Þetta eru nú meira ruglið og svívirðingarnar í þér Criste. Þú hefðir átt að kynna þér málið áður en þú skrifar þessa endaleysu.
STEF stelur engu frá höfundum. Allir þeir peningar sem inn koma,að frádregnum kostnaði sem er lítill miðað við nágrannalöndin, eru greiddir út til rétthafa.
Varðandi fullyrðingar um að eingöngu Bubbi, Maggi Eiríks og örfáir aðrir fái greitt eitthvað vegna plötusölu þá er það bull og vitleysa. Vegna plötusölu eru greitt í réttu hlutfalli við sölu á plötum, og er það greitt út 2x á ári 10. janúar og 1. júlí. Lágmarksgreiðsla, sem greidd er út, er kr. 200,- og það sem er undir því fellur um sjálft sig, enda talið að umsýsla öll sé talsvert meira en þessar 200 krónur.
Aðalúthlutun fyrir flutning í útvarpi og sjónvarpi er einu sinni á ári, og lágmarksgreiðsla er kr. 3.000,- annað er sett í bið og fellur ekki niður, heldur færist fram á næsta eða næstu ár. Fyrir flutning erlendis er greitt 5 sinnum á ári 1. mars, 1.júní, 1 september, 1. nóvember og þá eru greiddar út upphæðir sem ná kr. 10.000,- eða meiri fjárhæð. Í desemberúthlutuninni eru greiddar út þær upphæðir sem eftir sitja og þá er lágmarkið 0. Þetta getur þú lesið allt um á heimasíðu STEFs www.stef.is/web/Retthafar/Uthlutanir
STEF hefur ekki stolið neinum greiðslum erlendra höfunda. STEF hefur í áratugi greitt ákveðinn hluta teknanna til sænska stefsins, sem bætir greiðslunni við sína úthlutun. Erlendum rétthöfum er auðvitað ljóst, að íbúafjöldi á Íslandi er svipaður og er í smábæ erlendis og öll skráningarvinna og upplýsingavinnsla um hver á hvaða lag og texta og hve mikið í hvoru, í hvaða höfundaréttarfélagi er hann o.s.frv. er gríðarlega vinnufrek og kostnaðarsöm og lítið yrði eftir ef STEF ætti að fara að halda utan um slíkt kartotek.
Hvað varðar ætlaða marsköttunarstefnu þá er ég þegar búinn að svara því í grein og þar sem þú kannt ekki að leita á netinu þá ætla ég að setja hana aftur inn í þetta svar að hluta til svo þú getir kynnt það sem snýr að STEFi, SFH og IHM, ekki veitir af að koma þér á rétta braut.
Úthlutunarreglur STEFs finnur þú á heimasíður STEFs, www.stef.is og vil ég benda þér á að kynna þér hana áður en þú ferð að bera út rangar sögusagnir um STEF og starfsemi þess.
Úr fyrri grein:
Hvað er STEF?
STEF gætir réttar rétthafa að tónlist. Það hefur aflað sér umboð innlendra sem erlendra rétthafa og því ber að gæta réttar þeirra í hvívetna, en Ísland hefur skuldbundið sig til að vernda rétt erlendra höfunda hér á landi með aðild að alþjóðasáttmálum um höfundarétt og aðilidarríki þeirra samninga skuldbundið sig til að vernda verk íslenskra höfunda í sínu landi. Á grundvelli þessara umboða hefur STEF fengið löggildingu til að gæta réttar höfunda og veita fyrir þeirra hönd heimild til opinbers tónflutnings verka. Löggilding leiðir til þess, að STEF gætir bæði hagsmuna þeirra sem hafa gefið umboð og líka hinna, sem ekki hafa gefið umboð.
Hvað er SFH?
SFH er Samband flytjenda og hljómplötuframleiðenda og gætir réttar sinna aðila. Með sama hætti hefur það samband aflað sér umboða innlendra sem erlendra rétthafa og því ber að gæta réttar sinna manna og Ísland hefur með sama hætti skuldbundið sig til að vernda rétt erlendra aðila hér á landi og íslenskir hljómplötuframleiðendur og flytjendur eru verndaðir í aðildarríkjunum. SFH hefur fengið löggildingu til að gæta réttar allra flytjenda og hljómplötuframleiðenda. Félög sem STEF og SFH eru til á öðrum sviðum, s.s. Rithöfundasambandið, Myndstef, Fjölís o.fl.
Réttur höfunda.
