4.3. Myndlist
Allt hefur einhverja mynd. Sjónræn upplifun er stór þáttur skynjunar og skilnings mannsins á heiminum enda bendir flest til þess að maðurinn hafi allt frá upphafi vega myndgert líf sitt og umhverfi í margvíslegum tilgangi. Myndir hafa sitt eigið tungumál, myndmál,- og maðurinn hefur alla tíð notað myndir sem boðtæki þeirra hluta sem ekki er hægt að lýsa á annan hátt. Myndmál miðlar viðhorfum, skoðunum og hugmyndum samfélagsins ekki síður en tungumál.
Í nútímasamfélagi er myndin gífurlega mikilvægur áhrifavaldur. Fyrir utan hefðbundna myndlist má nefna aukið vægi myndmiðla á borð við kvikmyndir, sjónvarp, auglýsingar, blaðaútgáfu og tölvur. Þáttur myndhugsunar hefur því vaxið hratt í upplýsingasamfélagi nútímans en ekki að sama skapi almennur skilningur á eðli og áhrifamætti myndar.
Eitt af markmiðum myndlistarkennslu er að gera nemendum kleift að greina megineigindir myndrænnar hugsunar og gera nemendur læsa á sjónrænt umhverfi sitt, hvort sem um er að ræða fagurlistaverk listasafna eða myndmál “götunnar”. Að lesa myndir og skilja eðli þeirra og tilgang er nútímamanninum nauðsynlegt til þess að hann hafi vald til þess að meta og velja.
Myndlistarkennsla byggir á því að þroska skapandi hugsun nemanda, þjálfa hann í markvissum vinnubrögðum og gefa honum kost á að vinna út frá persónulegu tilfinningalífi og skynjun.
Ferli og innihald námsins.
Myndlistarkennsla felur í sér ákveðið ferli sem má skilgreina sem sköpun, túlkun og tjáningu annars vegar og sem skynjun, greiningu og mat hins vegar. Myndlistarkennsla skal byggja á því að þroska færni nemanda á báðum þessum sviðum. Eðlilegt vægi og sampil ætti að vera á milli þessara þátta eftir aldri og þroska nemenda.
Við gerð og framsetningu markmiða skal haga áherslum kennslu í samræmi við eftirfarandi þrískiptingu. Nemendur skulu tileinka sér:
Lögmál og aðferðir myndlistar
Grundvallarlögmál * og aðferðir ** myndlistar, efniviður og áhöld miðilsins. Nemendurskuli geta nýtt sér þekkingu á lögmálum og aðferðum myndlistar til skilnings á verkum annarra og til umræðu um myndlist.
* með grundvallarlögmálum er átt við myndbyggingu, tvívídd, þrívídd, rými, formi, áferð, lit, línu.
** með aðferðum er átt við málun, teiknun, grafík, mótun og annarri þrívíddarvinnu, rýmisvinnu, myndbandagerð, ljósmyndun, o.fl.
Sögulegt og þjóðfélagslegt samhengi myndlistar
Það sögulega og samfélagslega samhengi sem list er sköpuð í, þekking um forsendur listamannsins, það samfélagslega umhverfi sem verk sprettur úr. Þekking á sjónrænum menningararfi og á helstu stefnum og straumum í listheiminum. Skilningur í samræmi við þroska og aldur á sértækum grundvallarhugtökum myndlistar, svo sem rými og tíma.
Fagurfræði og listrýni.
Vísar annars vegar til umfjöllunar um eðli listar og fagurfræðilegrar skynjunar og hins vegar til færni hvers og eins til að skynja, greina og meta list og leggja þannig grunn að persónulegu gildismati.
Markmið hvers innihaldsflokks taka mið af báðum ferlunum, þ. e. til hæfni í framsetningu og móttöku eða með öðrum orðum, til færni, þekkingar og skilnings.
Skipan náms í grunnskóla.
Námsmarkmið í grunnskóla miðast við að myndlist sé skyldunám frá 1.- 9. bekkjar grunnskóla og að nemendur fái 2 kennslustundir á viku. Þegar um verklega kennslu er að ræða miðast við hámark 15 nemendur í einu. Í 10. bekk er um valgrein að ræða þar sem nemendur fá 2 - 4 kennslustundir á viku. Námsmarkmið skulu flokkast eftir aldri (1.- 3.bekkur, 4.- 5. bekkur, 6.- 7. bekkur, 8 - 9. bekkur og 10.bekkur). Markviss þjálfun og samfella í myndlistarnámi er undirstaða hæfni nemanda á sviði myndlistar.
