Góðan dag,

Ástæða þessara greinaskrifa er þrautarganga mín eftir að ég skipti um netþjónustuaðila, allt í einu fór mjög stabíl langtíma netnotkun að fela í sér mikla aukningu á erlendu gagnamagni sem féll utan áskriftar, ég hafði semsagt verið í tæp 2 ár hjá einu stóru Internetfyrirtæki, og fékk síðan löngun til að skipta, eftir skiptin tóku að berast mun hærri netnotkunarreikningar en ég átti að venjast. Þetta fékk mig til að hugleiða hver tryggði það að mæling þessara fyrirtækja væri rétt, af þessum athugunum er þessi grein sprottin.

Þetta átti að vera svona skyndigrein, en þegar ég fór að kynna mér þetta mál kom í ljós að málið þurfti meiri aðdraganda og átti skilið alvöru vinnubrögð. Ég reyndi því að nálgst málið eins og ég held að alvörublaðamenn myndu vinna svona mál. Ég setti mig í samband við Löggildingarstofuna, Póst og fjarskiptastofnun, Ogvodafone, Símann Internet og Margmiðlun og spurði netfyrirtækin eftirfarandi spurninga.

1. Er fyrirtæki ykkar að aðgreina og skuldfæra á ykkar viðskiptavini erlent niðurhal ?

2. Eru mælieiningar ykkar lögiltar af Lögildingarstofu Íslands ?

3. Hver er þá ástæða þess að mælarnir eru ekki lögiltir ?



Svör fyrirtækjanna eru að finna neðst í þessari grein.

Í dag virðist netið snúast frekar um gagnamagn en bandvídd, markaðurinn virðist vera orðinn sáttur eða sáttari við þá bandvídd sem í boði er. Það er hinsvegar að verða mjög ljóst að gjaldtaka á gagnamagni er að standa í netverjum og stendur jafnvel vexti internets á Íslandi fyrir þrifum, ástæður fyrir gjaldtökum eru eins margar og þjónustuaðilarnir og verður ekki fjallað efnislega um þær ástæður í þessari grein. Eina sem við vitum er að svona gjaldtaka tíðkast ekki víða.

Það sem mig langar að benda á hinsvegar er það að samkvæmt þeim upplýsingum sem ég fékk frá Löggildingarstofu er í lögum skilyrði um að allir mælar og vogir skulu vera lögiltir af Löggildingarstofu. Hinsvegar eru menn ekki á eitt sáttir hvort að þetta á við um fjarskiptafyrirtæki eður ei, en ég verð að ganga út frá að svar Lögildingarstofumanna hafi verið rétt. Ef það reynist hinsvegar að fjarskiptafyrirtækin séun undanþeginn þessu ákvæði er það spurning hvort það sé rétt að ekki sé krafist lögildingar á þessum mælum(dælum) eins og á grænmetisvigtinni í Bónus eða bensíndælum Atlantsolíu.

Eftir að ég fór kynna mér málið og eftir samtöl við Póst og fjarskiptastofnun og Löggildingarstofuna kemur í ljós að engir mælar hjá neinum þjónustuaðila (ISP) eru löggiltir. Margir halda því fram að þetta lúti sömu lögmálum og mælingar á lengd símtala og þar sé vinnureglan í heiminum að lögilda ekki mælana sem telja lengd símtala, að þetta sé tækilega erfitt og vísa til þess að símtöl í heiminum falla undir sömu skilgreiningu en séu ekki mæld á lögiltan hátt.

Þarna virðast menn líta framhjá þeirri staðreynd að ef ég hringi í Ólaf Ragnar forseta þá veit ég að ég er að hringja innanlands, ef að Óli er erlendis og flytur símtalið í GSM símann sinn þá borgar hann flutninginn en ekki ég og þar er ákveðin sjáanleiki og gegnsæi.

Ég velti fyrir mér hvaða svör ég fengi ef ég myndi ákveða að opna bensínstöð upp á jökli og bæri fyrir mig að það væri tæknilega erfitt að vera með bensíndælu vegna kulda og afgreiddi því bensín úr plastbrúsa, en gæti hinsvegar fullvissað menn um það að hann væri akkúrat 1 lítri þar sem ég hafi smíða hann sjálfur. Svo myndir ég selja bensín fyrir hundrað milljónir, ég er handviss um að einhver myndi kvarta og kveina.

