Þú nefnir þarna nokkrar athafnir sem allar eru lágkúrulegar, og aukinheldur ólöglegar, og klykkir svo út með “…sjálfsagt að ég geri það.” - þú ert jú eftir allt ekki einn um að vera flón!
Tölvuvandalismi á þó meira skylt við að rispa bíla með lykli en nokkuð af ofantöldu, eða að ganga örna sinna í sandkassa - sérstaklega hvað þroskastig varðar. Fórnarlömbin eru eðli málsins byrjendur (börn í sandkassadæminu), enda þarf skriftukrakkinn eðli málsins samkvæmt að ráðast á garðinn þar sem hann er lægstur; sæmilega upplýstir notendur falla ekki fyrir slíkum leikskólabrögðum, svo tilvalið er að finna sér fórnarlömb á stöðum á borð við #iceland.
“Svona er lífið…. ekkert hægt að gera”
Lög eiga ekkert síður rétt á sér þótt trauðla sé hægt að framfylgja þeim, enda oft um mikilvæg málefni að ræða í slíkum tilvikum. Tölvuvandalismi er ólöglegur, og verðmæti gagna í mjög mörgum tilvikum margfalt meiri en búnaðarins sem hýsir þau.
Með því að senda notendum meðvitað varasamar skrár ertu að brjóta notkunarreglur netþjónustunnar þinnar, og hegningarlög að auki. Því miður er lítið um að íslensk fórnarlömb stafræns heigulsháttar kæri atvikin, en færist þó í vöxt. Netþjónustum ber skylda til að halda til haga nauðsynlegum upplýsingum (log-skrám) til að rekja slíka misnotkun, og er ávallt unnt að tengja ip-tölu við notandanafn, og símanúmer hafi stolinn aðgangur verið notaður.
Reyndar er e.t.v. óþarfi að eyða einhverju púðri í þessi ósköp þar sem þetta eldist jú iðulega af mönnum fyrr en gelgjubólurnar.