Kennsla í myndlist í grunnskólum byggir á hinni verklegu gerð og skoðun myndverka. Nemendum skulu kynnt lögmál og aðferir myndlistar til þess að þeir geti unnið sjálfstætt að gerð eigin verka á þeim grundvelli. Nemendur skulu læra að þekkja og nota efnivið og áhöld miðilsins og þeir skulu ennfremur geta þróað verk frá hugmynd til endanlegrar útfærslu.
Listasögukennsla skal vera hluti af myndlistarkennslu grunnskóla. Fræðileg kennsla skal að hluta til samþætt verklegri kennslu á grunnskólastigi og fari fram með fyrirlestrum, verkefnum, safnaheimssóknum og í tengslum við starfandi listamenn.
Myndlistarkennslan skal efla fagurfræðilega skynjun og þroska myndvit nemenda. Á það jafnt við um nemendur sem gerendur og njótendur í myndlist.
Eðli greinarinnar og markmið fela í sér þörf fyrir viðeigandi aðstöðu, sérbúna stofu, áhöld og tæki.
Lokamarkmið myndlistarkennslu í grunnskóla
Við lok grunnskóla eiga nemendur að:
Sköpun / túlkun / tjáning:
- hafa þekkingu á lögmálum myndlistar til að geta unnið sjálfstætt á grundvelli þeirra að eigin verkum.
- þekkja helstu aðferðir myndlistar og hafi skilning á efnivið og tækni greinarinnar.
- geta fylgt eftir hugmynd til endanlegs verks.
Skynjun / greining / mat:
- hafa öðlast innsýn inn í íslenska listasögu, þekkja helstu stefnur og stíla listasögunnar, kynnst fjölbreytni nútímamyndlistar, ólíkum hugmyndum um eðli listsköpunar.
- geta greint stíl og grunnþætti listaverks.
- skilja áhrifamátt myndarinnar, vera læsir á myndmál umhverfis síns og færir um að túlka myndir á gagnrýninn hátt*.
* t.d. kvikmyndir, auglýsingar, ljósmyndir, dagblöð, tímarit, tölvur.
Skipan náms í framhaldsskóla.
Myndlistarnám í framhaldsskóla getur verið með fernum hætti: kjörsvið listnámsbrautar sem lýkur með stúdentsprófi, tveggja ára listnámsbraut, almennt skyldufag í brautarkjarna eða valgrein. Einnig geta skólar boðið uppá valda þætti tveggja listgreina á kjörsviði listnámsbrauta.
Eðlilegt er að ólíkar áherslur séu lagðar á ferli og innihald greinarinnar eftir því hvort um er að ræða skyldunám, val eða kjörsvið.
Skyldunám, sem ætlað er öllum framhaldsskólanemum, (2 einingar ) skal byggja aðallega á fræðslu um hinn sjónræna menningararf og eflingu myndvits.
Valgreinanám (3 - 4 einingar), standa nemendum allra brauta til boða. Valgreinin myndlist geturverið með margvíslegum hætti. Unnið er með hinn skapandi þátt í verklegri vinnu á grundvelli persónulegs hugmyndaheims og tilfinningalífs. Jafnframt er markmiðið að nemendur öðlist haldgóða yfirsýn yfir menningarumhverfi sjónlista, innlent sem erlent, bæði sem þátttakendur og/eða njótendur.
Myndlistarnám á kjörsviði listnámsbrautar (styttri og lengri): 42 eininga nám í myndlist (nemendur geti þó valið í samráði við skólayfirvöld nám í völdum þáttum tveggja listgreina). Námið skal taka til beggja ferla og hinna þriggja skilgreindu innihaldsflokka.
Menntunin á listnámsbraut er grunnur fyrir frekara námi t.d. á háskólastigi innan sem utan listasviðs.
Lokamarkmið myndlistarkennslu í framhaldsskóla.
Lokamarkmið myndlistar á kjörsviði listnámsbrautar.
Að loknu myndlistarnámi á listnámsbraut eiga nemendur að:
Sköpun / túlkun / tjáning:
- hafa öðlast haldbæra þekkingu og færni á grundvallarlögmálum og aðferðum myndlistar og á efnivið og áhöldum miðilsins.
