“Into the scene the air vibrates as ancient flutes announce Her coming – when will we who always space – be very – into the dream enters the wash of tone poems that know no words – sounds that guess no meaning – a striding boy harps electric dissonance fluttering birds of ice – a cacophony of eastern promise which smiles upon the guru og groove…”
Svona hljóða upphafsorðin í umslagi nýjasta afsprengis tvíeykisins Future Sound Of London, The Isness. Í þetta skiptið hafa þeir ákveðið að hafa með í för gamalt höfundarheiti sem þeir notuðu árið 1993 á teknó/ambient plötunni Tales Of Ephidrina, Amorphous Androgynous. Fyrir gamla aðdáendur FSOL kveður við algjörlega nýjan tón á þessari plötu. Þeir hafa hent í ruslið næstum öllum gömlu raftækjunum og rifið sig lausa úr snúrufarganinu. Í staðinn hafa þeir tekið sér í hendur gítar, sítar, flautur, trompet og ýmis ankannaleg hljóðfæri sem sem þeim hefur sennilega áskotnast frá kunningjum frá stjörnunni Síríus. Það er kannski svolítið rangt að tala um þá í tvítölu, því nú hefur uppljóstrast að Gary Cobain er aðal hugmynda- og lagasmiðurinn á þessum diski. Hann er m.a.s. farinn að syngja. Brian Dougans er aðallega í því að halda utan um snúrurnar og raftækin, sem er auðvitað virðingarvert út af fyrir sig. Saman mynda þeir stórkostlega heild, á svipaðan hátt og Rob Playford og Goldie í gamla daga (fyrir þá sem eru vel að sér í raftónlistarsögu).
Hvað hefur gerst? Sagan segir að Gary hafi veikst mikið í kjölfar stífrar áfengis- og eiturlyfjaneyslu og ónæmiskerfið gefið sig næstum algjörlega. Hann lá víst nærri dauða en lífi á tímabili og þunglyndi gerði vart við sig. En þá fór hann í ferðalag um heiminn í leit að innihaldsríkari svörum, og sú ferð leiddi hann til ýmissa andlegra lærimeistara. Hann fór að tileinka sér heilbrigðari lífshætti, fór að stunda jóga, hætti allri áfengis- og eiturlyfjaneyslu, hætti að borða dýr og ólífrænt ræktaðan mat. Smátt og smátt flysjaði hann af sér lög af (rang)hugmyndum sem hann hafði haft um sjálfan sig og komst að því að hann var alls ekki sú persóna sem hann og aðrir héldu að hann hefði verið. Hann fann sitt rétta Sjálf. Nú kærir hann sig kollóttan um veraldlega hluti og sefur á gólfinu í stúdíóinu sínu á meðan Brian hefur fjárfest í penthási á “besta” stað í London.
Aðeins um tónlistina. Platan er í fimm orðum sagt stórkostlegri en orð fá lýst. Ég ætla ekki að orðlengja um hvert og eitt einstakt lag, vil frekar líta á hana sem heild. Ég mæli 100 % með henni fyrir ALLA sem eru með opinn huga, og þá á ég við rafhausana, rokkarana, popparana, flipparana, gamlingjana og alla hina. Stíllinn sver sig í ætt við hippasýru allra tíma, s.s. bestu augnablik John Lennon, Pink Floyd, Donovan, Led Zeppelin, Hawkwind o.fl. o.fl. En samt sem áður er ennþá til staðar þessi dulmagnaða FSOL ”alien weirdness”. Þetta er ekki afturhvarf til gamalla tíma. Þessi diskur er NÚNA. Sumir vilja halda því fram að promo útgáfan hafi verið betri. Gary svarar þeim gagnrýnisröddum með því að hún hafi innihaldið of mikla karlmennskuorku, of mikinn drunga og þyngsli, sem hann vill forðast. Kannski eitthvað sem Íslendingar gætu tekið sér til fyrimyndar?
Umslagið er mjög vel heppnað, súrrealískt að vanda en fallegt. Hvað er fallegra en allsberar konur úti í náttúrunni? Manni er spurn. Verkfræðin á umslaginu er afar nýstárleg, maður togar í annan endann og þá kemur bæklingur út þeim megin en diskurinn hinum megin. Þetta er hrein og pjúr og óspjölluð zschnilld!
Lítil dúfa hvíslaði að kunningja mínum að Gyðjan sé komin og gangi nú um á meðal manna, og fór hún með tilvitnun í löngu dauðan galdramann: ”Do what thou wilt shall be the whole of the law - love is the law, love under will.” Það skal ósagt látið hvort nokkuð er að marka þetta því þessi kunningi minn er lygnari en fjandinn sjálfur.
”Hvaðan komum við og hvert erum við að fara?” spyrja Amorphous Androgynous okkur. Hvað er The Isness? Ég mæli með því að fólk kaupi sér diskinn um leið og hann kemur á klakann, finni sér góðan jógameistara hið snarasta og læri jóga, setjist svo niður í ró og næði og leiti að svarinu. Svarið kemur að innan.
Einkunn: *****/*****