Höfundur verks á verk sitt sjálfur og hann einn ræður því hvort það er gefið út á geisladiskum eða með öðrum hætti og hann ræður því hvort það er spilað opinberlega í útvarpi, hárgreiðslustofum, veitingastöðum eða annars staðar, þar sem almenningur getur heyrt það. Þetta verk er hugverk og er alveg sams konar eign og t.d. húsið, sem höfundurinn hefur hugsanlega smíðað sér. Höfundurinn ræður hvort hann leyfir einhverjum að koma inn i húsið, hann getur heimilað not þess t.d. með því að leigja það eða með öðrum hætti. Er eðlilegt að höfundur eigi verk sín og ráði þeim? Ég hélt að allir mundu svara því játandi, en eftir lestur margra af greinunum, sem hér hafa birst, er ég ekki eins viss.
Tónlist er eftirsóknarverð.
Tónlist er eftirsóknarverð af ýmsum orsökum og margir vilja nota hana, sumir vilja nota hana til að selja aðgang að henni og græða þannig sjálfir eða hafa af henni lífsviðurværi með einhverjum hætti, s.s. þeir sem reka útvarpsstöðvar, veitingahús og skemmtistaði. Aðrir vilja nota hana til að gera sinn stað þægilegri svo sem er gert á vinnustöðum, enn aðrir vilja gera vel við viðskiptavini sína eða selja meira af vörum sínum út á tónlistina eða nota tónlistina til að gefa viðskiptavinum sínum til kynna að þeir selji vöru, sem hæfi þessari tónlist og svo framvegis. Einstaka aðilar nota tónlistina til að ergja nágranna sína eins og fréttist af í einni verslunarmiðstöð, þar sem einn verslunarmaður lék tónlist hátt til að pirra aðra verslunarmenn. Sumir segjast “bara” leika tónlist til fyrir sig sjálfa en þeir eru þá janframt “bara” að leika hana fyrir almenniing og það er gjaldskylt.
Af hverju STEF og SFH?
Ef einhver vill nota verk höfundar t.d. leika hana opinberlega, þá þarf hann að fá heimild frá höfundinum. Hann þarf að fá heimild frá höfundi lagsins, höfundi textans, útsetjara verksins, ef hann er annar og allra höfundanna, ef þeir eru margir að verkinu. Þannig þarf hann að afla heimildar til notkunar allra þeirra verka, sem hann vill spila. Og hann þarf að semja við hvern og einn þeirra um þóknun. Hann þarf líka að semja við hljómplötuframleiðandann, ef hann ætlar að nota hljómplötuna og líka við flytjendur tónlistarinnar. Þetta er auðvitað ekki vinnandi vegur. Þess vegna eru til þessi samtök, STEF og SFH. Þessi samtök er til hagsbóta fyrir alla aðila, höfunda og notendur. Hver sá sem vill fá heimild til að nota tónlist honum nægir að afla heimildar hjá STEF og SFH og málið er þá leist. Hann veit líka hvað hann þarf að borga fyrir afnotin, gjaldskráin segir hver taxtinn er. Eru slík samtök óþurftafélög? Auðvitað ekki, þau eru algjör blessun fyrir þá sem vilja fá heimild til að leika tónlist eða nota hana með einhverjum hætti. Einn samningur, einn reikningur til að greiða. Þannig nú strax er komið svar við spurningunni hvort leggja eigi þetta helvíti niður, svarið er nei.
Af hverju greiða verslanir, hárgreiðslustofur og aðrir leyfisgjöld?
Það er grundvallaregla við innheimtu STEFgjalda að menn sitji jafnir. Ef verið er að innheimtagjald af einum aðila þá verður að krefja alla þá, sem gera það sama. Ef stórverslun er krafin um leyfisgjald fyrir opinberan flutning tónlistar þá verður líka að krefja smáverslun sem leikur tónlist og líka hárgreiðslustofu, því enginn eðlismunur er á þessum notendum. Allir eru þeir með því að leika tónlist að breyta sínum stað, nota eignir höfunda sér til hagsbóta, hafa ofan af viðskiptavinum sínum eða róa þá niður eða skemmta þeim. Það er sjálfsagt og eðlilegt að höfundar njóti verka sinna og að þeim sé greitt fyrir þessi afnot. Ef verslunareigandinn tæki sig til og nýtti bifreið höfundarins til að flytja viðskiptavininn að og frá versluninni þá segði varla nokkur neitt ef höfundurinn krefði hann um greiðslu, en sú athöfn er alveg sú sama og nota verk höfundar til að auðvelda viðskiptavininum lífið.
SFHgjöld.
