Gleymt lykilorð
Nýskráning
Forsíða

Notendur

Hið íslenzka ástand - Partur DCLXVI (7 álit)

í Ljóð fyrir 15 árum, 7 mánuðum
Eyða, eyða! Eyddu meira! Ekki vera kjarklaus bleyða. Jeppa skalt svo stoltur keyra með vasafylli af engu. Kaupa, kaupa! Kaupa og hlaupa! Keyptu segðir lygalaupa. Vín svo skalt þú reifur staupa með hjartafylli af græðgi. Flýja, flýja stjórn nýja. Fólk vill nú að svikum ýja. Landann skalt þú þreyta og lýja með samviskufylli af (s)aur.

Hann (6 álit)

í Ljóð fyrir 15 árum, 7 mánuðum
Í svita girndar þinnar leggur þú fullnægt höfuð á bringu mér. Forviða segir þú að þar heyrist ekkert (Nei, því hjarta mitt slær í brjósti annars manns.) Í bríma ástar þinnar horfir þú hugfanginn í augun á mér. Undrandi segir þú að þar sjáist ekkert. (Jú, í raun fel ég þar spegilmynd hans.) Í vökva sorgar þinnar kyssir þú niðurbrotinn líflausa hönd mína. Sorgmæddur segir þú að framar verði ekkert. (Jú, hún er ódauðleg, ást mín til hans.)

Hið ódauðlega (8 álit)

í Ljóð fyrir 15 árum, 9 mánuðum
Á fölbleikum akri standa ferhyrndar ær með augu svört. Á stórri skel stendur nakin mær, feimin en björt. Á mjúkum steini liggur bráðnandi úr, tímalaust og öskrandi maður á brú gerðri úr múr um bleksvart haust. Í málverki miðju stend ég og nýt þessa alls á meðan heimurinn utan rammans riðar til falls.

Til sölu (18 álit)

í Ljóð fyrir 15 árum, 9 mánuðum
Andlitslyft kona á besta stað í lífinu með sérinngangi og tvískiptum glerjum. Farið er inn í teppalagt hol þar sem skemmtilegir hlutir gerast. Tegund : Hvítur millistéttarkvenmaður. Upphitun : Já takk. Stærð : 170 cm. Byggingarár : 1968. Áhvílandi : 2 fyrrum eiginmenn. Höfum við ekki öll okkar verðmiða?

Allt í öllu, ekkert í neinu. (2 álit)

í Ljóð fyrir 15 árum, 10 mánuðum
Undir fjögurra ára augnlokum hvílast hugar í mótun sem öskra af mætti en fá engu breytt sökum reynsluleysis. Undir þrítugum augnlokum hvílast hugar í mókum sem öskra ekki, þótt það megi, sökum afskiptaleysis. Undir níræðum augnlokum hvílast hugar á hækjum sem öskra ekki, endar hlustar enginn, sökum æskuleysis.

Fæðing konu (10 álit)

í Ljóð fyrir 15 árum, 10 mánuðum
Þar kom kallið. Kvalin kona kveður mig til sín. Gríp með mér kyngervi, kökukefli. Sæll herra Heimur! Ég er komin með mitt eina enn. Sýg lífsins vökva úr þrýstnum brjóstum, kona á konu. Ligg á barmi móður, móðir á barmi áfalls. Sæll herra heimur! Ég er kona með órökstuddar tilfinningar. Vonsvikinn faðir virðir fyrir sér spottalausa veru. Pakkar í flýti vélsögum, kvennafarssögum . Sæll herra heimur! Ég er kona og ég kýs að vera með ….

Lífið (3 álit)

í Ljóð fyrir 15 árum, 11 mánuðum
Kortalaus á lífsins krossgötum. Sigurviss maður stendur á þeim miðjum. Fyrirgefðu herra, í hvaða átt er hamingjan ? ,,Hamingjan er ekki ákvörðunarstaður heldur hugarástand.“ Alveg er það eftir mér að lenda á svona rugludalli. Ráðvillt á rúmsjó ástarinnar. Brosandi kona siglir þar af öryggi. Fyrirgefðu frú, hvern á ég að elska ? ,,Að elska sjálfan sig er mikilvægast alls„ Nei, hættu nú alveg, var verið að rýma Klepp? Einmanna á dánarbeði Enginn til að hæðast að. Fyrirgefðu drottinn, hvert er...

