Þau sátu tvö, hlið við hlið, við strendur fjarlægs lands, óralangt í burtu í tíma og rúmi. Langt frá skammdeginu sem umlykur hinn mannlega heim horfðu þau á sólsetrið saman. Himininn var ofinn úr loforðum sem ekkert skyldi granda þó sólarroðinn viki fyrir stjörnunum því hvert ljós himinsins var endurskin augna þeirra. Kuldi hafdýpisins, botnlausa og dimma, var fjarlægur, sjávarflöturinn sléttur og rúbínrauður, ekki bærðist hár á höfði. Öldurnar teygðu sig til þeirra en hörfuðu jafnskjótt...