Sma grein um konginn sjalfan :-)

Elvis Aaron Presley fæddist á frekar fátæklegu 2 herbergja heimili þann 8. janúar árið 1935. Foreldrar hans voru þau Vernon og Gladys Presley en þau giftu sig árið 1933. Þegar Gladys var ólétt var hún þess fljótt fullviss að hún gengi með tvíbura og hafði hún rétt fyrir sér því árið 1935 fæddist svo eins og áður segir Elvis litli, en tvíburabróðir hans, Jessie Garon dó við fæðingu og var Elvis því einkabarn. Þegar Elvis var 4-5 ára segir sagan að hann hafi heyrt rödd bróðir síns sem sagði honum að lifa réttu lífi og láta gott af sér leiða. Elvis var að hans sögn í andlegu sambandi við bróðir sinn heitinn og segir hann hafa hjálpað sér í gegnum bernskuárin. Pabbi Presleys, Vernon hafði hið týpíska Presley útlit, með ljóst hár og ljós á hörund, langan og vöðvamikinn háls, hart beinabert andlit, skörp og lítil augu. Mamma hans var mjög aðlaðandi kona með dökkt hár, stór og dökk augu. Má því segja að Elvis hafi erft það besta frá báðum foreldrum því hann var með útlínur pabba síns, en dökkt yfirlit og dökkt hár móður sinnar.

Fyrstu ár ævi sinnar bjó Elvis í Tupelo bæ í Mississippi eða allt til árins 1948 þegar fjölskyldan fluttist til Memphis í Tennessee. Þegar Elvis var lítill fékk hann marga hluti gefins og þar á meðan var gítar. Hann byrjaði snemma að fikta með hann og fékk innblástur frá útvarpinu og gospel tónlist sem hann heyrði í kirkjunni, en hann rækti trú sína vel og fór í kirkju í hverri viku. Klerkur einn minnist þess að hafa kennt Elvis nokkur grip á gítar og var Elvis fljótur að læra. Fyrsti árangur sem Elvis náði í tónlistarbransanum var þegar hann var 11 ára en það var á “barnadaginn” í heimabæ hans. Þá flutti hann lag sem hann hafði lært með því að hlusta á útvarpið. Þetta var í fyrsta sinn sem Elvis steig á svið og vann hann til annara verðlauna í keppninni. Hann tók hröðum framförum á gítarinn og ekki leið á löngu þar til hann var talinn hinn fínasti gítarleikari. Í skólanum hitti Elvis marga áhugamenn um tónlist og fór að stunda ferðir á útvarpsstöð í grendinni en þar sá hann marga tónlistarmenn að störfum og lærði af þeim. Elvis lauk námi við Humes framhaldsskólann í Memphis árið 1953 eftir brösugt gengi og tók hann gítarinn fram yfir námið og einbeitti sér frekar að tónlistinni en náminu.

Elvis var að mörgu leiti hinn venjulegi unglingur, lenti í ýmsum skemmtilegum og einnig miður skemmtilegum atvikum í sambandi við stelpur, var feiminn og frekar óframfærinn en það átti eftir að breytast þegar líða tók á ævina. Upphafið að tónlistarferli Presleys má rekja til þess að á unglingsárunum fór hann að móta þá rokkímynd sem átti eftir að fylgja honum um ókomin ár. Hann safnaði börtum til að fela hið bólugrafna andlit sitt og áttu þeir einmitt eftir að verða eitt helsta kennimerki hans. Einnig fór hann að móta fatastíl sinn en hann einkenndist af þröngum en útvíðum buxum, sem allir þekkja, og litskrúðugar skyrtur. Á 16. árinu ætlaði Presley að gerast trúarsöngvari og munaði minnstu að honum tækist að komast inn í einn sönghóp en var hafnað á síðustu stundu. Þess í stað hóf hann að syngja blús og komst í kynni við sérstaka útvarpsstöð blökkumanna í Memphis sem átti eftir að hjálpa til við að koma Elvis fram á sjónarsviðið.


