The Boys Next Door Einn virtasti tónlistarmaður okkar tíma er án nokkurs vafa ástralinn Nick Cave. Hann byrjaði snemma að fást við tónlist og vakti fyrst athygli með hljómsveitinni The Boys Next Door, þetta er þeirra saga …

Það var veturinn 1974-75 sem nokkrir 16 ára skólafélagar í Caufield í Ástralíu, þeir Nick Cave (söngur), Mick Harvey (gítar), Phil Calvert (trommur), John Cochivera (gítar) og Brett Purcell (bassi), byrjuðu að æfa saman nokkuð óreglulega meðfram skólanum og spila tvisvar á ári á skólaskemmtunum undir ýmsum nöfnum. Það er varla hægt að segja tónlistarhæfileikarnir hafi verið miklir til að byrja með enda voru þeir ungir að árum og þótti mörgum söngvarinn, Nick Cave, algjör hörmung enn hann hafði þó sungið í barnakór og verið í hljómsveitinni The Triple A Club / Anti Alcoholics Anonymous þegar hann var 12 ára. Strákarnir drukku ekki einungis í sig mikið magn af áfengum vökva heldur einnig allt það nýjasta í tónlistinni og urðu fyrir miklum áhrifum frá sveitum á borð við Ramones, Stooges, New York Dolls, Roxy Music, Velvet Underground og hinum áströlsku The Loved Ones.

Það kom fljótt í ljós að Nick væri óumdeilanlegur leiðtogi sveitarinnar, en hann hafði verið nokkuð til vandræða það sem af var unglingsárunum og var ekkert á leið að breyta því til batnaðar og því fylgdu félagar hans í hljómsveitinni honum í látunum. Áður en langt um leið voru þeir félagar orðnir alræmdir í skólanum sem einhverskonar uppreisnarlistafrík sem allir voru hræddir við og ekki bætti það ástandið þegar þeir hófu að neyta hinna ýmsu fíkniefna. Foreldar Nicks höfðu um það bil gefist upp á að reyna að hafa hemil á honum og foreldrar vina hans voru ekkert alltof hrifnir honum.

Árið 1976 tók hljómsveitin sér svo nafnið sem þeir áttu eftir að nota næstu árin, The Boys Next Door, Purcell hætti í bandinu og í staðinn kom besti vinur Nicks, Tracy Pew, í sveitina sem bassaleikari en hann hafði öllum að óvörum lært furðuvel á bassann á stuttum tíma. Gítarleikarinn, Cochivera, var svo sendur í skóla í Bandaríkjunum af foreldrum sínum til þess að forða honum frá vitleysunni sem félagar hans drógu hann útí (sagan segir að síðasta hálmstráið hafi verið þegar Nick og Tracy kynntu hann fyrir LSD).

Á þessum árum hneigðist Nick þó meir að myndlistargyðjunni en tónlistinni sem varð til þess að hann fór í listaskóla en féll þó ekki betur inn í þar en annars staðar, því uppreisnarseggurinn var enn til staðar, seinna lýsti hann einu málverka sinna eitthvað á þessa leið: “Einskonar dónaleg mynd með fullt af … þetta var frekar ansalegt málverk þegar ég hugsa um það núna … fullt af typpum og þessháttar hér og þar.” Reyndar var það eitt af því sem hvatti hann áfram var að ganga fram af einni kennslukonunni sem þótti verkin hans sérstaklega ósmekkleg.

Í Bretlandi hafði pönkið slegið í gegn fyrir tilstuðlan Sex Pistols og þessi nýja bylgja barst til Ástralíu og var þar loksins komin vettfangur fyrir Boys Next Door þótt ekki væri hann stór. Þeir voru nú staðsettir í Melbourne þar sem tónleikar voru tíðir og varð Nick fljótt þekktur á pönksenunni og lærðu flestir fljótt að það væri ekki gáfulegt að verða í vegi hans. Þann 19. ágúst 1977 spiluðu þeir á fyrstu alvöru tónleikunum sínum ásamt fleiri pönkböndum þaðan í Swinburne Technical College. Þrátt fyrir að aðeins um 50 manns hafi verið í áhorfendahópnum barst orðrómurinn út, en einkum þótti framkoma Nicks athyglisverð. Hljómsveitin spilaði í þá daga nokkuð af tökulögum á borð við I Put a Spell On You, My Generation og These Boots Were Made For Walking en Nick breytti þó textunum stundum á grófan hátt. Frumsömdu lög sveitarinnar voru þó meira í ætt við táninga pönk þess tíma og voru ekki ýkja merkileg framan af. Hljómsveitin hélt áfram að spila á tónleikum en var þó enn í mótun og átti það til að breyta um stíl fyrirvaralaust.

