Fyrsta plata íslensku rokksveitarinnar Leaves, sem nefnist “Breathe”, er talin meðal þeirra 50 bestu sem komið hafa út á árinu í heiminum. Þetta kemur fram í ársuppgjöri í desemberhefti tímaritsins “Q”. Plata “Leaves” er eina íslenska platan á þessum 50 platna lista en tvær aðrar sveitir frá Norðurlöndunum eiga þar plötur, sænsku sveitirnar The Hives og Soundtrack of our Lives.
Í umsögn um plötuna er Leaves sögð hin íslenska Doves og að lögin á plötunni séu hvert öðru betra, mikil að umfangi og hreint ótrúlega grípandi. Tónlist sem eigi einkar vel við á tímum þegar Coldplay sé mál málanna. Eins og vant er orðið fylgir jafnframt með desemberhefti Q geislaplata sem inniheldur brot af því besta frá árinu að mati blaðamanna tímaritsins. Inniheldur platan fyrir árið 2002 18 lög sem öll er að finna á plötum sem prýða ofannefndan árslista. Þar á meðal er lagið “Catch” með Leaves, sem var þriðja smáskífa sveitarinnar. Hann er ekki amalegur félagsskapurinn sem Leaves er í á umræddri plötu því þar eiga einnig lög Coldplay, U2, David Bowie, The Hives og Moby.
Leaves er þessa dagana á hljómleikaferð um Evrópu og gaf á dögunum út fjórðu smáskífuna af plötunni Breathe, ballöðuna “Silence”.
Björn Þór - bjorn@internet.is