Fyrst og femst langar mig að vekja upp smá umræðu með þessari grein um stöðu rokksins hér á landi og hvernig gangi hjá hinum ýmsu böndum að koma sér af stað og á framfæri.
Leiðin útúr bílskúrnum er frekar þyrnum stráð einsog staðan er í dag…ef hljómsveitir hafa þá bílskúr til að vera í. Töluverður skortur er á æfingahúsnæði og hlítur það að hamla hinum ýmsu upprennandi tónlistarmönnum að sýna hvað í sér býr. Ég hef heyrt þess dæmi að góðar sveitir hafi leysts upp eftir að hafa misst húsnæði sitt og þarafleiðandi misst dampinn í sköpun sinni, það er eitthvað sem má ekki gerast. Æfingahúsnæði í dag eru frekar dýr og ekki á hverju strái því staðsetning þeirra skiptir gífurlegu máli, varla er hægt að vera í húsnæði uppi í Kópavogi þegar maður býr á Seltjarnarnesi. Lítið sem ekkert er gert fyrir hljómsveitir á stór-Reykjavíkursvæðinu í þessum málum en mögulega væri hægt að borgin gæti tekið sig saman við hin ýmsu samtök (ÍTR, félagsmiðstöðvar, tónlistarskóla oflr) um að koma í gagnið húsnæði sem gæti nýst hljómsveitum í sköpun sinni.
Hljómsveitin sem ég er í stendur frammi fyrir því akkúrat núna að vera húsnæðislaus, við fórum úr fyrra húsnæði því við einfaldlega treystum okkur ekki til þess að vera í því lengur því það var framið innbrot í það og töluverðum vermætum stolið þar á meðal af okkur (Söngkerfi, Upptökutæki, Mixer, Bassaformagnara (12000 kall)). Meðan að það er ekki boðið upp á meira öryggi en þetta er enginn grundvöllur fyrir því að hanga í húsnæði sem þessu. Í þessu húsnæði eru nokkur bönd saman og lifa í nokkurri sátt en náttúrulega getur eitthvað komið uppá einsog þetta og splundrað trausti bandanna á hvort öðru.
“Bransinn” (eins leiðinlegt orð og þetta er) byggist alltof mikið uppá í dag að hafa sambönd, þú kemst ekki á góðan samning nema þú hafir sambönd, kemst ekki nema með virkilegum þrýstingi inná almennilega tónleikastaði án þess að vera með sambönd eða þá að sleikja ras***** á eigandanum (sem flokkast undir samband ;).
Hitt Húsið hefur tekið þessi mál í sínar hendur með Fimmtudagsforleiknum sem eitt það sniðugasta sem ég hef séð gerast í þessum málum. Bönd geta komið sér á framfæri í góðum græjum með hljóðmann og þurfa varla að hafa áhyggjur af neinu öðru nema að spila og jú kannski auglýsa tónleikana. Til að komast inná þessa tónleika þarf að hafa samband við Hitt Húsið og bendi ég þar á vefsíðu þess. Hitt Húsið fær feitt klapp á bakið fyrir þetta og vona ég að þeir haldi þessu gangandi sem lengst.
Þó er hægt að flytja þetta skipulag á hærra plan, samtök sem þessi geta smalað saman efnilegustu böndum landsins og haldið aðeins stærri tónleika með annarri staðsetningu og gert þetta mun veglegra en þetta er. (T.d í lok vetrar, eftir síðasta fimmtudagsforleik).
Tónabær hefur stutt mikið við bakið á upprennandi tónlistarmönnum með Músíktilraunum sem eru ekkert nema gott. Mér fannst mikið um að umræður hérna á Huga hafi snúist um skipulag keppninnar sem hefði mátt bæta en þegar maður hugsar útí það þá er rosalega erfitt að skipuleggja svona keppni, þarf að vera með gífurlegan mannskap í vinnu, treysta mjög mikið á böndin sjálf að þau standi sig sem skyldi með sínar tímasetningar og fleira. Ég ætla ekki að rekja umræðuna sem fór hérna fram eftir síðustu tilraunir en fannst mér þær snúast töluvert mikið um persónulegar árásir á dómnefndina og gremju hljómsveita að tilraununum loknum (hefðu kannski getað staðið sig betur að sínu mati og láta þá vita hressilega af sér á stöðum einsog huga.is).
Ég er að taka upp hanskann fyrir Tilraunirnar já, það lítur kannski út fyrir að ég að hæla þessari keppni í hásterti vegna ágæts gengis okkar í keppninni en svo er nú ekki því við eigum að standa með þessu fólki sleppa svona óþarfa veseni og leiðinlegum umræðum sem sköpuðust eftir síðustu keppni.
Svo ég dragi svona saman meiningu mína með þessari grein í eina setningu…þetta snýst allt um eitt: Kynlíf, <b>frið</b> og rokkogról!.
Höldum þessu áhugamáli í gangi dudes.
Ingi Ókind
irc: ^|dnikO|^
cs: dnikO