög þegar ég er
berfættur …??????????????…(hann syngur stundum svolítið óskýrt)
Ég sem betri lög þegar ég er…þegar ég er berrassaður…

Í Minnea….Í Minneapolis!”

Hljómsveitin er ábyrgðarlaus þegar kemur að textasmíðum, en þau eru þó skemmtileg og bæta lögin til muna. Sérstaklega í síðasta laginu á plötunni, Dvergalaginu:

“Er ekki frábært…að fá að ráða
Er ekki betra að hafa teningana
er það ekki fyndið að vera svona
lítill og krúttlegur
klósett í barnastærð
skó númer 4…”

Núna áðan var ég einnig niðri á Ingólfstorgi til þess að hlusta á þá. Þeir hljómuðu mjög skemmtilega rétt eins og í fyrra skiptið. Verst að ég kemst ekki á tónleikana á Grandrokk sem þeir halda annað kvöld.

Hljómsveitin er skipuð:

Róberti Erni Hjálmtýssyni, sem syngur og leikur á dvergakór, bassa, gítar, orgel, trommur og dvergabanjó

Steindóri Inga Snorrasyni sem leikur á gítar

Baldri Sívertsen Bjarnasyni sem leikur á gítar og víbrafón

Arnari Inga Hreiðarsyni sem leikur á bassa

og Sigurði Breiðfjörð Jónssyni sem leikur á trommur.

Hljómsveitin Ég og diskurinn Skemmtileg lög er með því betra og skemmtilega sem ég hef heyrt í langan tíma. Ég mæli eindregið með plötunni sem fæst að minnsta kosti í Japis, veit ekki með aðrar plötubúðir.

Hljómsveitin fær ****1/2 stjörnur fyrir sviðsframkomu og spilamennsku live, og diskurinn fær ***** stjörnur. Einstaklega góð og skemmtileg hljómsveit og undarlegt að þeir skyldu ekki vera þekktari en þeir eru.


(Ég get eiginlega ekki sent inn neina mynd með greininni þar sem ég finn engar upplýsingar um þá á netinu.)