Söngvakeppni Samfés
Hvenær: 25. janúar 2002 - 16:00:00
Hvar: Laugardalshöllini
Aldurstakmark: 13 ára
Aðgangseyrir: 700 kr.
Söngkeppnin er orðin einn af stærri og vinsælli viðburðum Samfés. Áhuginn fyrir keppninni verður alltaf meiri og meiri með hverju árinu sem líður og hafa skipuleggjendur hennar þurft að færa hana um set nokkrum sinnum til að sinna eftirspurn.
Það var Félagsmiðstöðin Þróttheimar sem hóf að halda keppnina sem þá var haldin í Danshúsinu í Glæsibæ árin 1992-1993, en þá var hún með öðru sniði en hún er í dag því bæði var keppt í einstaklingsatriðum og hópatriðum. Fyrirkomulaginu var þannig háttað að haldin voru fjögur kvöld, þrjú kvöld til undankeppni og svo úrslitakvöld. Rúmlega þrjátíu atriði komu jafnan fram í heildina, 16-17 einstaklingar og 15 hópatriði. Fyrsta keppnin var haldin í samstarfi við Aðalstöðina sem síðan útvarpaði keppninni beint, en önnur keppnin var í samstarfi við Bylgjuna sem gerði klukkustundar langan útvarpsþátt sem innihélt átta bestu lögin.
Neikvæðar raddir voru á sveimi um það að ekki væri forsvaranlegt að halda unglingaskemmtun á skemmtistað og færðu því keppnishaldarar keppnina á sinn heimavöll, í húsnæði félagsmiðstöðvar Þróttheima. Keppnin var haldin þar árin 1994 og 1995. Aðsóknin var mikil og sóttu á hvert kvöld á bilinu 150-200 manns og var ljóst að flytja þyrfti keppnina í stærra húsnæði. Hótel Ísland, eða Broadway eins og við þekkjum staðinn í dag, varð fyrir valinu enda dugði vart annað til. Þá var fyrirkomulaginu breytt þannig að keppnin fór fram á einu kvöldi í stað fjögurra.
Á Broadway var keppnin haldin árin 1996, ´97 og ´98 við frábærar undirtektir. Er mest var á Broadway voru u.þ.b. 1800 manns á staðnum. Hafði starfsfólk Þróttheima séð um skipulagningu keppninnar fram til þessa.
Árið 1999 tók Félagsmiðstöðin Garðalundur að sér að skipuleggja keppnina og hefur gert það síðan. Fyrstu tvö árin notuðu Garðbæingar íþróttahúsið í Ásgarði, en þegar mest var voru 1800 áhorfendur og komust færri að en vildu. Þá var ákveðið að halda keppnina í enn stærra húsnæði og kom varla neitt annað til greina en Laugardalshöllin. Þar hefur keppnin verið haldin síðastliðin tvö ár, en ný aðsóknarmet hafa verið slegin þessi tvö ár þar sem í ár voru 2400 manns á keppninni og 2700 manns árið áður. Nú síðast var keppnin haldin á laugardegi og er talið að það hafi haft nokkur áhrif á aðsóknina í ár.
Þessi tvö ár sem keppnin hefur verið haldin í Höllinni hefur sjónvarpsstöðin Popptíví verið í samstarfi við Samfés, en þeir hafa tekið keppnina upp og klippt saman klukkustundar langan þátt og sýnt á stöðinni. Einnig hefur Samfés gefið út myndband með öllum keppendum í gegnum árin og síðustu tvö ár hefur geisladiskur verið gefinn út með útvöldum lögum sem unglingunum hefur gefist færi á að kaupa. Ekki hafa unglingarnir þó nýtt sér þennan möguleika eins og talið var að þeir myndu gera.
Heimildir: www.samfes.is
kv
Bjössi