Að kvöldi 6. júlí árið 1954 fór Elvis í fyrstu formlegu upptökuna í Union Avanue í Memphis. Þá var hann aðeins 19 ára og var þetta stórt stökk fram á við í tónlistarferli hans. Starfsmenn hljóðversins töldu frammistöðu hans nokkuð góða. Eftir þessa fyrstu upptöku héldu þeir áfram í samstarfi og fór stíll Elvis að breytast úr country yfir í pop eða jafnvel rokk. Þeir söfnuðu saman þessum upptökum Elvis og settu saman fyrstu sólóplötu piltsins. Hún fékk góðar undirtektir og bárust 5000 pantanir í plötuna fyrstu vikuna sem hún var leikin í útvarpi. Hún kom opinberlega á markað þann 19. júlí árið 1954 og má segja að þarna hafi ferill Elvis byrjað af fullum krafti og líf hans tekið stakkaskiptum. Nú fóru líka peningar að streyma til Elvis og eitt af því fyrsta sem hann gerði fyrir þá var að versla sér bleikan Cadillac og lítið hús handa fjölskyldunni. Vinsældir Elvis jukust jafnt og þétt eftir þetta og spilaði þar inní að hann fékk að koma fram á útvarpsstöð einni sem útvarpaði um mörg suðurríkin og er það helsta ástæðan fyrir því að hann varð fljótt vinsæll þar.
Elvis var nú komin á mikla framabraut sem hann átti ekki eftir að víkja af fyrr en um síðir, hver gull platan kom á eftir annari og Elvis hóf að leika í kvikmyndum, samtals 33 stykkjum, og ein af aðalleikkonunum sem lék á móti honum í einni þeirra sagði að Elvis hefði flekað allar aðalleikkonurnar sem hann lék á móti, nema sig. Svo má hver ráða hvort hann trúir þessari sögu. Vinsælasta myndin sem Elvis lék í er vafalítið Jailhouse Rock, en hún var frumsýnd 17. október árið 1957 við góðar undirtektir.

Þegar hér er komið við sögu er Elvis orðinn einn alfrægasti skemmtikraftur í Bandaríkjunum og frægð hans farið að geta annars staðar í heiminum. Með lögum eins og “Hound dog”, “Can´t help falling in love”, “Blue suede shoes” og fleirum sem skóku alla heimsbyggðina var hann búinn að skipa sér sess meðal þeirra fremstu. Skemmtanalífið var ofarlega á baugi hjá Elvis þessi árin og naut hann mikillar kvenhylli enda þekktur fyrir fegurð sýna og drenglyndi, en þó kunni hann sér hóf og leiddist ekki út í neina vitleysu.

Þann 24 mars árið 1958 var þó komið að því að Elvis þurfti að fara í herinn, en það var eitthvað sem hann hafði kviðið fyrir lengi og taldi að þetta myndi koma niður á tónlistarferli hans. Elvis fékk stutt heimfararleyfi í ágúst 1958 þar sem móðir hans var veik og að morgni 14. ágúst dó hún án þess að nokkur vissi fyrir víst hvað var að. Þetta atvik tók gríðarlega á Elvis og söknuðurinn var svo mikill að það þurfti að sprauta hann niður til að hann gæti sofnað. Þegar hann fór aftur til Þýskalands hitti hann í fyrsta sinn konu að nafni Priscilla Beauleu, en hún átti síðar eftir að verða eiginkona hans. Hún var aðeins 14 ára þegar Elvis sá hana í gleðskap í Þýskalandi og hafði hann á orði að hún “væri eins og engill”. Kóngurinn breyttist í feiminn og vandræðalegan strákling þegar hann reyndi að nálgast hana en það tókst þó að lokum og urðu þau góðir vinir áður en hann þurfti að fara aftur heim. Elvis var sendur aftur heim í mars árið 1960 og áhyggjur hans um það að tónlistarferill sinn hefði beðið hnekki voru óþarfar því vinsældir hans voru engu síðri eftir herþjónustuna. Hann hóf á ný að gera plötur og leika í myndum með jafngóðum ef ekki betri árangri en fyrr og 3 smáskífur og ein breiðskífa sem náðu toppi vinsældalistanna bera þess glögglega merki. Í desember 1962 hafði Priscilla flúið frá Þýskalandi til að heimsækja Presley í Los Angeles og fékk þar leyfi til að eyða jólunum með Presley og fjölskyldu. Þarna var Priscilla nýorðin 18 ára og 4 árum síðar þann 1. maí árið 1967 giftust þau í rólegri athöfn sem fram fór í Las Vegas. Nákvæmlega níu mánuðum eftir giftinguna eða þann 1. febrúar eignast Priscilla dóttir, eina barn Presleys, en hún var skýrð Lisa Maria Presley. Elvis var umhyggjusamur faðir sem tók einstakri ástúð við einkabarn sitt og sumir vilja meina að hann hafi dekrað hana umof. Skemmtanalífið tók þó sinn toll og var erfitt fyrir Elvis að sinna báðum störfunum, föðurstarfinu og skemmtanastarfinu af öllum mætti. Elvis fór að sýna konu sinni minni og mini áhuga og átti hann margar hjákonur á þeim tíma. Priscilla var Elvis einnig ótrú og í byrjun árs 1972 gerðist það óhjákvæmilega, Elvis og Priscilla Presley, hættu að búa saman eftir nokkuð stormasamt hjónaband. Skilnaður þeirra var svo gerður formlegur árið 1973 . Þó héldu þau ágætu sambandi, fyrst og fremst fyrir sakir Lisu dóttur þeirra, en margir telja að skilnaðurinn hafi verið Presley ofviða og byrjun á hinu slæma líferni Presleys sem átti að lokum eftir að koma honum í gröfina.