Undir lok ársins 1977 hafði The Boys Next Door bætt sig töluvert og var nú talin besta bandið í Melbourne. Snemma árs 1978 fékk hljómsveitin svo tækifæri til að taka upp lög fyrir safnplötuna Leathal Weapons fyrir plötufyrirtækið Suicide. Hljómsveitin tók upp 3 lög, eitt nýtt sem hét Boy Hero og tvö sem höfðu verið partur af tónleikadagskrá sveitarinnar lengi, Masturbation Generation og tökulagið These Boots Were Made For Walking. Þegar platan kom út í mars sama ár fékk hún frekar slæma dóma en Boy Hero var þó yfirleitt talið besta lag plötunnar. Útgáfan gaf að auki Boy Hero og Boots út saman á smáskífu og var hljómsveitin drifin í tónleikaferðalag með öðrum sveitum sem voru á mála hjá Suicide. Strákarnir voru þó hvorki ánægður með hvernig tókst til með útgáfuna né tónleikaferðalagið þar sem þeir voru látnir spila mitt á milli hljómsveita sem spiluðu gerólíka tónlist.

Um sumarið 1978 héldu þeir aftur í hljóðver á vegum Suicide og átti nú að taka upp stóra plötu, lögin 12 sem tekin voru upp voru frekar létt og grípandi pönklög og var vinnuheiti plötunnar Brave Exhibitions eftir einu laganna. Strákarnir voru þó ekki ánægðir og fannst þeir ekki fá að ráða nógu miklu við gerð plötunnar, sérstaklega var þeim þó í nöp við upptökustjórann, Les Karsky, sem útgáfann hafði ráðið og ekki bætti það ástandið þegar hann sagðist hata hljómsveitirnar Velvet Underground og Roxy Music sem voru í miklum metum hjá sveitinni. Áður en platan kom fór þó fyrirtækið á hausinn og lágu því upptökurnar í salti en svo kom að móðurfyrirtæki Suicide, útgáfan Mushroom, vildi hljómsveitin stæði við gerða samninga og vildi gefa plötuna út. Nú hafði aftur á móti nýr meðlimur, Roland S. Howard, bæst í bandið en hann hafði verið gítarleikari The Young Charlatans og hafði verið mikill aðdáandi og vinur strákanna í The Boys Next Door um nokkurt skeið. Tónlist sveitarinn hafði nú breyst ansi mikið með tilkomu Rolands og vildu þeir fá að taka plötuna upp, forsvarsmenn Mushroom tóku ekki í mál að eyða meiri peningum í upptökur en voru þó tilbúnir að gefa út nýjar upptökur ef hljómsveitin fjármagnaði þær sjálf.

The Boys Next Door héldu aftur í hljóðver í janúar 1979 og tóku upp fjögur ný lög, þar af þrjú eftir Roland en Nick hafði samið flest lög sveitarinnar fram að þessu. Platan kom svo loks út í maí 1979 og hafði þá hlotið nafnið Door Door, fyrri hliðin innihélt 6 af 12 lögum úr fyrri upptökunni og sú seinni þessi 4 nýju lög sem sveitin hafði fjármagnað sjálf. Hljómsveitin var alls ekki ánægð með plötuna og var útkoman í raun aðeins 10% af því sem þeir vildu ná fram, hún er reyndar nokkuð skringileg áheyrnar þar sem hliðarnar tvær eru gerólíkar, hljóma reyndar eins og að þar séu tvær ólíkar hljómsveitir á ferð þótt einungis hafi verið hálft ár á milli þess að þær hafi verið teknar upp. Útgáfan bað þá Nick og Roland að útbúa auglýsingu fyrir plötuna og slógu þeir fram frasanum “Drunk On the Pope’s Blood” sem féll ekki alls ekki í geð útgáfunnar en átti eftir koma við sögu sveitarinnar seinna meir. Lagið Shivers eftir Roland var svo valið til að koma út á smáskífu og jafnvel myndband búið til við lagið sem sýnt var í sjónvarpi í Ástralíu. Platan sló þó ekki í gegn og aflaði sveitinni ekki margra nýrra aðdáenda, Mushroom missti áhugann á hljómsveitinni sem hélt áfram að þróa sig í átt að nýbylgju og post-pönki auk áhrif frá tilraunakenndari sveitum á borð við Per Ubu voru farin að kræla á sér.

