Tom Waits
Tom Waits (Thomas Alan Waits) fæddist í Pomona í Kaliforníu árið 1949 og eyddi miklum hluta æsku sinnar í að flytjast á milli bæja í Kaliforníu ásamt fjölskyldunni sinni sem átti afar erfitt með að setjast að á einum ákveðnum stað þangað til foreldrarnir skildu. Þá var Waits 10 ára og settust þau að í National City.
Fljótt kveiknaði tónlistaráhugi hjá Waits, hann fékk að æfa sig á píanó hjá nágrönnum sínum og lærði seinna að gutla á gítar. Á unglingsárunum hreifst hann af Bob Dylan og þá sérstaklega af textunum hjá honum, fljótlega byrjaði hann sjálfur að semja og skrifa texta og þegar hljóðfærakunnáttan var komin var hann ekki lengi að fara að setja saman lög við þá. Ekki var heldur langt í skemmtikraftinn því frá unga aldrei skemmti hann skólafélögum og kennurum við góðar viðtökur.
Þegar Waits var um tvítugt var hann þegar kominn með dágott safn laga í sarpinn og sumarið 1971 hóf hann að taka upp demó af lögunum sér til kynningar. Þarna voru mörg lög sem urðu síðar uppistaðan á fyrstu tveim plötum kappans auk fjölda annarra sem náðu aldrei að rata á neina skífu. Þessar upptökur áttu aldrei að koma út en komu loks á tveim geislasdiskum árin 1991 og 1993 undir nafninu The Early Years og var Waits víst sjálfur ekkert alltof hrifinn af þeirri útgáfu.
Sumarið 1972 var Waits síðan að vinna sem dyravörðu á The Heritage í San Diego og fékk stundum að troða þar upp á milli atriða. Atriðið hans vakti nokkra athygli og ekki leið á löngu áður en honum var boðin samningur hjá Asylum Records. Árið 1973 kom síðan fyrsta plata, Closing Time, út. Platan innihélt fjöldan allan af frábærum lögum sem öll voru frekar róleg og undir áhrifum frá kántrýblús og djassi og er ekki laust við að við hlustun hennar að manni finnist maður vera staddur á bar rétt fyrir lokun þar sem Tom Waits situr við píanóið úti í horni og spilar en gestirnir séu hver öðrum drukknari að drekkja sorgum sínum. Á Closing Time eru nokkur af þekktustu lögum kappans, þ.a.m. I Hope That I Don’t Fall In Love With You og svo lög sem eru mun þekktari í flutningi annarra, t.d. Ol’55 sem Eagles gerðu vinsælt og Martha sem Tim Buckley (pabbi Jeff Buckley) tók upp á arma sína.
Ekki var langt að bíða í næstu plötu enda nóg af lögum til. The Heart Of Saturday Night kom út 1974 og er það án nokkurs vafa ein af hans langbestu plötum. Stemmningin á plötunni er svalari en á þeirri fyrstu og minnir mig á troðfullan bar síðla kvölds í kjallara í gömlu steinhúsi fullan af reykjarstybbu og grenjandi rigning fyrir utan (daginn sem ég keypti þessa plötu var sú mesta rigning sem ég hef upplifað í Reykjavík og tengi ég hana því alltaf við úrhelli). Ímyndin sem Tom Waits bjó sér til í gegnum textana sína var af drykkfelldum bóhem og reyndi hann eftir megni að lifa þannig og drakk hann og reykti óhóflega á þessum árum. Hann fljótt þekktur sem mikill svallari enda oft vel í því á tónleikum (bent er á live plötuna The Dime-Store Novels Vol.1 (ekki bootlegg) sem kom út 2001 en inniheldur tónleika frá 1974 þar sem Waits er nánast óskiljanlegur í tauti sínu á milli laga).
Waits var þó duglegur að ferðast og spila og stækkaði hlustendahópurinn ört og hitaði hann jafnvel upp fyrir aðra, þ.á.m. Frank Zappa ofl. Tvöföld tónleika plata, Nighthawks At The Diner, kom síðan út 1975 en hún var hélt þó einungis lög sem höfðu ekki áður komið út og er því alveg fullgild í katalóg Waits. Jafnvel þótt lögin séu ekki jafnsterk og á plötunni á undan þá virkar hún samt fullkomnlega sem heild þar sem stórskemmtileg komment Waits á milli laga tengja hana saman, enda var hann afburðarskemmtilegur og hnyttinn á tónleikum. Nafn plötunnar er alveg lýsandi fyrir stemminguna sem ríkir enda fara hlátrasköll sársvangra næturhrafna síst framhjá hlustandanum.
