Nightmares On Wax er orðin ansi langlíf í tónlistarbransanum því hún var stofnuð árið 1988 í Jórvíkurskíri á Englandi og hefur starfað samfleytt til dagsins í dag. Reyndar er ekki hægt að tala um hana sem hljómsveit lengur því töluvert er síðan Kevin Harper sagði skilið við George Evelyn sem síðastliðin ár hefur haldið henni gangandi einn síns liðs.
Á sínum tíma þóttu þeir Evelyn og Harper meðal björtustu vona raftónlistarinnar í Bretlandi og platan ‘A Word of Science: A First and Final Chapter’ þótti gefa fögur fyrirheit. Það var þó ekki fyrr en Harper tók feril sem plötusnúður fram yfir hljómsveitina að Nightmares On Wax komst á almennilegan skrið. Platan ‘Smoker’s Delight' markaði þannig nýtt uphaf á ferli Evelyn og um leið raftónlist eins og hún lagði sig.
Fram að þessu hafði Nightmares On Wax verið þekkt fyrir teknó tónlist í anda flestra listamannanna hjá sama útgáfufyrirtæki, Warp Records. Á ‘Smoker’s Delight' var hins vegar allt annað uppi á teningnum og Evelyn hrærði saman naumhyggju, jazz, fönki og smá geðveiki, þannig að útkoman var meira í líkingu við gamaldags hip-hop heldur en teknó. Reyndar voru ekki allir tilbúnir að samþykkja að hér væri á ferð brautryðjandi tónlist en hins vegar sá hún til þess að hlýleg og tilfinningaþrungin raftónlist náði almennilega upp á yfirborðið.
Þessi tegundar raftónlistar, sem einnig má heyra vott af í verkum Jimi Tenor, Boards of Canada og Two Lone Swordsmen hafði lengi staðið í skugga harðari danstónlistar en þriðja plata Nightmares On Wax, ‘Carboot Soul’ sýndi fram á að hún átti alveg jafn mikið erindi til fólks og teknó. Hvort sem George Evelyn er frumkvöðull eða síðasta brotið í púsluspilið er það sjálf tónlistin sem skiptir mest máli. Eftir allt saman er það hún sem aðdáendur Nightmares On Wax biðja um og vonandi mun Evelyn verða við kalli þeirra fljótlega.
-
Tékkið meira á þessu á http://www.freebox.com/arnivida