Enn voru þó einhverjir sem trúðu á hljómsveitina og einn þeirra var Keith Glass sem bauðst til þess að verða umboðsmaður þeirra og var til í að gefa út efni með þeim á útgáfu sinni, Missing Link. Í júlí héldu þeir aftur í hljóðver með Tony Cohen sér til hjálpar, en hann hafði aðstoðað þá við seinni upptökurnar á Door Door, og var ætlunin að taka upp EP plötuna Hee Haw. Nú voru þeir búnir að læra heilmikið á mistökunum sem þeir höfðu gert við Door Door og Leathal Weapons upptökurnar og tókst því mun betur til í þetta skiptið, enda hljómaðu þær nú loksins eins og hljómsveitin vildi en þeir voru nú í fyrsta skipti lausir við athugasemdir skriffinna útgáfufyrirtækis og gátu sleppt fram af sér beislinu. Hljómsveitin hafði nú búið til alveg nýjan hljóm, dularfullan og ógnandi, og lögin voru óhefðbundnari og enn áhugaverðari en áður og til að undirstrika allt voru abstrakt neo-absúrd textarnir langt frá því sem gekk og gerðist í hefðbundri rokktónlist. Þessi fimm laga plata kom svo út í desember 1979 hjá Missing Link og markaði ný tímamót í sögu hljómsveitarinnar.

Þeir voru nú loksins búnir að senda frá sér efni sem þeir voru ánægðir með en þeim fannst þeir þó ekki geta náð lengra í Ástralíu, aðdáendahópurinn samanstóð af rúmlega 600 dyggum hlustendum sem voru duglegir að sækja tónleika, en sveitin vildi stærri áheyrindahóp og litu hýrum augum til Bretlands sem var ekki einungis mekka tónlistariðnaðarins heldur einnig nýbylgjunnar – þar gerðust hlutirnir og þar var hinn fullkomni vettfangur fyrir nýja byrjun. Ekki bætti úr skák að þeim hafði nú verið bannað að spila víða í heimalandinu þar sem þeir voru alræmdir fyrir slæma hegðun og biðu þeir því óþreyjufullir eftir að komast burt . Umboðsmaðurinn Keith sá um að halda vel utan um þá peninga sem söfnuðust með tónleikahaldi og í febrúar árið 1980 hafði nóg safnast fyrir ferðinni til London. Lokatónleikar The Boys Next Door voru svo haldnir 16. febrúar 1980 og í því tilefni kom út smáskífa með lögunum Happy Birthday og Riddlehouse. Hljómsveitin hafði þegar ákveðið að taka upp nýtt nafn og þegar komið var til Bretlands hétu þeir ekki lengur The Boys Next Door heldur The Birthday Party og eyddu þeir lunganum úr árinu þar og gáfu út tvær smáskífur. Síðasta útgáfan undir nafni The Boys Next Door var plata sem hét einfaldlega The Boys Next Door/The Birthday Party og kom út hjá Missing Link í nóvember 1980 og innihélt lög af Hee Haw og nýjustu smáskífunum.

Í Evrópu vann hljómsveitin nýja sigra undir nafninu Birthday Party og síðar áttu sumir meðlimir hennar eftir að ná enn lengra, en það er önnur, lengri og mun merkilegri saga …


Helstu plötur:
Door Door (1979) **1/2
Hee Haw EP (1979) ****
The Boys Next Door/The Birthday Party (1980) ****