Ég var að lesa slatta af greinum sem byrjuðu út frá grein um hvað 12 tónar væru frábærir og eitthvað dizz út í þrumuna. Gaman að þessu.
Mér fannst skemmtilegast að sjá hvað margir eru trúir “sinni búð” og taka áliti einhvers óþekkts netverja, sem persónulegri árás.
En mig langar að segja eitthvað um plötubúðir og ætla bara að æla þessu útúr mér. Þið reynið kannski að fyrirgefa mér ef þetta er leiðinlegt, eða hrokafullt, eða eitthvað sem ykkur mislíkar, en öllum er velkomið að láta mig óspart heyra það.
Mér hefur alltaf fundist eitthvað rafmagnað við plötubúðir þó þær séu ekkert við mitt hæfi, þ.e. í takt við það sem ég er að leita eftir. Stundum verður það til þess að maður kynnist einhverju stórkostlegu, sem maður hafði kannski ímyndað sér að væri ekkert varið í. Maður hefur kannski ætlað sér að tjekka á einhverju 50 sinnum, en alltaf verið að pæla í öðrum hlutum og látið það bíða.
Margt af því sem er mér kærast í dag var fyrir framan nefið á mér í fleiri ár, án þess að ég sæi sérstaka ástæðu til kanna málið.
En hvað búðirnar sjálfar varðar finnst mér skipta töluverðu máli hvernig þær eru mannaðar og einnig hvernig aðstaða til hlustunar er. Ég nenni til dæmis eiginlega aldrei að hlusta í stórverslunum vegna þessa. Ég þoli ekki þegar ég get ekki spólað yfir kafla í lagi, eða til baka, o.s.frv. Play, stop og Fwd nægir mér ei.
Fyrsta plötubúðin sem ég man eftir að hafa komist í tilfinningalegt samband við var GRAMMIÐ. Það var vegna þess að þar fann ég fullt af tónlist sem mér fannst spennandi og fólkið sem var að vinna þar, var yfirleitt ægilega næs, sem hjálpar líka.
Eftir Grammið voru engar tilfinningar lengur alveg þangað til ég kynntist Hljómalind í Austurstræti. Þar var gaman að vera. Maður gat hangið þar tímunum saman. Alltaf jafn spennandi.
Hljómalind hætti eiginlega með mér þegar hún flutti úr Austurstrætinu. Veit ekki hversvegna það var. En allt í góðu samt. Hef samt aldrei náð sambandi við hana eftir það. Við erum bara vinir í dag (hittumst aldrei).
Þegar þarna var komið í sögu plötubúða fyrr og nú var ég orðinn frekar vonlítill um að komast aftur í samband.
En eins og þið vitið þá hefur enginn náð langt með því að gefa upp vonina og þó ég héldi að ég hefði tapað í þessum leik og hér eftir yrðu plötubúðir álíka spennandi og aðrar búðir þá vissi ég ekki fyrr en allt í einu ég var kominn inn í plötubúð og kominn í mitt alvarlegasta samband fyrr og nú.
Maður heldur alltaf að maður viti allt og sjái fyrir endann á öllum hlutum. Maður er svo gáfaður og getur skýrt allt með ofboðslega gáfulegum útskýringum. En svo fattar maður stöku sinnum hvað maður veit alltaf lítið. En það er gott að eiga í sambandi við plötubúðir, fyrr og nú.