Ég tel hinsvegar að stóru netfyrirtækin séu að gera þetta nokkuð vel og jafnvel þau smærri líka, en ég tel að þarna verði að fylgja lögum og tryggja að sá lögboðni aðili sem ríkið leggur til sé að fylgjast með þessu og að þeim aðilum sem selja þessa þjónustu sé ekki gert kleift að starfa með óbreytt ástand. Þarna held ég að halli á Lögildingarstofuna, þeir eru ekki að sinna sínu eftirlitshlutverki og kannski hafa þeir hreinlega ekki tæknilega getu né aðstöðu til að uppfylla þessa eftirlits umsjón. Menn sem ég hef rætt við eru margir þeirrar skoðunar að það sé erfitt að setja upp staðla fyrir þetta þar sem menn eru oft á tíðum að vinna með mælihugbúnað sem er smíðaður af söluaðilanum sjálfum.

Þegar ég fer út á bensínstöð treysti ég því að einn l lítri sé í raun 1 lítri, og ekki bara af því að sá sem er að selja mér hann segir það, heldur er ríkið búið að ábyrgjast það með því að löggilda tækið sem dælir vörunni.

Hvernig er hægt að treysta því að þúsundkallarnir sem mér er gert að greiða sé í raun rétt tala, svo bætir t.d Síminn grá ofan á svart með því að setja 10,000 kr gjald á það að fá sundurliðaðan netreikning niður á IP tölur, sem þú að vísu færð endurgreitt ef það kemur í ljós að um misktök er að ræða, en þá aftur erum við að stóla á gögn frá ”ólöglegum mælum”. Ég held að það hljóti að vera réttmæt krafa okkar neytenda að þessum málum sé kippt í lag öllum til gagns.

Eins og segi hér að ofan þá hafði ég samband við nokkra aðila og þeir eru.

Neytendasamtökin: Þar talaði ég við hana Írisi sem er lögmaður neytendasamtakana og hún tók niður ábendinguna og sagði að samtökin myndu taka málið upp.

Löggildingarstofuna: Þarna gleymdi ég hreinlega að taka niður nafn (klaufaskapur hjá mér), þar var méð tjá að einhver bréfaskrif hefðu verið á milli Póst og fjarskiptastofnunar og þeirra í vor, en ekkert hefði verið gert í málinu.

Síman Internet: Talaði fyrst við Þráinn Kristinsson og síðar við Evu Magnúsdóttur upplýsingarfulltrúa Símans, hún kom mér síðan í samband við Guðbjörn Sverrir Hreinsson.

Ogvodafone og Margmiðlun Internet : Þar var hann Pétur Pétursson sá sem svaraði spurningum mínum. Einnig ræddi ég við Kolbeinn markaðsstjóra Margmiðlunar.

Ég læt allan texta með óklipptann og þar sem ekki var um texta heldur símtal að ræða reyni ég að fara með þetta orðrétt.

Ég vill taka það fram á ég á ekki neina aðra hagsmuni af þessari grein en mína eigin sem netverja og neytanda og vill ég þakka þeim sem sáu sér fært í annríki dagsins að svara mér og ykkur þá í leiðinni.

Hér koma svör þeirra:

Sæll Ásgeir,

Vegna fyrirspurnar þinnar frá 25. nóv. 2004 vegna magnmælingar Símans á internet
tengingum þá fylgja hér skýringar og ítarefni.

Spurningarnar eru feitletraðar hér að neðan og svörin eru skáletruð.

1. Er fyrirtæki ykkar að aðgreina og skuldfæra á ykkar viðskiptavini erlent niðurhal?

Já.

Síminn býður margar aðgangsleiðir inn á internetið, t.d. upphringisambönd eins og
PSTN (mótöld) og ISDN (ferjöld), sítengingar eins og xDSL (og xDSL plús) og IuB og
einnig fleiri leiðir eins og Frame Relay og ATM, IP nets tengingar (MPLS) yfir kopar
og ljós (fiber) auk nýrri aðgangsleiða eins og Þráðlaus netsvæði (hotspot).

Langflestar þessara aðgangsleiða eru reikningsfærðar skv. umferð um tenginguna
og fyrir t.d. ADSL þá eru áskriftarleiðir byggðar á bitahraða tengingar og inniföldu
gagnamagni erlendis frá (erlent niðurhal).


2. Eru mælieiningar ykkar lögiltar af Lögildingarstofu Íslands?

Nei.

