Fjölbrautaskólinn í Breiðholti kynnir með stolti styrktartónleika í Undirheimum fimmtudaginn 27. febrúar. Fram koma nokkrar af bestu/heitustu/ferskustu/léttklæddustu sveitum landsins og sína listir sínar. Aðgangseyrir er aumar 500 krónur og rennur hann óskiptur til Regnbogabarna - samtaka gegn einelti.

Allar sveitirnar gefa vinnu sína (allt eru þetta leitandi listamenn sem kjósa hugarró fram yfir peninga hvenær sem er) og verða að sjálfsögðu í banastuði. Sveitirnar eru…



MAUS – Maus er án efa ein besta hljómsveit landsins en mausverjar undirbúa nú útkomu fimmtu breiðskífu sinnar “Musick” sem kemur út einhverntíman eftir páska. Platan var tekin upp og hljóðblönduð í þýsku iðnaðarborginni Dortmund og mixuð í London.


BÚDRÝGINDI – Eins og flestir vita unnu Búdrýgindi músíktilraunir á síðasta ári, í kjölfarið kom út platan Kúba Kóla sem inniheldur 11 áhyggjulaus pönkrokk-lög sem kalla ekki allt ömmu sína.


CORAL – Coral hefur starfað í þrjú ár, en eitt lag þeirra “Arthur” hefur heyrst á öldum ljósvakans. Í sumar gáfu þeir út litla og sæta stuttskífu sem hlaut jákvæðar viðtökur þeirra sem lögðu við hlustir. Listamaðurinn Bjadddni Hell var einnig að klára myndband við lagið “Big Bang” sem þið getið downlodað á www.herrahelviti.is


NOISE – Kannast allir við, sveitin spilar melódískt grunge rokk sem er þéttara en.. umm.. ostur! Noise eru nú að leggja lokahönd á fyrstu breiðskífu sína og hafa því ekki spilað í nokkurn tíma en lofa giggi frá helvíti. Það vekur kannski athygli einhverra að rokksúperstjarnan Ragnar Sólberg lemur húðir í bandinu (spilar á trommur þ.e.)


LOKBRÁ - Lokbrá er hljómsveit sem er búin að vera starfandi í undirheimum Reykjavíkur í nokkra mánuði og spilar experimental rokk og ról. Fjórir meðlimir í leit að hinni einu sönnu melódíu í krossferð gegn kjötætum og kapítalisma og munu þeir breiða út boðskap sinn á fimmtudag með íðilfögrum tónum sem eiga sér enga hliðstæðu… nema þá kannski í Kína, eða ég veit það ekki.

Slagorð þeirra (ásamt Bítlunum líka) er: All You Need Is Love


ISIDOR – Er instrumental rokk band sem státar af örugglega besta demói sem ég hef nokkurn tíman heyrt. Þeir hafa ekki mikið spilað en þegar þeir gera það þá er sko spítt í lófana og stillt upp í 11. “Two thumbs up, those guys from Iceland sure don´t call everything their grandma” segir Newsweek.


BOB – er ung hljómsveit sem spilar allt.. frá gruggi til sýrurokks til sænskupopps og síðan aftur til baka. Sveitin er búin að taka upp litla skífu sem ber heitið “Bob For Dummies” og munu þau (bassaleikarinn er stelpa, jei!) spila lög af henni.




Allir sem vilja rokka sem og róla skulu mæta í Undirheima (þeir eru undir Breiðholtslauginni á móti FB) á fimmtudaginn og leggja góðu málefni lið…