Nefnd um tölvuglæpi vill ritskoða alla netumferð í Noregi
Norsk nefnd sem skipuð var til að berjast gegn tölvuglæpum leggur í dag fram tillögur til norska dómsmálaráðherrans þar sem lagt er til að netveitum verði gert skylt að ritskoða allt efni sem sótt er um netið og loka á það sem stríðir á einhvern hátt gegn norskum lögum. Andstæðingar tillögunnar líkja henni við ritskoðun kínverskra stjórnvalda. Fréttavefur Dagbladet segir frá þessu.
Þannig verður norskum almenningi meinaður aðgangur að hvers kyns klámefni, fjárhættuspilum, vefsíðum sem tengjast óheimilli dreifingu á tónlist og kvikmyndum, vefsíðum þar sem aðrar þjóðir eru hafðar að háði, og vefsíður sem hvetja til haturs eða mismununar.
Ef af verður verða lögin þau lang-ströngustu á öllum Vesturlöndum. Fjórir af sex meðlimum hafa reyndar lagst gegn tillögunum, en tveir þeirra hafa lagt þær fram í nafni minnihluta og er það norska dómsmálaráðherrans að ákveða hvort ráðist verður í að framkvæma þær.
Hafið var að loka á allar vefsíður sem vitað var að tengdust barnaklámi ári 2005 og var mikil samstaða um þær aðgerðir. Þeir sem lagt hafa fram tillögurnar nú segja að þær aðgerðir hafi ekki heppnast nógu vel og að því þurfi að beita víðtækari aðgerðum og loka á allt efni á netinu sem telst stríða gegn norskum lögum.
Svein Willassen, einn meðlima nefndarinnar, segir alla sammála um að loka þurfi á vefsíður sem innihaldi barnaklám, þær siur sem nú séu virkar þjóni sínum tilgangi ágætlega en að tillögurnar muni verða til þess að lokað verði á margar löglegar vefsíður.
Willassen segir að ef loka eigi alfarið fyrir umferð þurfi að loka aðgangi að viðkomandi vefþjóni, mörg vefsvæði geti þó verið á einum vefþjóni og þannig verði lokað á vefsvæði sem ekki innihaldi neitt ólöglegt efni.
Þá gagnrýnir meirihluti nefndarinnar að með tillögunum sé ekki verið að ráðast gegn þeim sem framleiða efni sem stríðir gegn lögum, heldur þeim sem stjórna umferðinni og því bitni aðgerðirnar á röngum aðilum.
Eftir að hafa lesið þessa frétt þá segior ég að frændur okkar Norðmenn eru klikk ef þetta verður að veruleika. Meina þetta er brot á persónufrelsi. Að ritskoða allt sem fer í gegnum netveitur er alveg út í hött, eða eins og þeir vilja “Þannig verður norskum almenningi meinaður aðgangur að hvers kyns klámefni, fjárhættuspilum, vefsíðum sem tengjast óheimilli dreifingu á tónlist og kvikmyndum, vefsíðum þar sem aðrar þjóðir eru hafðar að háði, og vefsíður sem hvetja til haturs eða mismununar.”
Ætli vinur okkar Björn Bjarnason dómsmálaráðherra komi ekki með eitthvað svona næst ???