Fjórða plata hljómsveitarinnar Á móti sól kemur út á föstudaginn.
Gripurinn, sem fengið hefur nafnið “Fiðrildi” er reyndar bara önnur plata söngvarans, Magna, sem var ráðinn til að taka við af forvera sínum eftir að hafa verið “uppgötvaður” í söngkeppni framhaldsskólanna þar sem hann keppti alls þrisvar sinnum. Í samtali við Fókus ræðir Magni um FM hnakka og ullarhúfur, nýju plötuna og þá stóru stund þegar fundum hans og Bruce Dickinson bar saman.

Popparar eru rokkarar
“Þú afsakar, ég er mjög hás. Var að syngja alla helgina,” segir Magni rámri röddu þegar blaðamaður hittir hann á mánudagsmorgni. Hann bætir því við að hæsið sannfæri hann um að hann hafi staðið sig vel. “Ef maður ætlar ekki að gera þetta almennilega, þá á maður bara að þegja. Þess vegna öskra ég mig hásan. En ég er fljótur að jafna mig, verð fínn á morgun. Við vorum að spila í Hvíta húsinu á Selfossi á laugardaginn. Klukkan þrjú áttaði ég mig á því að ég þyrfti ekkert að syngja aftur fyrr en eftir viku. Við gáfum þess vegna í, tókum erfiðari lög, öskruðum meira og héldum áfram að spila þangað til var slökkt á okkur.”

Þrisvar í söngkeppni framhaldsskólanna
Magni segir að nýjasta plata sveitarinnar, Fiðrildi, sé sú besta til þessa. “Þetta er mjög góð plata þér að segja. Við erum mjög hreyknir af henni. Hún inniheldur ellefu lög og meira ”kántrí“ en áður. Við erum svo hrifnir af því strákarnir. Það má eiginlega segja að þetta sé eðalpopp með kassagítarívafi.” Magni hefur verið söngvari sveitarinnar í rúm tvö ár en hún hefur verið starfandi talsvert lengur. “Sá sem var á undan mér heitir Björgvin, kallaður Bjöllinn. Ég þekki hann ekki meira en það. Hef hitt hann þrisvar á ævinni, fínn strákur ábyggilega. Hann ákvað að snúa sér að öðru og þá hringdu strákarnir í mig. Ég þekkti þá ekki neitt en þeir höfðu séð mig í Söngkeppni framhaldsskólanna í eitthvert þessara þriggja skipta sem ég tók þátt. Það þekkti mig reyndar enginn ár frá ári. Í fyrsta skiptið var ég með
hár niður á bak en það náði bara niður að eyrum í annað skiptið. Í þriðja skiptið lét ég mér nægja að syngja bakrödd. En ég er sem sagt búinn að ljóstra því upp núna að þetta var allt sami maðurinn,” segir Magni og hlær.

Eins og að vera frægur á ættarmóti
Honum líkar vel að vera poppari á Íslandi. “Ég held það sé miklu skemmtilegra að vera poppari en rokkari á Íslandi. Ef þú hugsar um þessa erlendu rokkímynd þar sem hljómsveitirnar ferðast um í rútum, skemmta sér allar helgar og spila fyrir framan öskrandi fólk þá sérðu að það eru popphljómsveitirnar sem eru í þessu hlutverki á Íslandi. Ég er búinn að spila á hverjum einasta stað á Íslandi nema nokkrum á Vestfjörðum. Rokksveitirnar spila bara á Grandrokk og ganga þess á milli um með lopahúfur og gera ekki neitt.” Þrátt fyrir að hafa spilað út um allt land nánast linnulaust í tvö ár vill Magni ekki kannast við að vera frægur og segist nánast aldrei verða fyrir ónæði. “Ég hef lítið lent í því að fá símtöl frá ókunnugum og þess háttar enda er ég ekkert frægur. Það er miklu þægilegra. Ef ég væri í Birgittu sporum væri ég löngu búinn að fleygja mér út um glugga. Það er enginn frægur á Íslandi. Birgitta er náttúrulega bara ”phenomenon“, eiginlega eins og Bó var. Hér þekkja allir alla og allir eru skyldir öllum. Þetta er eiginlega eins og að segjast vera frægur á ættarmóti.”

