Íslenskir bloggarar Blogg er búið að vera nokkuð lengi til og meira að segja nokkuð lengi á Íslandi. Samt hefur verið mikil sprengja í fjölda bloggara hér á landi undanfarna mánuði. Mér finnst þetta mjög skemmtilegt tjáningarform og byrjaði að blogga fyrir nokkrum mánuðum. Mér finnst “dagbókarbloggararnir” ekki jafn skemmtilegir og “hugsanabloggararnir” því þeir sem nota þetta eins og dagbók skrifa bara um hvað þeir eru og voru að gera á meðan hinir skrifa það sem þeir eru að hugsa sem er miklu skemmtilegra.
Hvað sem því líður þá er ótrúlega mikið af fólki sem bloggar reglulega á Íslandi. Auðvitað er slatti af fólki sem er ekki virkt og bloggar ekki reglulega þótt það eigi bloggsíðu. Mér finnst gaman að lesa skemmtileg íslensk blogg jafnvel þótt ég þekki ekki fólkið. Því setti ég upp vefhring fyrir íslenska bloggara. Vefhringur virkar þannig að þú færð lítinn banner á síðuna þína (ekki mynd, bara linka) þar sem fólk getur farið beint á aðra bloggsíðu og skoðað hvort þar sé eitthvað áhugavert. Þú ferð einnig á lista sem fólk getur flett í gegnum og skoðað lýsingar á hverri síðu.
Svona vefhringur er sniðugt fyrirbæri og er mikið notað meðal bloggara þótt ekki hafi ég enn séð svona á íslensku bloggi. Þegar það er komið slatti af fólki í þetta þá er mjög gaman að þessu. Þetta eykur líka umferð um síðuna þína, og er síðan þín ekki til að fólk geti lesið hana?
Kíktu á:
http://goustadir.simnet.is/maggisv/iceblog.html

Maggi.
http://carrottop.blogspot.com/