Elvis sökk í þunglyndi eftir skilnaðinn en til að uppfylla kröfur tónelskra aðdáenda sinna varð hann að skemmta og var hann því settur á örvandi lyf fyrir sýningu til að halda kallinum hressum og svo öflug deyfilyf til að róa hann niður að sýningu lokinni. Lyfin fóru smátt og smátt að verða meira en bara fyrir sýningarnar og Elvis var sokkinn djúpt í hyldýpi dópsins. Notkunina á lyfjunum réttlætti hann þó með því að þau væru eftir lyfseðli og ekkert væri að. Útlit Elvis fór sífellt versnandi og tók hann að fitna úr hófi fram en það undarlegast er að vinsældir hans virtust haldast í nokkuð góðum farvegi. Elvis hafði aldrei farið sparlega með peningana sína en núna má segjja að hann hafi algerlega misst sig í þeim málum. Til marks um það keypti hann eitt sinn 14 cadilac bíla á einu kvöldi og annað dæmi er þegar hann flaug frá Memphis til Denver í þeim einum tilgangi að kaupa sér samlokur sem honum þótti svo góðar á hóteli þar í bæ. Elvis var í nánu sambandi við konu sem hét Linda Thompsson en hún fékk eins og margar aðrar nóg af slæmum lífsháttum Elvis og hættu þau saman árið 1976 eftir um það bil 4 ára samveru.

16. águst árið 1977 átti Elvis Presley að leggja upp í 12 daga hljómleikaferð um bandaríkin. Á þessum tíma var Elvis hættur að borða allt nema pillur, til að reyna að ná af sér aukakílóunum, en hann var orðinn 112 kíló, og drakk hann bara kaffi. Elvis talaði mikið um ferðina og var honum sagt að uppselt væri á alla tónleikana. Elvis fór heim til að slaka á fyrir ferðina og sagði hann starfsfólki sínu að han ætlaði að vera inni á klósetti að lesa og veit enginn nákvæmlega hvað gerðist eftir að hann fór þar inn. Seinna um morguninn fannst Elvis Presley, látinn, 42 ára að aldri, eftir allt of stóran skammt af lyfjum, en sagt er að hann hafi gleypt yfir 10 tegundir af ýmsum róandi lyfjum. Fólkið sem kom að honum áttaði sig ekki strax á því að hann væri látinn því oft hafði hann verið kaldur viðkomu en þegar ein af aðstoðarkonum hans fór að líta á hann sá hún að Rokkkóngurinn var í alvöru látinn. Eða hvað?

Vona að þetta se sæmilegasta lesning þott löng se.

fogg