Mælieiningarnar sem slíkar (bitar og bæti) og forskeyti á þær (K, M, G) eru
alþjóðlega staðlaðar og ekki löggiltar af neinum. Síminn hefur fjarskiptaleyfi
sem er veitt af Póst- og fjarskiptastofnun og Löggildingarstofa hefur ekki
mælst til um löggildingu á hvorki tímalengd símtala né magnmælingu gagna.

Sem dæmi þá mælir og gjaldfærir Síminn lengd símtala með 1 sek. nákvæmni
en önnur fjarskiptafyrirtæki geta og eru að mæla lengd símtala með öðrum
hætti. Engin tilmæli frá stjórnvöldum eru til um hvernig eigi að mæla lengd
símtala eða magn gagna.


3. Hver er þá ástæða þess að mælarnir eru ekki löggiltir?

Einfalt. Engin tilmæli eða skylda eru til þess efnis og einnig er ólíklegt að
til sé stofnun sem væri hæf til þess án undirbúnings vegna þeirrar tækni
þekkingu sem slík stofnun þyrfti að hafa.

Það er hins vegar ljóst út frá lögum nr. 100/1992 um lög, mál og faggildingu
að Löggildingarstofu ber að löggilda slíka mæla sem þessa. S.s. löggilda á öll
þau mælitæki sem notuð eru til að mæla stærðir sem hafa áhrif á verð. Skv.
upplýsingum frá Löggildingarstofu þá hefur þeim eða systurstofnunum í
Evrópu ekki fundið leiðir til að löggilda mæla sem þessa.

Varðandi mælingar á magni þeirra gagna sem viðskiptavinir í ADSL þjónustu
hlaða til sín þá byggir það samkeyrslu tveggja gagnasafna. Annars vegar
tengisögu notenda og hins vegar mælingum frá þeim beinum sem sjá um
útlandagáttir Símans. Tengisaga notenda byggir á svokölluðum radius
pökkum sem aðgangskerfi Símans (bbras) senda reglulega á radius þjóna
Símans. Þessir pakkar eru sendir þegar notendur tengjast og aftengjast
og einnig með reglulegu millibili meðan á tengingu stendur. Með þessum
hætti er vitað hvenær notendur tengjast, hversu lengi þeir eru tengdir,
hvaða ip vistfang þeir fá úhlutað og hvenær þeir aftengjast. Mælingar á
gagnamagni byggja á NetFlow samskiptum og reglulega senda gáttarbeinar
Símans slíkar upplýsingar á safnþjón og þar er þeim upplýsingum safnað
í skrár. Þessar upplýsingar tilgreina hversu mikið gagnamagn hefur verið
sent erlendis frá á ip vistföng hjá Símanum, tímabil og tegund umferðar.

Upplýsingar úr þessum tveim gagnasöfnum eru keyrð saman til að finna
hvað hver viðskiptavinur hefur sótt af magni erlendis frá.

Nefna má að umferð á þekkta uppfærsluþjóna Microsoft er ekki mæld, mörg
vefsetur nýta sér þjónustu frá Akamai og er Síminn með slíka efnisspegla
sem þá mælist ekki sem erlent niðurhal. Má þar nefna t.d. cnn.com. Einnig
rekur Síminn nokkra efnisspegla, t.d. tucows.simnet.is þar sem notendur
geta sótt sér forrit án þess að um erlent niðurhal er að ræða.

Alltaf geta komið upp villur í kerfum og er villumeðhöndlun sjálfvirkur hluti
kerfisins. T.d. byggja radius pakkar á udp samskiptum og slíkir pakkar eiga
það til að týnast. Ef slíkur pakki týnist og enginn pakki berst heldur um
hvenær notandi aftengist þá reiknar kerfið með að notandinn hafi aftengst
á þeirri sekúndu þegar seinustu upplýsingar eru til um að hann hafi verið
tengdur. Ef notandinn hefur verið í raun tengdur lengur og mæld hefur verið
erlend umferð á það ip vistfang sem notandinn var með úthlutað þá er þeim
magntölum hent þar sem ekki eru áreiðanlegar upplýsingar um að þessi
umferð tilheyri notandanum. Einnig geta komið fram villur þar sem ekki er
ljóst hver var með tiltekið ip vistfang úthlutað eða jafnvel kemur fyrir að
fleiri en einn notandi er með sömu tölu yfir stutt tímabil. Við slíkar villur
þá er notkun ekki sett á neinn viðskiptavin.