Ef Fókus væri maður…
Plötur íslenskra poppsveita fá oft nokkuð slæma útreið í fjölmiðlum. Á móti sól hefur ekki farið varhluta af því og skömmu eftir að síðasta plata sveitarinnar, ÁMS,hafi víðast hvar fengið góða dóma. Skömmu eftir að hún kom út birtist þó dómur í Fókus undir yfirskriftinni “Merkilegt metnaðarleysi”. Magni segist þó ekki eiga erfitt með að kyngja slæmri gagnrýni. “Það hafa allir rétt á að hafa sína skoðun. Ég trúi bara ekki á það konsept að fólk þurfi annað hvort að vera FM hnakkar eða ganga með ullarhúfu. Maður á að hlusta á sem flest en ef þér finnst einhver tónlist leiðinleg áttu bara að hlusta á eitthvað annað og halda kjafti. Fókus hefur aldrei verið vinur poppsveitanna og ef Fókus væri maður væri hann búinn að láta berja sig svona 50 sinnum af hverri einustu popphljómsveit á Íslandi.”

Trommusett í hraðlest
Í vikunni ætlar Á móti sól að taka upp myndband við lag sitt Allt sem hefur töluvert verið spilað undanfarnar vikur. “Myndbandið verður mjög skrítið enda er leikstjórinn stórfurðulegur maður. Það er best að segja sem minnst en þetta verður einhvers konar Palli var einn í heiminum konsept, götusópari og appelsínugulur vinnugalli. Restin verður bara að koma í ljós.” Umrætt myndband er það þriðja sem Guðjón … er fenginn til að leikstýra. “Guðjón fékk þá hugmynd að fara til London og taka upp myndband við lagið ”Drottningar“ eftir að hafa gefist upp á að bíða eftir góðu veðri á Íslandi,” segir Magni og hlær. “Hann hringdi bara í okkur einn daginn og sagði: ”Jæja, nú förum við til London!“ Svo við drifum okkur til London og spiluðum alls staðar þar sem má ekki spila, til að mynda í hraðlestinni sem gekk frá flugvellinum. Lestarvörðurinn lét sér bara fátt um finnast þegar við byrjuðum að stilla upp trommusetti í lestinni hans. Bretar eru mjög ”líbó“ þjóð.”

Excuse me Mr. Dickinson
Það var einmitt á leiðinni til Lundúna sem Magni hitti átrúnaðargoð sitt til margra ára, Bruce Dickinson, söngvara Iron Maiden. Sá er flugmaður hjá Iceland Express eins og frægt er orðið. “Við sátum í flugvélinni og vorum að fá okkur bjór þegar rótarinn pikkaði í mig og hvíslaði: ”Þarna er Bruce Dickinson!“ Þá stóð hann bara og var að reyna við flugfreyjurnar, hafði flogið til Íslands en var á frívakt íbakaleiðinni. Hann var að vísu í gallanum, öllu flugmannadressinu. Ég var mjög lengi að mana mig upp í að spjalla við hann. Var eiginlega eins og lítil stelpa á Britney Spears tónleikum: ”Excuse me Mr. Dickinson.“ Ég efaðist ekki um að þetta væri hann í eina mínútu enda er hann eitt af goðunum. Ég spurði hvort við mættum taka viðtal við hann fyrir SkjáEinn en það mátti ekki af því hann var í flugmannabúning. Hann má ekki vera bæði söngvari og flugmaður, það stendur í samningnum hans. En ég fékk eiginhandaráritun á ælupokann minn sem er núna á heiðursstað inni í glerskáp heima.”
<br><br><b><i><u> Sendið mér </b></i></u> <a href="http://www.hugi.is/ego/bigboxes.php?box_type=skilabodaskjodan&page=new_msg&to_user=Pemma“>Póst</a>

<b><i><u>Ég er Ofurhugi Nr. 1 á </b></i></u> <a href=”http://www.hugi.is/hp">Harry Potter</a