Mánudaginn 19. nóvember síðastliðinn féllst fulltrúi Sýslumannsins í Hafnarfirði á kröfu fjögurra rétthafasamtaka (gerðarbeiðenda) um að setja lögbann á vefinn torrent.is. Einnig var þess krafist að allir tölvumiðlarar félagsins yrðu teknir en þeirri kröfu var synjað. Framfylgja átti lögbanninu fyrir kl. 15.30 þann sama dag, sem var og gert. Vefurinn hefur legið niðri síðan þá og mun gera það þar til lögbanninu hefur verið aflétt.
Istorrent ehf. mun leita réttar síns í þessu máli og telur að lögbanninu verði aflétt þegar dómari fær tækifæri til þess að kynna sér málið. Til að staðfesta lögbannið þurfa gerðarbeiðendur að höfða einkamál fyrir dómi innan viku frá setningu lögbannsins. Dómari þarf að ákveða að lögbannið skuli haldast, annars skal því aflétt og gerðarbeiðendur þurfa að greiða allan þann skaða sem varð til vegna lögbannsins.
Krafa gerðarbeiðenda á einfaldlega ekki við rök að styðjast og náði einungis fram að ganga vegna þess að félaginu var ekki gefið tækifæri til þess að kynna sér málatilbúnað gegn sér og hrekja þær fullyrðingar sem þar koma fram. Lögbannið er víðtækara en nauðsyn var á til þess að stöðva meinta brotastarfsemi og hvílir á einhliða og ósönnuðum fullyrðingum gerðarbeiðenda. Forráðamenn Istorrents ehf. hafa fulla trú á því að dómstólar muni komast að réttri og réttlátri niðurstöðu og fella lögbannið úr gildi. Búist er við því að málið taki einhvern tíma í afgreiðslu og verði kostnaðarsamt.
Málflutningur gerðarbeiðanda í fjölmiðlum hefur verið mjög ónákvæmur og vill Istorrent koma að leiðréttingum við fréttatilkynningu SMÁÍS sem send var út í tengslum við lögbannið. Rangt er að lögregla hafi sótt framkvæmdastjóra Istorrents ehf., Svavar Lúthersson, eða hann verið færður til yfirheyrslu. Hið rétta er að lögregla hefur ekki ennþá talið ástæðu vera fyrir hendi til þess að grípa til aðgerða í þessu máli og er það þess vegna sem SMÁÍS, STEF og önnur rétthafasamtök telja sig knúin til þess að fara í lögbannsmál. Ef Svavar Lúthersson nýtur réttarstöðu grunaðs manns að einhverju leyti þá er honum ókunnugt um það, þrátt fyrir ítrekaðar fullyrðingar talsmanna SMÁÍS sem miða að því að mála hann sem hættulegan glæpamann. Hið rétta er að Svavar hefur ekki verið ákærður fyrir neinn glæp og fullyrðingar um annað eru eingöngu hræðsluáróður og ærumeiðingar í garð Svavars og fyrirtækisins.
Er hér með skorað á Snæbjörn Steingrímsson, framkvæmdastjóra SMÁÍS, að biðjast afsökunar á þessum ummælum opinberlega. Í þessu máli kemur hann ekki einungis fram fyrir hönd sjálfs sín og SMÁÍS heldur verður óhjákvæmilega að nokkru leyti einnig talsmaður fyrir SÍK, STEF og FHF. Þessum fjórum rétthafasamtökum tilheyra þúsundir góðra listamanna, sem forsvarsmenn Istorrents ehf. ásamt Íslendingum öllum óska alls hins besta. Að mati forsvarsmanna Istorrents er listamönnunum mikill bjarnargreiði gerður þegar réttinda þeirra er gætt af slíku offorsi að sannleikur og réttlæti eru látin sitja á hakanum.
Istorrent ehf. harmar sumar þær aðferðir sem almenningur hefur ákveðið að beita til að tjá sig um ranglæti lögbannsins og vill koma því á framfæri að þær koma ekki frá félaginu sjálfu. Við hvetjum notendur til að beita siðprúðum aðferðum til að koma skoðunum sínum á framfæri. Snæbjörn Sigurður Steingrímsson, saklaust fórnarlamb almennings, er hér með beðinn afsökunar á framferði þeirra sem beindu ásökunum sínum að honum í misgáningi.
Istorrent ehf. á og rekur vefinn torrent.is, en hann gengur út á frjáls skráaskipti skráðra notenda hans. Að gefnu tilefni skal það áréttað að reglur vefsins banna skráaskipti á höfundaréttarvörðu efni, ásamt öðrum lagabrotum. Samtals voru um það bil 26.500 virkir aðgangar á vefnum þegar lögbannið var sett á. Þar sem vefurinn sjálfur er ekki uppi þá getur almenningur haft samband við okkur með því að senda tölvupóst á netfangið torrent@torrent.is ef það vakna einhverjar spurningar um málið.