Fleiri slíkir varnaglar eru í kerfinu til að tryggja að eingöngu áreiðanlegar
upplýsingar séu til grundvallar mælingum.

Minnsta eining til grundvallar mælingum yfir 1 kl.st. er 3 KB (kílóBæt),
3 KB er mjög lítil umferð á slíkum tíma og nánast talist suð. Með þessu
er Síminn einnig að fá fram hagræðingu með því að fækka þeim færslum
sem fara inn í reikningagerðakerfi. Þessi gögn koma hins vegar fram í
sundurliðunum ef þeirra er óskað.

Yfirleitt vita notendur hvert notkunarmynstur þeirra er, en það getur alltaf
komið fyrir að notendur lenda í því að fá reikninga sem það átti ekki von á.
Ýmsar ástæður geta legið þar að baki, t.d. smit af völdum vírusa eða annarra
óværa. Slík smit geta valdið (og valda oft) mikilli notkun og erlendu niðurhali.
Best vörnin gegn því er að viðhalda heimatölvunni og sérstaklega setja inn
öryggisuppfærslur frá framleiðanda stýrikerfisins og einnig að vera með virka
vírusvörn á tölvunni. Síminn býður viðskiptavinum sínum að ná í öryggisuppfærslur
frá Microsoft frítt (þekktir uppfærsluþjónar Microsofts eru ekki teknir með í
mælingum) og býður notendum sínum að setja upp vírusvörn og eldvegg frá
TrendMicro upp á sínum tölvum gegn mjög vægu gjaldi. Síminn greinir líka þá
viðskiptavini sem eru sýktir af vírusum byggt á skeytasendingum sem eru
með vírusum og setur þá viðskiptavini í sóttkví og þeir geta þá ekki smitað
aðra viðskiptavini, vírushreinsað vélarnar hjá sér án þess að missa tengingu
við netið og eru ekki að safna upp óheyrilegu gagnamagni vegna slíkra smita.
Notendur geta samt smitast án þess að Síminn taki eftir því eða verið
misnotaðir á þann hátt að það leiði til hárra reikninga vegna mikils erlends
niðurhals.

Einnig er gott að notendur fylgist með netnotkun hjá sér til að taka eftir því
í tíma ef um misnotkun er að ræða og geta þá jafnvel óskað eftir því að
vera færðir í sóttkví á meðan leyst er úr málinu. Slík þjónusta hefur mælst
vel fyrir.

Síminn sendir tilkynningar til notenda reglulega (aðfaranótt hvers mánudags)
um netnotkun sem notendur ættu að skoða til að vera vissir um að notkun
sé innan þeirra marka sem þeir óska. Einnig geta notendur skoðað stöðu á
notkun hverju sinni á Þínum Síðum á Síminn.is.

Loks er hægt að fá sundurliðun á notkun, bæði yfir tíma og ip vistföng gegn
gjaldi.


Takk fyrir fyrirspurnina og vonandi nýtist þetta. Ekki hika við að hafa samband
ef þig vantar fleiri svör.

-GSH


Kveðja / With regards

Guðbjörn Sverrir Hreinsson
Tæknistjóri Internetþjónustu
IT Manager


Ég ræddi við Bjarna hjá Póst og fjarskiptastofnun, áttum ágætisspjall, hann ætlaði á láta annann aðila hringja í mig til að ræða þetta nánar, 2 dögum seinna hefur hann ekki enn hringt.

Ogvodafone sendi ekki svar, þrátt fyrir að hafa beðið mig um lengri tíma til að svara, þá barst ekkert svar frá þeim í dag.ef svarið berst mun ég bæta því við greinina.


Löggildingarstofan tjáði mér að þessir mælir væru sannarlega lögildingarskyldir,en þeir hafi ekki tekið þessa mæla út en einhver umræða hafði farið fram síðasta vor en engin niðurstaða virtist vera um þetta mál.

Ég vona að þessi grein varpi einhverju ljósi á þetta mikla hagsmunamál netverja og neytenda, þeir sem vilja senda mér línu vegna þessarar greinar, geta náð mér á netfanginu haugur@hotmail.com

Grein þessi var send inn á eftirtalda staði

www.hugi.is
www.malefnin.com
www.haugur.com
www.netfrelsi.is