„Flest það sem fer í vöru eins og tölvuleikina sem við framleiðum þarf fyrst að verða til sem hugmynd,“ segir Hilmar Veigar Pétursson, forstjóri tölvuleikjafyrirtækisins CCP. Fyrirtækið vinnur nú að undirbúningi nýrrar teikninámsbrautar í Myndlistaskólanum í Reykjavík í samvinnu við Tækniskólann. Steinunn Sigurðardóttir, fatahönnuður í Steinunni, vinnur að samskonar verkefni með skólunum fyrir nýja textílbraut.

Myndlistakólinn fékk 50 milljóna króna Evrópusambandsstyrk til að þróa og undirbúa námsbrautirnar.

„Reynsla okkar er sú að þegar hugmynd er komin að tölvugrafík er langbest að hún sé teiknuð á blað áður en hún er unnin í tölvuforrit. Sú þjálfun sem fólk fær við það að læra að breyta hugmynd í teikningu nýtist okkur mjög vel,“ segir Hilmar Veigar. Hann segir mikla þörf á markaðnum fyrir fólk með kunnáttu.

„Þetta er hæfileiki sem fólk í listsköpun hefur og þangað sækjum við. Þess vegna viljum við styðja við allar þær hugmyndir sem leiða til þess að þessi kunnátta verði efld á Íslandi.“

Hilmar Veigar segir „endalausan“ skort á fólki með þekkingu á teikningu og að fyrirtækið þurfi að flytja fólk um heiminn í bunkum. „Það eru vissulega margir mjög góðir í þessu fagi á Íslandi, en bara langt frá því að vera nóg af þeim.“

Má sjá greinina hér: http://mbl.is/mm/frettir/innlent/2009/09/17/skortur_a_teiknurum/


Ég segi nú bara, komið með þetta nám strax!

Bætt við 23. september 2009 - 18:45
Smá update, hringdi upp í myndlistarskóla og spurði út í námið. Það er stefnt á að opna þetta nám haustið 2010 og það er ekki alveg komið í ljós hvort þetta verða 2 eða 4 annir.
Legg til að þið hringið eða sendið email þangað þá er hægt að setja ykkur á póstlista sérstaklega varðandi þetta efni.
kveðja Ameza