Hæ öll,
Sáuð þið greinina í dag í Fréttablaðinu um uppkomandi teikni- og textílnám við Myndlistaskólann í Reykjavík? Það hafa verið fyrri fréttir um þetta á síðasta ári en þetta virðist vera að gerjast meira og jafnvel komið í gang næsta haust. Ég fékk greinina skrifaða upp fyrir mig þar sem ég bý tímabundið í Þýskalandi, datt í hug að fleiri vildu lesa ef þeir hafa ekki aðgang að Fréttablaðinu.
Auðvitað er þetta allt á frumstigi, en mér finnst samt frábært að það loksins verið að bæta við meiri teikninámi hérna heima, og það á háskólastigi. Verður gaman að sjá hvernig þetta þróast!
Greinin:
“Við viljum hefja verklega kennslu til vegs og virðingar, þar sem við álítum meðal annars að mikill auður sé fólgin í því að temja sér verklega kunnáttu.” segir Ingibjörg Jóhannesdóttir, skólastjóri Myndlistaskólans í Reykjavík, sem vinnur nú að því að koma af stað sérhæfðum námsbrautum á háskólastigi í samvinnu við Tækniháskólann - skóla atvinnulífsins, fyrirtækið CCP og fatahönnuðinn Steinunni Sigurðardóttur.
Að sögn Ingibjargar hefur afturför orðið til dæmis í teiknikunnáttu síðustu ár. “Ástæðuna má meðal annars rekja til þess að teiknikennsla á háskólastigi er af skornum skammti í landinu. Eftir að Myndlista- og Handiðnaskólinn varð að Listaháskólanum jókst til að mynda vægi fræðilega hlutans á kostnað þess verklega. Eftir því sem ég kemst næst er þriðjungur námsins fræðilegur.” útskýrir hún.
Ingibjörg bendir á að vegna þessarar þróunnar sé smám saman að skapast gjá á milli framboðs og eftirspurnar eftir verklegu listnámi. “Aldrei hafa fleiri nemendur verið á listnámsbrautum framhaldsskólanna en nú. Að sama skapi er hér vaxandi eftirspurn eftir til dæmis teiknurum með tilkomu fyrirtækja eins og Kaoz og CCP. Á móti vantar einhvern til að brúa bilið og það ætlum við hjá skólanum að gera með því að bjóða upp á tveggja ára nám annars vegar í teikningu og hins vegar í textíl.”
Ingibjörg segir að nemendur væntanlegra námbrauta muni þurfa að uppfylla tiltekin inntökuskilyrði. “Ég geri fastlega ráð fyrir að nemendur þurfi að hafa útskrifast af listnámsbrautum listaháskólanna. Svo er spurning hvort þeir skili líka inn möppu með verkum sínum. Þannig er metin raunveruleg færni viðkomandi aðila.”
Áhersla verður lögð á sterk tengsl milli skólanna tveggja og atvinnulífsins að sögn Ingibjargar. “Þetta er auðvitað á ákveðnu frumstigi en við höfum verið í hugmyndavinnu með CCP vegna teikninámsins og Steinunni Sigurðardóttur vegna náms í textíl. Svo ætlum við að þróa kennsluna í takt við atvinnulífið, til dæmis með hliðsjón af því hvort eftirspurn er eftir almennri eða sértækri verkkunnáttu.”
Ingibjörg bætir við að nemendum gefist auki kostur á að ljúka námi við erlenda listaháskóla, meðal annars í Noregi, Danmörku og Skotlandi. “Eftir tvö ár við okkar skóla geta þeir stefnt á atvinnumarkaðinn eða sérhæft sig með námi við erlenda listaháskóla sem við erum í sambandi við.”