Jæja, loksins fengum við þá Survivor áhugamálið. Ég var búin að bíða lengi eftir því og orðin létt pirruð að áhugamál eins og “Handbolti” kæmu inn á undan, en þetta hafðist þó að lokum.
Ég bókstaflega dýrkaði Survivor1, og beið því óþreyjufull eftir Survivor2, en ég get ekki sagt annað en að ég hafi því miður orðið fyrir vonbrigðum. Það er ljóst, að fyrsta Survivor-syrpan var sú sem lagði línurnar og þær næstu eiga bara eftir að verða eftirhermur, en ég vonaðist samt eftir einhverju betru. Ég veit ekki hvað ykkur finnst, en allavegana fannst mér fólkið á eyjunni í Kínahafi einhvern veginn miklu skemmtilegra. Í Survivor 2 eru allir eitthvað svo “venjulegir”, enginn sem sker sig neitt rosalega úr, en í 1 voru týpur eins og Greg (sem talaði við kókoshnetu), Sean (sem kaus fólk í stafrófsröð) og Dirk (sem ákváð að byggja keilusal í sandinum). Eina manneskjan sem mér fannst raunverulega skemmtileg í seinni keppninni var Mike, en hann datt svo óheppilega út fyrir sameininguna. Þetta lítur út eins og stjórnendurnir hafi viljað fá sem litríkasta fólkið í fyrstu seríuna, en í þá seinni voru þeir að reyna að velja “eðlilegt” fólk. En útkoman er því miður ekki nærri því eins skemmtileg.
En þetta getur líka verið bara mitt persónulega álit, þar sem ég sá mest af fyrstu seríunni, og önnur serían er eiginlega bara endurtekning á hinni fyrri, fyrir utan annað fólk og breyttan stað (mér fannst líka eyðieyjan vera miklu meira spennandi staður en óbyggðir Ástralíu, en það skiptir svo sem ekki miklu). En við hverju er svosem að búast, þótt Survivor2 sé kannski vinsælari en Survivor1 var á sínum tíma, á Survivor1 samt alltaf að vera sú sem best verður munað eftir. Þátturinn var virkilega öðruvísi en allt annað sem maður átti að venjast í sjónvarpi (þótt Svíar áttu víst hugmyndina), en nú sjónvarpið manns fullt af raunveruleikaþáttum. Ég held að flestir horfi nú á Survivor2 því að Survivor1 var svo góður, og önnur serían er líka svo miklu betur auglýst. En þessar vinsældir munu sennilega fljótt dala, ég meina, hver á eftir að nenna að horfa á Survivor 6 eða 7?
En samanborið við aðra raunveruleikaþætti er Survivor algjör snilld. Ég er alltaf sofnuð yfir miðjunni á Temptation Island, því að horfa á annað fólk fara á stefnumót með mellum og gráta eftirá er einhvern veginn ekki alveg að virka. Ég er með gervihnattasjónvarp, og get því horft á marga aðra þætti t.d. Big Brother. Sá þáttur er alveg ótrúlega leiðinlegur, sýnt er þrisvar á dag úr einhverju húsi þar sem fólk er látið haga sér eins og fífl, standa á haus í trúðabúning eða eitthvað álíka gáfulegt. En sá þáttur hefur þann kost þó, að hann er í beinni, og áhorfendur kjósa hver vinnur. Ímyndið ykkur bara, á þessari stundu er fólk í um tíu löndum lokað af með ókunnugu fólki í sjónvarpshúsi. Heimurinn er eitthvað sjúkur…
Og ég sá einn þátt af keppninni The Mole, en ég held að sá þáttur sé verstur af öllum.
Þannig að Survivor er enn miklu fremur öðrum raunveruleikaþáttum, en ef þeir vilja ekki verða óspennandi verða þeir að koma inn með einhverjar nýjungar í seríu 3.
Takk fyrir mig
sjoefn7