1. kafli Önundur hét maður. Hann var Ófeigsson burlufóts Ívarssonar beytils. Önundur var bróðir Guðbjargar, móður Guðbrands kúlu, föður Ástu, móður Ólafs konungs hins helga. Önundur var upplenskur að móðurætt en föðurkyn hans var mest um Rogaland og Hörðaland. Önundur var víkingur mikill og herjaði vestur um haf. Með honum var í hernaði Bálki Blængsson af Sótanesi og Ormur hinn auðgi. Hallvarður hét hinn þriðji félagi þeirra. Þeir höfðu fimm skip og öll vel skipuð. Þeir herjuðu um Suðureyjar...