- geta útfært verk eftir eigin hugmynd, með völdum aðferðum greinarinnar.
- geta skipulagt heildarvinnuferlið frá hugmynd til endanlegs verks og geta yfirfært þá reynslu sjálfstætt í raunveruleg verkefni.
- geta kynnt eigin verk og hugmyndir skriflega, munnlega og á sjónrænan hátt (með sýningu, líkani, myndmiðlum eða öðru).
- geta nýtt sér miðla upplýsingatækni við vinnu sína.
Skynjun / greining / mat:
- hafa kynnst og öðlast skilning á hinum ólíku listrænu tjáningarformum, hvernig þau skarast og vinna saman.
- hafa kynnst samtíma straumum og stefnum í listheiminum og kenningum um eðli lista, með aðaláherslu á sína sérgrein.
- hafa náð tökum á orðaforða greinarinnar.
- geta tekið eftir lýst greint og dæmt um stíl, grunnþætti og lögmál listaverks.
- hafa öðlast grundvöll til þess að tengja listaverk því menningarlega samhengi, sem verkið var skapað í.
- hafa kynnst lögmálum markaðssetningar og hlutverki lista í velmegun og öruggum efnahag.
- geta leitað sér upplýsinga um fagið og geta nýtt sér það við sjálfsnám.
- skilja áhrifamátt myndarinnar, verða læsir á myndmál nútímasamfélags, vera færir um að vinna með myndir og túlka myndir á gagnrýninn hátt.
- þekkja þau fagurfræðilegu gildi sem endurspeglast í upplifun, afstöðu og umgengni mannsins við manngert og náttúrulegt umhverfi og vera meðvitaðir um ábyrgð sína í því samhengi.
Lokamarkmið sjónlista í almennum brautarkjarna:
Sjónlistir eru skylduáfangi sem allir nemendur framhaldsskóla taka og er sameiginlegur myndlist og hönnun. Með sjónlistum er átt við handverk, myndlist og hönnun. Nánar skal kveða á um áherslur í skólanámskrám.
Að loknu sjónlistanámi í almennum brautarkjarna eiga nemendur að:
Sköpun / túlkun / tjáning:
- skilja lögmál og aðferðir sjónlista.
- hafa öðlast yfirsýn yfir heildarvinnuferlið frá hugmynd til endanlegs verks.
Skynjun / greining / mat:
- þekkja íslenska sjónlistaarfleifð, hafa yfirsýn yfir stefnur og strauma í sjónlistum nútímans í sögulegu og félagslegu samhengi.
- geta nýtt sér þekkingu sína á sjónlistum sem grunn að persónulegu mati.
- vera læsir á myndmál nútímasamfélags * og færir um gagnrýna umræðu um sjónlistir.
* t.d. kvikmyndir, auglýsingar, ljósmyndir, dagblöð, tímarit og tölvur.
Lokamarkmið myndlistar sem valgreinar.
Að loknu námi í myndlist að vali, eiga nemendur að:
sköpun / túlkun / tjáning:
- hafa skilning á grundvallarlögmálum og aðferðum myndlistar og öðlast haldbæra þekkingu á efnivið og áhöldum miðilsins.
- hafa öðlast yfirsýn yfir heildarvinnuferlið frá hugmynd til endanlegs verks og geta yfirfært þá reynslu sjálfstætt yfir í önnur verkefni*.
* hugmyndavinna/portfolio.
Skynjun / greining / mat:
- þekkja íslenska myndlistararfleifð, hafa yfirsýn yfir helstu stefnur og stíla listasögunnar og geta sett í sögulegt og félagslegt samhengi*.
*fyrirlestrar, safnaheimsóknir, tengsl við starfandi listamenn, rannsóknarvinna og verkefni.
- geta nýtt sér þekkingu sína á lögmálum og aðferðum myndlistar til skilnings á myndlist annarra og til umræðu um myndlist.
- skilja áhrifamátt myndarinnar, verða læsir á myndmál nútímasamfélags, vera færir um að vinna með myndir og túlka myndir á gagnrýninn hátt.
- þekkja þau fagurfræðilegu gildi sem endurspeglast í upplifun, afstöðu og umgengni mannsins við manngert og náttúrulegt umhverfi og vera meðvitaðir um ábyrgð sína í því samhengi.
Þetta er tekið af síðunni http://www.ismennt.is/vefir/namskra/listir/myndlist.html