Enn eitt meistaraverkið fylgi næsta ár, Small Changes, og náði drykkjuskapurinn hér hámarki bæði í textum og flutningi enda eru á henn lög á borð við The Piano Has Been Drinking (Not Me) og Bad Liver And A Broken Heart (… I don’t have a drinking problem / cept when I can’t get a drink). Waits hljómar einnig eins og hann sé blindfullur í mörgum laganna en á þeirri plötu var söngröddin orðin hrjúf og urrandi líkt og hann er þekktur fyrir ólíkt á fyrstu plötunum þar sem röddin var mun ljúfari. Síðan þá hefur þessi söngrödd verið eitt af aðalsmerkjum Waits og hafa einkenni hennar jafnvel ágerst með tímanum.
Þetta drykkjulíferni Waits tók þó sinn toll og varð honum sjálfum ljóst að ferlinn hans myndi líklega enda fyrr en ella ef hann myndi halda svona áfram, en erfitt reyndist að venja sig af þessu. Þetta kom auðvitað niður á næstu plötum og þrátt fyrir að innihalda fullt af góðum lög þá var andagiftin ekki söm og áður var. Foreign Affairs kom út 1977 sem innihélt m.a. dúett með Bette Midler í laginu I Never Talk To Strangers en var í heildina lakari en fyrri plöturnar. Árið 1978 kom svo Blue Valantines og hafði hljómurinn nú aðeins breyst enda kominn tími til, mun minna heyrðist af píanói og rafmagnsgítar kominn í aðalhlutverk. Á Heartattack And Vine frá árinu 1980 var tónlistin orðin mun rokkaðri en áður og jazz áhrifin nánast horfin, jafnvel þótt platan hafi verið miklvægt stökk í þróun tónlistar Waits þá finnst mér hún nú samt með sístu plötum hans og er það einkum vegna þess lögin voru flest mun lakari en áður þó að Ruby’s Arms skipi sér í hóp með allra bestu ballöðunum hans.
Á þessum tíma hafði Tom Waits einnig fundið sér nýtt áhugamál sem voru kvikmyndir. Árið 1978 lék hann í fyrsta skipti í bíómynd sem Mumbles í Paradise Alley og samdi hann einnig tónlistina fyrir myndina og fleiri smáhlutverk fylgdu næstu árin. 1980 byrjaði hann að vinna með leikstjóranum Francis Ford Coppola og samdi Waits tónlistina fyrir mynd hans One From The Heart sem kom svo út 1982 og fékk Waits óskarstilnefningu fyrir bestu tónlistina. Stuttu eftir að hann byrjaði að vinna með Coppola kynnist hann Kathleen Brennan sem var script-editor og giftu þau sig stuttu seinna og hefur hún alla tíð síðan unnið mikið með honum að tónlistinni.
Næsta plata var svo tilbúin 1983 og hlaut hún nafnið Swordfishtrombones og hafði tónlistin hans breyst töluvert útgáfufyrirtæki hans, Asylum, til lítillar gleði sem fannst hún vera alltof furðuleg. Waits fór þá með plötuna til Island Records sem gáfu hana út og hitti tónlistin beint í mark hjá aðdáendum og þrátt fyrir að tónlistin væri of skrýtin til þess að fá spilun í vinsældarútvarpi þá stækkaði aðdáendahópurinn sem aldrei fyrr. Waits blandaði nú saman áhrifum úr öllum áttum á nýstárlegan hátt og notaðist við hin ýmsustu hljóðfæri sem til féllu og var hljómurinn algjörlega á skjön við það sem vinsælt var á þeim tíma og reyndar hefur það alltaf verið einn af styrkjum Waits að látast ekki glepjast af tískustraumum, plöturnar hans eru algjörlega tímalausar og gætu því eins hafa verið teknar upp í síðustu viku.
