Til glöggvunar:
Nirvana skiptir ekki máli
NIRVANA er ofmetnasta rokksveit sögunnar og lagasmiður hennar, Kurt Cobain, er ofmetnasti lagasmiður sem dægurmenningin hefur getið af sér. Þetta segi ég ekki af rætni, eða þá til að stríða þeim þúsundum gítarleikara sem taka sveitina sér til fyirmyndar í einföldu bílskúrsrokki. Nei, ég vil meina að þetta sé einföld staðreynd sem hægt er að styðja með rokkmenningarlegum dæmum.
Áhrif sveitarinnar, sem lék melódískt gruggrokk, verða þó seint ofmetin. Ásamt Bítlunum og Sex Pistols er þetta ein áhrifamesta rokksveit sögunnar og eins og hjá þeim ná áhrifin út fyrir þau tónlistarlegu.
En hver er tónlistarlega arfleifðin svo? Þrjár stórar og ójafnar plötur, hver á sinn hátt. Fyrsta breiðskífan, Bleach ('89) er sæmilegasta stikkprufa af því gruggi sem fyrirfannst undir yfirborði Seattle á þeim tíma sem borgin beið þess að springa út sem rokkhöfuðborg heimsins (en átti sömuleiðis ekkert í snilldarverk eins og Superfuzz Bigmuff ('88) með Mudhoney eða Buzz Factory ('89) með Screaming Trees). Önnur breiðskífan, ein umtalaðasta og áhrifamesta rokkplata allra tíma, kom svo út árið 1991. Nevermind setti nýja staðla fyrir útvarpsvænt rokk, eitthvað sem mestan part hefur verið til bölvunar. Offspring, Linkin Park, Limp Bizkit … listi steingeldra og útvatnaðra rokksveita er endalaus. Eftir Nevermind eru pönk og nýbylgja í hugum sumra eitthvað allt annað en “pönk” og “nýbylgja” og upprunaleg merking þeirra hugtaka - listræn nýsköpun og “mér er skítsama” viðhorf til rokks og róls - hefur sumpart dofnað. Neðanjarðarrokkið heldur þó að sjálfsögðu áfram - en leifar þess sem var fljóta fyrir ofan í afskræmdri mynd.
En ef það hefði ekki verið Nirvana sem stuðlaði að geldingu harðrar rokktónlistar þá hefðu það verið einhverjir aðrir. Vindarnir voru þegar farnir að blása í þessa átt. Sonic Youth gáfu út Goo árið á undan hjá risanum Geffen (og vel að merkja er sú plata frábær) og Pearl Jam voru komnir fram með sína Ten. Nirvana voru bara svo “óheppnir” að gefa út Nevermind. Þeir voru röng sveit, með svona la la plötu á hárréttum tíma.
Kurt gamli Cobain var því gerður að kyndilbera gruggsins - og kyndilinn drattaðist hann með óviljugur, því miður hvorki með löngun eða listræna getu til að valda honum. Plötunni sjálfri, Nevermind, er svo haldið saman af frábærri upptökustjórn Butch Vig (sem ber húðir Garbage í dag. Cobain sjálfur var hins vegar lítt hrifinn af vinnu Vig) og inniheldur nokkur ágætlega grípandi rokklög. En stendur hún undir lofinu sem á hana hefur verið ausið eins og t.a.m. Sgt. Pepper Bítlanna, Pet Sounds Beach Boys eða Never Mind the Bollocks Sex Pistols? Engan veginn.
Lagið sem kom þessu öllu af stað, “Smells Like Teen Spirit”, er þá meira tilkomumikið en gott og þolir illa endurtekna spilun.
Tveimur árum síðar kemur svo In Utero út, hálfgildings tilraun til að afla á ný virðingar undirheima, enda Kurt meinilla við alla frægðina (sem vekur upp spurningu sem menn ættu að íhuga oftar: Af hverju ekki að segja þá upp samningum og draga sig í hlé? Cobain framdi svo sjálfsmorð í apríl ‘94, 27 ára gamall og saddur lífdaga).
In Utero er ósannfærandi smíð eins og fyrirrennararnir. Alls ekki slæm plata en stendur einfaldlega ekki undir snilldarstimplinum.
Og þar liggur grugghundurinn grafinn. Önnur öfl en náðargáfa í tónlist gerðu Nirvana að því sem þeir voru og því sem þeir eru í dag en Kurt og félagar virðast eilífur innblástur rokkþyrstra bílskúrsstráklinga. Þessi öfl eru hlutir eins og fjölmiðlar, sviðsframkoma og einhver ókennilegur og óræður sjarmi. Þetta skóp Nirvana, ekki tónlistarleg innstæða. Bítlarnir áttu til hvort tveggja, Sex Pistols keyrðu mikið á ímyndinni, þótt það dyljist engum að fyrsta og eina plata þeirra rokki feitt. En Nirvana - kannski er það tímanna tákn - voru fyrst og fremst táknmyndir, tilbúningur fjölmiðla og þrá unglinga þess tíma eftir andhetju, eitthvað sem aumingja Kurt virtist hafa í sér í ríkum mæli. Þegar litið er til baka er í raun furðulegt hversu mikið er látið með ekki betri hljómsveit.
Það er rétt að staldra aðeins við Sex Pistols í þessu sambandi, til að varpa skærara ljósi á þessar staðreyndir. Sú sveit var langt í frá besta pönksveitin sem það ágæta form gaf af sér (Buzzcocks, Clash, Ramones t.d. höfðu allar mun meiri tónlistarlegri vigt en Sid Vicious og félagar). En hún er sannarlega sú þekktasta og sú sveit sem almenningur tengir hvað skjótast við pönkið.
Merkilegt líka að sú plata sem hvað mest hefur verið látið með þegar Nirvana er til umræðu er upptaka frá því þegar sveitin lék órafmagnað fyrir MTV sjónvarpsstöðina (MTV Unplugged in New York (’94), gefin út eftir dauða Cobains). Þau lög sem vöktu hvað mesta athygli þar voru ekki einu sinni sveitarinnar. Ábreiður yfir “Where Did You Sleep Last Night?” eftir Leadbelly og “The Man Who Sold the World” eftir Bowie.
Um síðustu jól kom svo út safnplatan Nirvana þar sem litið er yfir ferilinn. Fengur safnsins liggur í áður óútgefnu lagi, “You Know You're Right” sem var eitt af því síðasta sem Cobain setti á band. Ástríðufullir Nirvana-pælarar hafa séð í laginu vísbendingar um hvert Cobain var að stefna í list sinni og sjá þar hylla undir eitthvað stórfenglegt. En í raun er hér höfuðið bitið af skömminni. Eftir drungalegan inngang einhendir Cobain sér í enn eitt andlausa “Je je je je-ið” og innsiglar með því það sem hefur verið rætt í þessum pistli. Þetta er öll dýrðin: Vankað je je je.
Á mannamáli er ég semsagt að segja þetta: Nirvana var og verður fremur leiðinleg hljómsveit og ef menn vilja heyra almennilegt grugg er best að leita annað. Nirvana skiptir einfaldlega ekki máli - a.m.k. þegar rætt er um fagurfræði rokktónlistar.