Sælir netverjar.

Ég er nýr hér, og dett í rauninni inn eingöngu til að koma á framfæri upplýsingum sem mér þykja heldur betur eiga erindi við netverja hvar sem er.

Væntanlega hafa einhverjir hér heyrt um DRM (Digital Rights Management) sem má í stuttu máli segja að snúist um viðleitni útgefenda efnis á digital formi (tónlistar, myndefnis og þar fram eftir götunum) til að verja rétt sinn til verksins, einkum gegn ólöglegum fjölföldunum og niðurhali af netinu.

Það þykir ekki öllum sjálfgefið að útgefandi geti takmarkað frelsi þess sem kaupir vöru (t.d. geisladisk) til að nota eign sína að öðru leyti en því sem lýtur að höfundarréttarlöggjöf, en stór fyrirtæki vilja eins og menn geta væntanlega ímyndað sér helst hafa sem mest um það að segja hvað þú gerir við þinn geisladisk heima hjá þér, þótt þú hafir keypt hann löglega úti í búð.

En nú eru menn heldur betur farnir að færa sig upp á skaftið.

Hér er linkur inn á blogg Mark Russinovich hjá Sysinternals.com. Þar lýsir hann því hvernig hann fyrir tilviljun uppgötvaði rootkit á tölvunni hjá sér. Rootkit er í mjög stuttu máli njósnaforrit sem hylur slóð sína með þeim hætti á tölvunni að eigandi tölvunnar á gríðarlega erfitt með að sjá að tölvan sé smituð, hvað þá losna við óværuna nema með tímafrekri enduruppsetningu á stýrikerfi með öllu saman. Menn verða eiginlega að lesa bloggið til að sjá hvað það útheimti mikla vinnu hjá honum að losna við þetta drasl af tölvunni sinni.

http://www.sysinternals.com/blog/2005/10/sony-rootkits-and-digital-rights.html

Svo fór hann að skoða betur hvað þetta gerir, og þá kemst hann að því að þetta er forrit sem Sony laumar inn á tölvuna með copyrighted CD útgefnum af þeim. Notandinn er hvergi spurður um samþykki fyrir því að hlaða njósnaforriti sem fylgist með ýmsustu hlutum í tölvunni sem koma Sony ekkert við fyrir nú utan það að bjóða hökkurum greiðan aðgang að tölvunni með til þess skrifuðum vírusum.

Mæli með því að menn kíki á þessa grein, og versli aldrei framar við Sony. Hvorki diska né sjónvörp, myndavélar, memory sticks eða nokkra aðra vöru frá þessum ofbeldisfullu valdníðingum. Þeir eiga að skammast sín!