1. kafli Það er upphaf á sögu þessari að Hákon konungur Aðalsteinsfóstri réð fyrir Noregi og var þetta á ofanverðum hans dögum. Þorkell hét maður; hann var kallaður skerauki; hann bjó í Súrnadal og var hersir að nafnbót. Hann átti sér konu er Ísgerður hét og sonu þrjá barna; hét einn Ari, annar Gísli, þriðji Þorbjörn, hann var þeirra yngstur, og uxu allir upp heima þar. Maður er nefndur Ísi; hann bjó í firði er Fibuli heitir á Norðmæri; kona hans hét Ingigerður en Ingibjörg dóttir. Ari,...