Síðan árið 1997 hófu ákveðnar internetþjónustur hér á landi að setja á sérstakt bandvíddargjald, ef farið var umfram eitthvað ákveðið þá var rukkað fyrir það sem var umfram. Þetta var eini möguleikinn til að rukka þessa svokallaða “ofurnotendur” sem voru gríðarlega virkir í sínu niðurhali.
Nú er svo komið að þetta er orðinn eðlilegur hlutur af internetinu á Íslandi í dag, og flestallir virðast vera orðnir sáttir við hvernig þessu er háttað og ekkert bendir til breytinga. Þó hefur verið eitthvað um mótmæli við þetta fyrirkomulag símafélaganna, en þau mótmæli hafa aldrei náð eyrum manna af mörgum ástæðum.
Ein af þessum ástæðum er t.d. að ekki hefur verið sýnt fram á hvernig við íslendingar myndum hafa það betra ef þessar takmarkanir væru ekki til staðar. Enginn rökstuðningur hefur komið fram sem getur stutt það að afnema þessi niðurhalsgjöld.
Rökstuðningur símafyrirtækjanna fyrir þessum gjöldum er sá að það þurfi að borga fyrir notkun af sæstrenginum og greiða fyrir aðgang að netinu þar sem símafyrirtækin tengjast. Sá kostnaður virðist greinilega vera í takt við hversu mikið íslendingar sækja af gögnum erlendis frá. Að því meira af gögnum sem fara þarna í gegn þá þurfi meiri og betri búnað, auk þjónustu, til að sinna því, og það er ekki ókeypis.
Rökstuðningur baráttumanna fyrir afnámi á þessum niðurhslsgjöldum hefur verið lítill sem enginn. En ég vil reyna að gera tilraun til að rökstyðja afnám á þessum gjöldum.
1. Ísland er ekki samkeppnishæft við önnur lönd þar sem þessar haftir tíðkast ekki. Þar af leiðandi er ekki hægt að bjóða upp á þjónustu á netinu þar sem miðlarinn er hér á landi og því verðum við íslendingar af miklum tekjum.
Hér er ég að tala um þjónustu eins og leikjaþjónustur, vefþjónustur, vefpóstþjónustur og hýsingarþjónustur.
2. Fyrirtæki sem eru í alþjóðlegu umhverfi þurfa að greiða mun meira fyrir aðgang að netinu en samstarfsfyrirtæki þeirra þurfa að gera erlendis. Má sem dæmi nefna tvö auglýsingafyrirtæki, eitt á Íslandi og eitt erlendis. Þau eru í samstarfi og íslenska fyrirtækið þarf að sækja mikið af gögnum frá samstarfsfélaga sínum. Miðað við þau gögn sem auglýsingafyrirtæki eða önnur margmiðlunarfyrirtæki eru að vinna með þá er ekki ólíklegt að stærð á þeim gögnum geti verið tugi gígabæta á einum mánuði.
3. Sérstök niðurhalsgjöld þekkjast ekki á öllum þeim löndum sem við berum okkur saman við. Þ.e. netverjar í þessum löndum eru að borga svipaða upphæð fyrir ADSL aðgang og íslendingar gera, en greiða ekkert fyrir einhverja álagningu eða einhver önnur bandvíddargjöld. Notkun þeirra er ótarkmörkuð. Hérna er um að ræða ákveðinn tvískinnung þar sem símafyrirtækin segja að hér á landi sé símakostnaður mjög lítill, en fela svo raunverulegu verðin í aukagjöldum.
Þegar fólk kaupir sér aðgang að internetinu í dag, þá er það í raun að kaupa aðgang að því að geta borgað fyrir aðgang að internetinu.
4. Verið er að búa til internet á internetinu. Hið íslenska internet kann að vera nóg fyrir suma, en ísland er aðeins lítið brot af hinu raunverulega Interneti. Það eru reyndar kostur að netumferð þurfi ekki að fara langar vegalengdir, en vandamálið er að það er ekki allt hér á íslandi og því ómögulegt að ætla að allir íslenskir netnotendur geti unað við það efni sem finnst á íslenskum netmiðlum. Þetta er ákveðið áhyggjuefni að íslendingar forðist að sækja sér efni erlendis frá, það getur ýtt undir einangrun og ákveðinnar einhæfnisstefnu í upplýsingatæknimálum.
En símafyrirtækin hafa áhyggjur, þau þurfa að greiða einhvern ákveðinn kostnað fyrir tengingu sína við umheiminn, og þau vita ekki hvað gerist ef einn daginn þetta yrði afnumið.
Ég man þegar Síminn ákvað að hafa erlent niðurhal ókeypis eina helgi. Internetið var að hruni komið, allir sem gátu voru að sækja efni af netinu. Að vissu þá eru komnar upp flóðgáttir, og erfitt getur verið að opna þær, en það þarf að gera.
Lausnin mín felst í því að lækka gjöld fyrir erlent niðurhal í skrefum. Nú er það 2,5 kr per MB eða 2.560 kr per GB. Þetta er gríðarlega hátt verð. Þessar 2,5 kr þyrftu að vera orðnar að 1 kr. á þessu ári, og á næsta ári skuli þetta vera afnumið.
Þar með yrði komið í veg fyrir að netið hrynji á einni nóttu af þetta yrði allt afnumið í einu.
Ég leyfi mér einnig að fullyrða það að meginþorri af því erlendu niðurhali sem á sér stað á íslandi í dag er ekki einhverjum venjulegum ADSL notanda að kenna, þetta eru notendur sem hafa aðgang að netþjónum hjá hinum og þessum fyrirtækjum tengdum símafyrirtækjunum, og jafnvel símafyrirtækjunum sjálfum. Þessi notendur notfæra sér aðgang sinn til að sækja efni erlendis frá og borga ekki krónu fyrir, símafyrirtækin leggja svo þessi gjöld á venjulegan notanda.
En símafyrirtækin þurfa samt sem áður að greiða fyrir þessa þjónustu sem þau fá hjá þeim sem veita þeim aðgang að netinu. Mínar tillögur til símafyrirtækjanna eru eftirfarandi:
1. Útvegið ykkur betri samninga!
2. Stoppið í götið hjá ykkur fyrst, og strax!
3. Finnið aðrar leiðir til að greiða þennan kostnaðarlið niður, þið hafið snjallt fólk í vinnu sem getur fundið margar leiðir.
Í alvöru, ég held að þetta sé algjörlega vandamál símafyrirtækjanna. Þau þurfa að útvega sér hagstæðari samninga við netfyrirtækin þarna úti og leysa þetta vandamál innanhúss hjá sér.