Mitt sumar (1 álit)

í Ljóð fyrir 15 árum, 11 mánuðum
Það var mitt sumar, það var þitt sumar er við runnum saman í eitt tvö hikandi hjörtu, tveir glaðbeittir munnar, fjögur ástfangin augu. Mitt varð að þínu, þitt að mínu þetta sumar. Sem eitt elskuðumst við undir himni hinnar langlífu sólar uns eitt varð að tvennu.

Boðhættu (2 álit)

í Ljóð fyrir 16 árum, 8 mánuðum
Keyrðu mig blíðlega inn í sólarlagið, snertu læri mitt varlega. Horfðu djúpt í tárvotu augun mín, segðu mér að þú elskir mig ekki. Fjarlægðu hjartað úr brjósti mér, stígðu á það með bros á vör undir vorsólinni sem fordæmir þig.

Á Arnarneshæðinni (8 álit)

í Ljóð fyrir 16 árum, 9 mánuðum
Á Arnarneshæðinni er verið að kreditfæra mann Og fólkið fær far með einkaþotunum til þess að horfa á hann. Það eru stýrivextir og hiti og Davíð er órór og grár Þetta er gjaldþrota maður með lítið veski og ekkert hár. Og drengur með verðbólgin augu segir við mig : Skyldi manninum ekki leiðast að láta kreditfæra sig ?

Íslenskt vor (0 álit)

í Ljóð fyrir 17 árum, 8 mánuðum
Bústnar og sællegar býflugur. Einn vesæll geitungur, öskrandi smástelpur. Hálsmál úr vöffum og berir leggir. Ástleitnar meyjar og blístrandi steggir. Glampandi sól og skólaslit grasið og laufin í grænum lit. Óvarið kynlíf og börn undir beltum við ölverði bölvum og ísana meltum. Börn á hjólum tveimur til fjórum mæður á róandi og þrem stórum bjórum. Eldhnöttur gulur sem aldrei sests af hagléli í maí við eigum mest.

Er afbrýði ekki dauðasynd? (1 álit)

í Ljóð fyrir 17 árum, 8 mánuðum
Enn einn dagurinn, ótal vonir brostnar Enn einn dagurinn, enginn maðurinn. Enn ein ávalt ein í heimi fullum af tvennum. Fullum af pörum, pörum að kyssast, pörum sem flissa Hættið að faðmast! Hættið að elskast! Fólk er að deyja ég er að deyja en ykkur er sama. Þið hafið hvort annað.

Ljóð (2 álit)

í Ljóð fyrir 18 árum, 7 mánuðum
Orð og rím orð og stafir sérhljóðar og stuðlar glaðir. Höfuðstafir. Tilfinning í gervi orða ástríða og þjáning morða. Sonnetttur, stökur ljóð eða kvæði kannski hvorugt en aldrei bæði. Að ríma, að skapa að semja. Að hrína, að tapa, að emja. Innrím og endarím öllu er flaggað en Jónasi og Tómasi verður ei haggað. Að skrifa með hjartans blóði að merkja með vökva augans það er lóðið, það er ljóðið.

Danmörk (1 álit)

í Ljóð fyrir 18 árum, 8 mánuðum
Elsku jóti, málaðu af mér broslega skopmynd Kæri bauni, teiknaðu mig í kapatalískum darraðadansi, strauandi rauðglóandi kreditkortið. Ég lofa að þjóð mín mun hundsa danska daga í Hagkaupum. Ég er ekki spámaður í mínu föðurlandi.

Þú (2 álit)

í Ljóð fyrir 18 árum, 8 mánuðum
Þú. Þessi óslökkvandi þrá sem æðir um æðar mínar. Þú ert líf mitt og yndi. Þú. Þessi hömlulausi barningur hjartans í brennandi brjósti mínu. Þú ert sorgir mínar og sársauki. Þú. Þessi beisku og blikandi tár sem brenna andlit mitt. Þú ert fæðing mín og gröf mín. Þú ert skjól mitt. Þú ert áttavitalausar óbyggðir mínar. Þú ert mér allt. Þú ert mér einskis virði.

