Áætlað er að einn milljarður manna geti tengst Netinu árið 2005, að því er fram kemur í nýjum áætlunum um netnotkun á næstu árum. Greiningafyrirtækið IDC telur að Evrópubúar muni vera í fararbroddi hvað netnotkun varðar á næstu árum og muni stuðla að aukinni verslun á Vefnum. Segir að verslun á Vefnum hafi numið 35.400 milljörðum ísl. króna árið 2000 en muni nema 550 þúsund milljörðum ísl. króna árið 2005, að því er fram kemur á netmiðlinum ZDNet.
Fyrirtækið IDC spáir því að netnotkun aukist mjög í Suður- og Mið-Ameríku og einnig á Asíu-Kyrrahafssvæðinu. IDC spáir því að árið 2005 muni álíka margir netnotendur koma frá Evrópu og Asíu-Kyrrahafssvæðinu en að Bandaríkin verði þá komin í þriðja sæti.
Talið er að þróunin endurspeglist í netverslun. Sem stendur hafa Bandaríkin 46% af markaðinum í netverslun en spáð er að árið 2005 verði þetta hlutfall komið niður í 36%. Netverslun mun aukast jafnt og þétt á öðrum svæðum á þessu tímabili en þó mest í Evrópu og á Asíu-Kyrrahafssvæðinu.
af www.mbl.is