Selma Björnsdóttir er fædd í tvíburamerkinu; 13.júní 1974. Hún ólst upp í Árbænum og síðar Garðabæ í hópi fjögurra systra, sem allar hafa lagt fyrir sig söng eða dans: Guðfinna(21) dansari (lék reyndar með Selmu í Grease), Hrafnhildur(27) óperusöngkona og Birna(29) dansari.
Selma kom fyrst fram í Örkinni hans Nóa í Íslensku óperunni þegar hún var 10 ára og árið eftir söng hún í óperunni Carmen og lék í Kardimommubænum í Þjóðleikhúsinu. Reyndar steig hún enn fyrr á svið, sem álfadís í Öskubusku, barnakórinn í Garðabæ flutti hana. Hún var í honum í 6 ár, til 12 ára aldurs.

Eftir grunnskólann fór Selma í Verzló. Þar hafði hún sig lítið í frammi; samdi reyndar dansa fyrir eitt nemendamótið, en sló rækilega í gegn og sigraði í Verzlóvælinu árið 1993 (vinkona sem hafði heyrt hana syngja í sturtu skráði hana til keppni!).Þar með var hafinn ferill söngkonunnar Selmu Björns, en hún söng m.a. með hljómsveitinni Fantasíu í tvö ár.

Árið 1995 kom stóra tækifærið. Þá fékk Selma hlutverk Rósalíu í uppfærslu Þjóðleikhússins á West Side Story og eftir það varð ekki aftur snúið. Síðan hefur hún leikið og samið dansa og stjórnað þeim í fjölda söngleikja í stærstu leikhúsum Íslands, t.d. Rocky Horror Show (Colombia, þar fór hún sífellt um sviðið á línuskautum, söng og dansaði),
Jesus Christ Superstar, The Wall, Cats, Saturday Night Fever, Dirty Dancing, Latibær(Solla stirða), Sirkus Skara skrípó, Hið ljúfa líf, Augun þín blá, Meiri gauragangur, Litla Hryllingsbúðin og Grease í Borgarleikhúsinu þar sem hún lék Sandy við metaðsókn.
Hana hefur því ekki skort leik- og sönghlutverk þó að hún hafi hvorugt lært.
Hún hefur þó alltaf verið á leiðinni í leiklistarskóla en haft svo mikið að gera að ekkert hefur orðið úr því. Hún var hinsvegar í dansnámi hjá Hafdísi Jónsdóttur í 5 ár.

Starfsmenn Sjónvarpsins höfðu samband við Selmu og buðu henni að
taka þátt í Eurovision. Hún fékk Þorvald Bjarna Þorvaldsson
(Todmobil og fl.) til að semja lag við texta sem hún hafði samið. Þau höfðu samið tónlist og texta fyrir kvikmyndina Sporlaust saman svo hún treysti honum vel. Dansinn við lagið samdi svo Selma ásamt Birnu systur sinni.

23.maí 1999, héldu Selma, Daníel, Brynjar, Rúna, Hansa, Stefán, Björk besta vinkona Selmu, systir hennar og pabbi hennar, ásamt fulltrúum Sjónvarpsins, Skífunnar, blaðamönnum og blaðafulltrúum áleiðis til Jerúsalem en Rúnar Freyr unnusti hennar Selmu kom seinna vegna þess að hann þurfti að leika í RENT.
Þau tóku nokkrar æfingar þar ytra, fóru á blaðamannafundi, skoðuðu
grátmúrinn og böðuðu sig í Dauðahafinu. Hitinn fór hæst upp í hvorki
meira né minna en 49° í forsælu.

Selma vakti mikla hrifningu fjölmiðla og umboðsmanna plötu“risa” þegar hún kom fram í Ísrael. Mörg þekkt erlend fyrirtæki leituðu samninga við hana eftir söngvakeppnina.


Aðaláhugamál Selmu, auk þess að syngja, leika og dansa, eru
leikhúsferðir, kvikmyndir, að ferðast og góður matur.

Eftirlætis:
söngvari:……………………George Michael
hljómsveit:…………………Garbage,Cardigans og U-2
kvikmyndaleikari:…………Gary Oldman
sviðsleikari:………………..Rúnar Freyr Gíslason (kærastinn hennar)
rithöfundur:…………………William Shakespeare
staður á Íslandi:…………..heima
land(annað en ísland):….“heit” lönd
matur:……………………….humar
litur:………………………….blá