Landmælingar Íslands taka heljarstökk
Eftir Örn H. Bjarnason
Ég hef lengi haft gaman að skoða landabréf, sérstaklega ef þau eru nokkuð gömul. Björn Gunnlaugsson, spekingurinn með barnshjartað, sem gaf út Íslandskort árið 1844 er í sérstöku uppáhaldi hjá mér. Þó að uppdráttur hans sé fremur ófullkominn, þá gefur hann samt vissa hugmynd um t.d. hvernig reiðleiðir lágu í þá daga. Þegar augað hefur náð að greina götur frá ám og lækjum, þá má vel sjá reiðleiðirnar svona nokkurn veginn.
Svo eru það gömlu herforingjaráðskortin í mælikvarðanum 1-100000. Þau voru fyrst gefin út eftir aldamótin 1900, en eru ekki lengur fáanleg í upprunalegri mynd. Hins vegar má skoða þau í kortabók, sem liggur frammi hjá Landmælingum Íslands, á lesstofu Borgarbókasafnsins og á bókasafninu í Norræna húsinu. Þessi kort eru gersemi.
Þegar þessi kort voru gerð voru ekkert annað en reið- og gönguleiðir á landinu, nema kannski hægt að skrölta með hestvagn hér og þar. Þessar götur eru sýndar með skýrum, breiðum línum á gömlu kortunum. Þarna eru í stórum dráttum sömu götur og farnar hafa verið frá því í fornöld og hestafólk þræðir þær enn í dag.
Í gegnum árin hafa þessi kort verið endurútgefin. Á þeim hafa verið máðar út úreltar leiðir til að rýma fyrir nýrri vegum. Samt eru sums staðar eftir mjó strik, sem sýna gömlu göturnar, hvar þær liggja að vöðum eða þangað sem ferjur voru eða um hálendið. Þetta eru því á margan hátt fullgild reiðleiðakort og flest hestafólk þekkir þau mæta vel.
Kort á netinu
Nú gerist það á flakki mínu á netinu, að ég ramba inn á heimasíðu Landmælinga Íslands. Þar kennir margra grasa og mér til stórrar gleði er þar að finna þessi endurútgefnu kort í mælikvarðanum 1-100000, sem almenningur hefur fullan aðgang að og ókeypis. Þetta er nýlunda hjá stofnuninni og sýnir góðan skilning á þörfum hestafólks. Kortin eru mjög aðgengileg og hægt að stækka þau eftir þörfum.
Svo að ég leiði ykkur nú fyrstu skrefin að þessum kortum, þá er veffangið lmi.is. Síðan er valinn liðurinn “Íslandskort á netinu.” Neðst á þeirri síðu sem þá kemur upp stendur “kortaskjár.” Það er valið og síðan eruð þið leidd áfram skref fyrir skref.
Þarna er verulega komið til móts við þarfir reið- og göngufólks. Fleira bjóða Landmælingar upp á eins og t.d. flugdiskinn, en á honum er hægt að skoða landið úr lofti í mismunandi hæð, á ýmsum hraða og frá ólíkum sjónarhornum. Eins er hægt að fá kortadisk, sem er einfaldur í notkun og síðast þegar ég vissi höfðu þeir til sölu ljósprentaða útgáfu af korti Björns Gunnlaugssonar í fjórum hlutum.
Drýgsta skrefið til móts við okkur hestafólk er samt birting á þessum nýrri herforingjaráðskortum. Milli þeirra er hægt að flakka yfir vetrarmánuðina og undirbúa þannig sumarferðirnar. Ég er nú ekki mikið fyrir að hrópa húrra, en í þetta sinn finnst mér ástæða til að hestafólk hrópi húrra fyrir Landmælingunum. Þau eiga hrós skilið.
Ég nefni heljarstökk í yfirskriftinni, en úr því að þau eru komin á skrið þarna efra kæmi það mér ekki á óvart að þau taki flikk-flakk líka. Ég býð spenntur eftir að sjá hvaða kanínu þau galdra upp úr hatti sínum næst.