Að deyja (2 álit)

í Ljóð fyrir 18 árum, 9 mánuðum
Andlit á síðum Morgunblaðsins. Ástvinir minnast góðra eiginleika minna, skrifa niður á blað með bleki úr tárum. Fólk veltir fyrir sér örlögum mínum á meðan það baðar ásjónu mína upp úr morgunkorni og mjólk. Af moldu er ég komin.. Grátandi fólk á titrandi bekkjum leiðir hugann að eigin endalokum. Hlæjandi les minningargreinar á meðan ég bíð þess að verða af mold.

Skin (1 álit)

í Ljóð fyrir 18 árum, 9 mánuðum
Skin Sólin skín af samviskusemi. Gulir geislar hennar glæða hverfið áður óþekktu lífi. Sólin skín af samviskusemi. Nærir nærliggjandi gróður og nálægar sálir. Sólin skín af samviskusemi í öllum heimsins hjörtum nema hans.

Hví? (1 álit)

í Ljóð fyrir 18 árum, 9 mánuðum
Hví að vera mannvera? Til að þjást? Finna ást? Tapa ást? Til að græða líf? Hví að finna til? Til að læra að meta allt það sem er betra en sorg og tár.

Von og vor (3 álit)

í Ljóð fyrir 19 árum
Vonin um hlæjandi vorið vaknar í hnédjúpum skafli. Blíð vonin hefur mig borið og blessað með draumanna afli. Vonin um brosandi gróður vaknar við frostbit og kul. Voldugur vorsins óður, kallar á blómin gul. Vonin um sólina og varmann vaknar við beinbrot og ís. Ef vonin mín deyr í gifsi er voðinn vís…

Án titils (6 álit)

í Ljóð fyrir 19 árum, 2 mánuðum
Sárt er að sakna sannra vina. Vont er að vakna verandi án þín. Ljúft er að líta til liðinna tíma, ég sakna þín.

Sálumorð (1 álit)

í Ljóð fyrir 19 árum, 2 mánuðum
Ó, hve mjög ég hata helvíti og þig, Líkaminn nær bata en hvað með mig? Eitt sinn þér ég unni af öllum krafti og mætti já eitt sinn það ég kunni þar til einn dag, því ég hætti Er hönd svo heit og skjálfandi skall á vanga mínum Sótillur, blautur, bölvandi flæddi blóð úr vanda þínum. Ringluð og laus við vitið mín fyrsta hugsun þú. Samvisku minnar var bitið hvað hafði ég gert nú? Ó, hve mjög ég hata örin mín og þig Líkaminn nær bata en hvað með mig?

Karlmenn (2 álit)

í Ljóð fyrir 19 árum, 3 mánuðum
Væla og veina viðstöðulaust reyna að gera hár mín grá. Get ekki, kann ekki að skilja þá. Hvað er það sem þeir vilja? Nei það þarf ekki að spyrja… Þeir hugsa eitthvað, já en ekki með því sem er höfðinu á…

Reiði (3 álit)

í Ljóð fyrir 19 árum, 9 mánuðum
Þrái að elska þig, umlykja sál þína halda í hönd hjarta þíns. “Aðgangur bannaður!” öskrar rauðeygt skrímsli. Það sló eign sinni á anda þinn og innréttaði með heift.

Kyndauði (2 álit)

í Ljóð fyrir 19 árum, 11 mánuðum
Skoða stjörnubjartan himinn meðan þú athafnar þig. Þrái að sál mín sé ein þeirra. Þú siglir í strand á fljóti tára minna, fley þitt er líkami minn.

Æðri máttur (1 álit)

í Ljóð fyrir 21 árum, 9 mánuðum
Bundnar hendur og brjálæði böl og endalaus sársauki blóðhlaupin augu, böðlar verki mun bera að eilífu þeirra merki. Ég græt og gnísti tönnum gefst loks upp fyrir mönnum sem ekki sjá að agnar sál þjáist þeirra vegna, en það er víst ekki mitt að hegna.
Hugi notar vefkökur til að bæta notendaupplifun á vefsíðunni og greina umferð um hana. Einnig hefur Hugi uppfært persónuverndarstefnu sína. Skoðaðu stefnuna hér..
Ok