Var að skoða málin aðeins og ef ég fer ekki með rangt mál þá áttu OgFjarskipti 720 rásir (45mbps) gegnum Cantat-3. Líklegast hefur það verið með IRU (Indefeasible Right of Use) samningi, sem er í raun og veru langtíma leigusamningur (sem gefur algjöran eignarrétt yfir umræddri bandvídd [og oftar en ekki rétt til framleigu] meðan á honum stendur) og er venjulega um eingreiðslu að ræða. Samkvæmt
http://www.bonds.is/icex_news_detail.asp?ArticleId=2899 1&cat=106 seldu OgFjarskipti eignarhlut sinn í Cantat-3 til FARICE hf. fyrir 234 milljónir króna:
“During the period the Company sold its ownership in the Cantat 3 submarine cable. The sales price of the ownership was ISK 234 million. At the same time Og Vodafone purchased a part of the FARICE submarine cable for ISK 114 million.”
IRU eingreiðslan er einungis fyrir afnotin, auk þess bætist við rekstrar og viðhaldskostnaður á ársgrundvelli, þá er heldur ekki í þessu kostnaður við tengingar inná netkerfi á endastöðum.
Langtíma IRU samningar (10-25 ár) eru hagstæðastir á þeim svæðum þar sem framboð er nokkuð en eftirspurn lítil. Þannig getur munað um og yfir 1.000% á verði IRU samnings ef hann fer um streng í Kyrrahafi (dýrara) fremur en Atlantshafi (ódýrustu tengingarnar í dag). Áður var það almenn regla að 25 ára IRU samningur sé hagstæðari heldur en 2 ára leiga á bandvídd á mánaðar basis yfir sama tíma (International Bandwidth 2000, TeleGeography Inc.), þótt ég efist um að það sé svo í dag miðað við þá verðþróun sem verið hefur. Mörg fyrirtæki hafa þó brennt sig á IRU samningum gerðum fyrir árið 2002, og hafa í raun greitt meira heldur en kostar að leigja sömu bandvídd á sama streng í dag. Gæti það verið raunin með íslensk fjarskiptafyrirtæki og berum við endanotendur kostnaðinn?
Einnig gæti vandamálið verið að mögulega er ekki hægt að afskrifa IRU samning (sem er í raun fasteign, 25 ár er meðallíftími sæstrengs) samkvæmt skattalöggjöf hér á landi, það geta þó þeir sem eiga strenginn sjálfann til að byrja með og myndast við það vissar samkeppnisskorður, það gæti meðal annars verið ástæða þess að OgFjarskipti eiga í dag 10% hlut í FARICE hf. Þær netveitur sem vilja versla bandvídd beint gegnum FARICE, ekki gegnum Símann, OgVodafone o.fl. gætu því átt erfiðara í samkeppni við þau.
Í raun mætti kannski segja að rekstur sæstrengja í dag sé nokkurskonar vítahringur; það er þörf fyrir bandvídd, hún er “búin” til, bandvídd eykst með tækniframförum (t.d. DWDM sem FARICE notar til að ná fram 720Gbps burðargetu), verð lækka, ný tækni og þjónusta fyrir endanotendur krefst meiri bandvíddar sem aftur veldur þörf fyrir bandvídd.
Ein þeirra ástæða fyrir því að ég velti þessum málum fyrir mér er einnig sú að OgFjarskipti og Síminn hafa nú selt FARICE tengingar sínar gegnum Cantat-3 og erum við þá mögulega að fara aftur í sama farið þar sem eitt fyrirtæki rekur netsambönd við útlönd, líkt og Internet á Íslandi hér á árum áður. Í raun ríkir engin samkeppni um bandvídd á Íslandi í dag og mun mögulega aldrei verða.