Árið 1985 kom svo Rain Dogs út sem er líklega ein af hans frægustu plötum og er hann enn við sama heygarðshornið og á Swordfishtrombones nema hvað áhrifin eru jafnvel enn víðtækari. Á sama tíma tók Waits að sér fleiri hlutverk í kvikmyndum og lék t.d. aðalhlutverk í Down By Law eftir Jim Jarmusch árið 1986. Þá um sumarið lék hann einnig í fyrsta skipti á sviði í leikritinu Franks Wild Years sem hann samdi ásamt eiginkonu sinni, Kathleen Brennan, og var sett upp af hinum fræga Steppenwolf leikhópi. Kveikjan að leikritinu var samnefnt lag af Swordfishtrombones sem hafði upprunalega verið tileinkað Frank Zappa. Tónlistin úr leikritinu kom svo út 1987 og er sú plata án nokkurs vafa ein af hans allra bestu. Draugaleg orgel, harmónikkur, klukkuspil og angurvær notkun blásturshljóðfæra gerir andrúmsloft plötunnar einstakt og stórkostlegt án ógleymdum frábærum textum og lögum sem eru hvort öðru betra 1987 fór þó að mestu í tónleikaferð sem tók 9-10 mánuði og komu upptökur úr ferðinni út á plötunni Big Time árið eftir en upptökurnar eru því miður flestar ekki nógu góðar en þó eru margt áhugavert á plötunni, td frábær útsetning af Telephone Call To Istanbul.
Nokkurt hlé varð nú á að nýtt efni frá Waits liti dagsins ljós en hann sat þó ekki auðum höndum, fleiri hlutverk buðust og lék hann í ótal kvikmyndum. Árið 1990 samdi hann svo tónlist og texta fyrir leikritið The Black Rider sem var sett upp í Hamurg af leikstjóranum Robert Wilson. Leikritið var byggt á þýskri þjóðsögu, Der Freischütz, og var endurskrifað af sjálfum William Burroughs sem skrifaði meðal annars skáldsöguna Naked Lunch. Árið eftir samdi Waits tónlist fyrir kvikmynd vinar síns Jim Jarmusch, Night On Earth, og kom plata með þeirri tónlist út árið 1992. Sama ár kom loksins út fyrsta alvöru plata Waits í fimm ár, Bone Machine, sem var enn hrárri en nokkuð sem hann hafði áður gert og lögðu því enn fleiri rokkáhugamenn við hlustirnar og gerðu td pönktöffararnir í The Ramones cover-útgáfu á laginu I Don’t Wanna Grow Up af plötunni . Fyrir Bone Machine fékk hann svo fyrstu Grammy verðlaun sín fyrir bestu alternative plötuna. Samstarfið við Robert Wilson hélt áfram og samdi Waits tónlistina við leikritið Alice sem byggt var á sögunni um Lísu í Undralandi. Tónlistin úr Black Rider kom svo loksins út árið 1993 og var þá alveg ljóst að hann samdi sína bestu tónlist fyrir leikhúsið, en þess má einnig geta að William Burroughs kíkir í heimsókn á plötunni og syngur eitt lag en hann lést síðan aldraður maðurinn árið1996.
Aðdáendum Waits til mikillar mæðu hófst nú löng þögn sem var ekki rofin fyrr en á 50. aldursári hans árið 1999 þegar platan Mule Variations kom út hjá Epitaph. Hann hafði þó ekki alveg setið auðum höndum öll þessi ár heldur m.a. samið tónlist fyrir kvikmyndirnar Dead Man Walking og The End Of Violence. Mule Variations olli aðdáendum ekki vonbrigðum og fékk kallinn sín önnur Grammy verðlaun fyrir plötuna. Árið 2000 gerði hann svo tónlist við leikritið Woyzeck og var þá enn og aftur í samstarfi við Robert Wilson. Nú í ár kom þessi tónlist síðan út á plötunni Blood Money auk þess sem tónlistin úr Alice frá 1992 kom út ný-upptekin og útsett á samnefndri plötu. Tónlistin á þessum plötum, og þá sérstaklega á Blood Money sem skipar sér í hóp með bestu plötum Waits, sannar það að tónlist Waits verður alltaf betri og betri eftir því sem hann eldist enda er hann einn af örfáum tónlistarmönnum sem heldur alltaf áfram í stað þess að hjakka endalaust áfram í sama farinu og í stað þess að mýkjast með aldrinum verður hann æ grimmari… og betri.
Helstu plötur:
Closing Time (1973) ****
The Heart Of Saturday Night (1974) *****
Nighthawks at the Diner (1975) ****
Small Change (1976) *****
Foreign Affairs (1977) ****
Blue Valentine (1978) ****
Heart Attack & Vine (1980) ***1/2
One From The Heart (1982)***
Swordfishtrombones (1983) ****
Raindogs (1985) ****1/2
Frank's Wild Years (1987) *****
Big Time (1988) ***
The Early Years Vol. One (1991) ****
Bone Machine (1992) ****
Night On Earth (1992) ***
The Early Years Vol. Two (1993) ****
Black Rider (1993) ****1/2
Mule Variations (1999) ***1/2
The Dime Store Novels vol.1 (2001) ****
Alice (2002)****
Blood Money (2002) *****