Það hefur vakið athygli mína undanfarið að þegar tónlistargagnrýnandi Fréttablaðsins, Birgir Örn Steinarsson, tekur popptónlistaplötur fyrir er hann vægast sagt ósanngjarn og fordómafullur. Ég hef ekki látið þetta fara í taugarnar á mér, þangað til núna.
Tónlistargagnrýnandi Fréttablaðsins sá ástæðu til að ljúga beint í gagnrýni sinni blaðinu í dag. Orðrétt stendur:
“Sú vitleysa að stúlkurnar semji lög sín sjálf hefur verið á kreiki en leiðréttist hér með. Þær eru bara í vinnunniþessar… og sú vinna felst ekkert í því að sitja við píanóið heima hjá sér”
Ef farið er að www.allmusic.com, sem er besti upplýsingavefurinn um tónlist, má sjá að þær eru skráðar fyrir hverju einasta lagi á plötunni nema einu. Einnig er minnst á það í textanum um sveitina að þær hafi byrjað að semja, í samstarfi með öðrum, strax á fyrstu plötunni, ‘One Touch’.
Eins og fyrr segir er þetta ekki í fyrsta skipti sem ég sé óvönduð vinnubrögð hjá Birgi. Þegar hann gagnrýndi nýjustu plötu Britney Spears, ‘In The Zone’, mátti glögglega sjá að hann vissi ekkert hvað hann var að tala um. Því miður er löngu búið að henda eintakinu af Fréttablaðinu sem sú gagnrýni birtist í þannig að ég get ekki komið með dæmi þaðan.
Miðað við skrif hans um popptónlist má glögglega sjá að hann hefur hvorki vit, né áhuga á viðfangsefninu og verður því að teljast óhæfur með öllu að fjalla um þessa tegund tónlistar. Það getur vel verið að hann hafi vit á rokktónlist, og ætla ég ekkert að draga það í efa, en hann hefur ekkert vit á popptónlist.
Góðar stundir.
Góðar stundir.