Ruslpóstur - hvað má og hvað ekki? Ástæða þess að ég rita þessa grein er að ég var rétt í þessu að fá sendan óumbeðinn auglýsingapóst á netfangið mitt frá ákveðnu líftryggingafélagi hér á landi. Nú fæ ég tugi skeyta á hverjum degi frá erlendum aðilum sem eru að bjóða mér allt frá náttúrulegu Viagra til DVD brennara. Hingað til hef ég leitt þessar leiðinlegu sendingar að mestu hjá mér, nota síur í póstforritinu til að fjarlægja mesta sorann og hendi afgangnum beint í ruslakörfuna. En þegar íslenskir aðilar hafa sent mér slíkan póst hef ég undantekningalaust svarað viðkomandi með ábendingu um hvaða reglur gilda um slíkar sendingar og stundum hef ég áframsent slík skeyti til Internetþjónustu viðkomandi með beiðni um að þjónustan komi þeim ábendingum til skila.

Á sínum tíma var til apparat sem hét Internet á Íslandi og birti það fyrirtæki m.a. á heimasíðu sinni reglur um samskipti á Netinu og hvað væri leyfilegt og hvað ekki (Acceptable Use Policy,
AUP). Meðal annars sem þar kom fram var að sending óumbeðins auglýsingapósts væri ekki leyfilegur og að IntÍs áskyldi sér rétt til að loka fyrir aðgang aðila sem ekki færi að þessum reglum. Ég notaði þessa síðu óspart í svör mín til spammaranna og hafði það a.m.k. þau áhrif að undantekningalaust fékk ég frið frá viðkomandi eftir það.

Nú hefur Íslandssími yfirtekið rekstur Internets á Íslandi og þessar reglur eru hvergi finnanlegar á vef þeirra. Þýðir það þá að þessar reglur eru ekki lengur í gildi? Hver setur reglur um hvað má á Netinu og hvað ekki? Er Netið þá stjórnlaust? Er allt leyfilegt? Má hvaða vitleysingur sem er senda skrilljón auglýsingar blindandi til tölvupóstnotenda?

Til upplýsingar læt ég fylgja skeytið sem ég fékk sent og tókst að pirra mig svo mikið (nöfn fjarlægð):

— skeyti byrjar —

Góðan daginn


Nafn mitt er ***
Ég er tryggingarráðgjafi hjá ***

Ég var að velta fyrir mér tveimur spurningum ……
1. Ert þú með persónutryggingar, þ.e.a.s sjúkdóma og líftryggingu ?
2. Ert þú að nýta þér Viðbótarlífeyrissparnaðinn sem í boði er ?

Ef þú hefur áhuga á að kynna þér þetta nánar er ég tilbúinn að heimsækja þig og veita þér ráðgjöf í þessum efnum.
Þá get ég einnig reiknað út fyrir þig hvað slík trygging kostar.
Ég get frætt þig um hvað viðbótarlífeyrissparnaður hefur í för með sér og af hverju þú ert að missa af í þeim málum ef þú ert ekki að nýta þér hann.

Ef þú hefur áhuga á að fá sendann upplýsingarbækling um efnið eða fá ráðgjöf þá endilega hafðu samband.

Ef þú ert með þessar tryggingar eða ert búinn að nýta þér sparnaðinn þá biðst ég velvirðingar á ónæðinu.

Með kveðju

Jón Jónsson
*** líftryggingar
Sími: ***
Gsm: ***
netfang: ***

— skeyti endar —

Að lokum eru hér tvær áhugaverðar vefslóðir sem fjalla um ruslpóst af þessu tagi:


http://www.snerpa.is/notendur/spam/hspam-is.phtml

http://www.netverjar.is/baratta/ruslpostur/