Allir þeir aðilar sem greiða leyfisgjöld til STEFs og leika tónlistina af hljóðritum (geisladiskum, segulböndum o.s.frv.) beint eða óbeint, t.d. úr útvarpi, greiða auk STEFgjalds leyfisgjald til SFH. Þóknun þeirra er 60% álag á STEFgjald og það er STEF sem innheimtir þessi leyfisgjöld fyrir SFH. Það eru því ekki bara sjálfir höfundarnir sem eru að fá greiðslur fyrir opinberan tónflutning í verslun heldur líka flytjendurnir og hljómplötuframleiðendurnir. Flytjendur og hljómplötuframleiðendur eiga sitt framlag og það er eðlilegt og sjálfsagt að þeir fái greitt fyrir notkun á sínum eignum. Þannig greiðir verslun eða hárgreiðslustofa, sem er innan við 50 fermetra að stærð kr. 5.443 á ári til STEFs og kr. 3.266 á ári til SFH. Gjald pr. dag er rúmlega 23 krónur á dag, sem held ég samsvari því að hver viðskiptavinur á hárgreiðslustofu fái gefins eitt tissjú til að snýta sér í. Það eru nú öll ósköpin.
Geisladiskar.
Á svo til öllum geisladiskum er áritun þess efnis, að ekki megi leika þá opinberlega. Það er tilkomið vegna þess að þegar maður kaupir geisladisk, þá kaupir maður ekki um leið rétt til að spila hann opinberlega. Opinber flutningur er sérréttur og verður að greiða fyrir hann sérstaklega.
Útvarpsflutningur.
Þegar útvarps- eða sjónvarpsstöð fær heimild til að nota tónlist í sinni dagskrá þá greiðir hún leyfisgjöld til höfunda og það er tekið fram í samningi við stöðina og gjald hennar við það miðað, að viðtakendur efnisins megi ekki nota efnið í atvinnuskyni eða dreifa því áfram til sinna viðskiptavina, s.s. dreifa því í verslun eða á veitingastað. Ef það væri heimilt þá væri leikur einn að stofna útvarpsstöð og senda bara út efni annarrar útvarpsstöðvar, selja auglýsingar í dagskrána og þéna flott. Útvarps- og sjónvarpsstöðvar hafa engan áhuga á því að kaupa þennan endurdreifingarrétt, þær eiga nóg með sitt. Þeir sem bara taka við efninu og nýta það ekki áfram vilja heldur ekki greiða fyrir aðra. Sú regla er sanngjörn að hver notandi greiðir fyrir sína notkun, útvarpsstöðin fyrir sig, verslunin fyrir sig, veitingastaðurinn fyrir sig og svo framvegis. Ég sjálfur t.d. er ekki tilbúinn að greiða hærra gjald til útvarpsins til að verslun á Hvammstanga geti leikið tónlist opinberlega fyrir sína viðskiptavini. Ef sú verslun vill leika tónlist, þá getur hún bara greitt fyrir það sjálf.
Hvað verður um STEFgjöldin.
Þau leyfisgjöld, sem STEF innheimtir, skiptast milli höfunda eftir ákveðnum úthlutunarreglum. Drjúgur partur greiðist erlendum höfundum, enda er erlend tónlist mikið leikin hér á landi. Greiðsla til erlendra höfunda er sent til sænska STEFsins, sem sér um að koma henni til rétthafa. Því sem eftir er er skipt milli höfunda laga og texta að meginstefnu til eftir flutningi í útvarps- og sjónvarpsstöðvunum, en þær skila inn til STEFs upplýsingum um hvaða lög eru leikin. Þar sem tíma tekur að vinna úr þessum upplýsingum þá er höfundum greitt eftirá, þannig er greitt á næsta ári til höfunda fyrir opinberan flutning á þessu ári. Þar fyrir utan er greitt til höfunda til að jafna hlut þeirra, sem mikið eru fluttir á stöðum, þar sem ekki fer fram skráning á tónflutningi, t.d. á almennum dansleikjum. Þá er greitt rétthöfum greitt sér vegna kvikmynda og tónleika og tónlistar við jarðarfarir og guðþjónustu. Höfundar sitja við sama borð að þessu leyti. Verk höfunda eru metin af sérfróðum mönnum og verkunum skipað í flokka eftir því hvernig þau eru, höfundarnir ráða engu um þá niðurröðun, heldur er verkið sjálft viðmiðunin. Þannig geta verk “þungra” tónskálda lent í verðminni flokki og verk “léttra” tónskálda í verðmeiri flokki.
IHMgjöld.
Á auða geisladiska leggjast gjöld, sem greiðast til þeirra, sem skaðast vegna eintakagerðar einstaklinga. Eintakagerð til einkanota er heimil samkvæmt 11. gr. höfundalaga en greiðslan fyrir heimildina er þetta gjald á auða diska og annað, sem nota má til að búa til eintök af hugverkum. Hvernig gjaldinu verður skipt er ekki enn ljóst, en rétthafar að gjaldinu er meðal annarra höfundar laga og texta, kvikmyndahöfundar, kvikmyndaframleiðendur, bókahöfundar og fleiri. Það fyrsta sem netverjum dettur í hug er STEF, þegar það gjald er nefnt. Það er svosem ágætt, það sýnir fyrst og fremst að STEF er í farabroddi í baráttu fyrir rétti allra rétthafa, hvar í flokki sem þeir standa.