Já, sá þetta í Blaðinu í dag. Skal skrifa þetta nákvæmlega eins og stendur þar.
Galli í skrá Firefox
Galli hefur fundist í Firefox-vafranum frá Mozilla sem gerir það að verkum að tölvuþrjótar geta rænt upplýsingum frá þeim netverjum sem nota vafrann. Sama galla er að finna í Internet Explorer frá Microsoft.
Þetta þykja miklar fregnir í netheimum þar sem gallar í vafranum frá Mozilla hafa fram til þessa þótt afar fátíðir og standa Explorer-vafranum langtum framar.
Gallinn liggur í skrá vafrans sem heldur utan um lykilorð notanda inn á hinar ýmsu vefsíður, svo sem MySpace. Tölvuþrjótar geta sent netverjum ruslpóst þar sem þeir biðja þá um að fara á tiltekna síðu sem krefst lykilorðs. Þegar netverjar gera það þá fer lykilorðið á síðu, sem þrjótarnir hafa búið til í þeim tilgangi að safna lykilorðum. Með því móti komast þrjótarnir inn á þær vefsíður, sem annars eru óviðkomandi læstar.
Að sögn forsvarsmanna Mozilla fannst gallinn í síðasta mánuði og er hann talinn alvarlegur enda gerir skráin engan greinarmun á því hvort hún sendir lykilorð á vafrann sem upphaflega óskaði eftir því eður ei.
Að sögn Mozilla er sami galli í Explorer-vafranum. Öryggi í honum hefur hins vegar verið hert til muna og kannar sambærileg skrá nú hvort lykilorðið fer á þann vafra sem óskaði eftir því eða til vefja tölvuþrjóta.