Þó að Hljómalind heyri nú aðeins fortíðinni til er ekki þar með sagt að við, sem stóðum að baki henni, séum hættir öllum afskiptum af tónlist. Það er ljóst að það er enn grundvöllur fyrir því að halda tónleika hér á landi og því munum við reyna að halda
áfram að standa fyrir hinum ýmsu uppákomum og kynna um leið tónlistaráhugamenn fyrir athyglisverðum hljómsveitum.
Ein slíkra hljómsveita er hin bandaríska The Iditarod en hún mun leika á Grand rokk þann 1. apríl næstkomandi ásamt Kimono. Sveitin gerði reyndar stuttan stans hér á landi fyrir rúmu ári
síðan og lék á afar látlausum tónleikum í Hinu húsinu, meira til gamans en alvöru. Nú er hún hins vegar á leiðinni aftur og hyggst halda öllu veigameiri tónleika, sem eru jafnframt hluti af evrópureisu hljómsveitarinnar.
Tónlist The Iditarod er, í stuttu máli, afar róleg og þægileg og myndi líklega flokkast undir það sem fræðimennirnir kalla slow-core. Áhrif austur-evrópskrar sígaunatónlistar eru þó sterkari en almennt gengur og gerist og skapa bandinu þannig nokkra sérstöðu í hinni víðáttumiklu lo-fi flóru Bandaríkjanna. Hljómsveitin hefur sent frá sér þrjár stórar plötur og er einmitt að kynna þá nýjustu, ‘The River Nektar’, um þessar mundir. Hún kom út nú á dögunum á vegum Blue Sanct, sem rekið er af stórvini okkar, Michael Anderson, sem einnig gengur undir nafninu Drekka. Smáskífur The Iditarod eru og nokkrar auk þess sem sveitin hefur gefið út heilar þrjár jóla/vetrarplötur sem allar eru kenndar
við ‘Yuletide’. Svo má til gamans geta að meðlimirnir sjá jafnframt um eigið plötufyrirtæki, Secret Eye, sem stendur m.a. fyrir endurútgáfu á fyrstu plötu Stafræns Hákons.
Það er óhætt að mæla með tónlist Iditarod fyrir unnendur listamanna eins og Low, The Mountain Goats, Ida, Sonora Pine, Songs:Ohia, Cat Power og Nick Cave og því hvet ég sem flesta til að kíkja á Grand Rokk þriðjudaginn 1. apríl kl. 21:00 (ath: þetta er alls ekkert aprílgabb). Þarna gefst líka gott tækifæri til að sjá Kimono, sem hefur verið að leggja lokahönd á fyrstu breiðskífuna sína en hún kemur út bráðlega eftir nokkra bið. Það stefnir því allt í stórfína tónleika og vonandi myndast góð stemmning fyrir þeim.
Árni Viðar
http://theiditarod.org/
http://www.mineur-aggressif.com
http://www.bluesanct.com